10.02.1981
Neðri deild: 50. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram er ætlun ríkisstj. að fjalla um breytingar á tekju- og eignarskattslöggjöfinni í tvennu lagi, þannig að annars vegar er nú til meðferðar frv. um nokkrar breytingar sem þurfa að liggja ljóst fyrir áður en framtalsfresti einstaklinga lýkur, en eins og kunnugt er hefur framtalsfrestur verið framtengdur til 18. febr. n.k. Hins vegar er ætlunin að leggja fram sérstakt frv. um aðrar þær breytingar, sem talið er nauðsynlegt að gera á núgildandi tekju- og eignarskattstögum, þegar nægilegur tími hefur gefist til athugunar á þeim málum og gögn þau, sem óhjákvæmileg eru, hafa borist. Því miður vantar enn mikið á að gögn hafi fengist til þess að hægt sé að framkvæma þá skoðun á skattaálagningu seinasta árs sem stefnt hefur verið að.

Það frv., sem hér hefur verið lagt fram, fjallar einungis um tvö atriði núgildandi skattalaga, þ.e. annars vegar um frádrátt vegna kostnaðar við handverkfæri iðnaðarmanna og hljóðfærakostnað hljóðfæraleikara og svo hins vegar um vaxtafrádrátt.

Eins og margan mun reka minni til voru gefnar út yfirlýsingar við gerð kjarasamninga í okt. á s.l. ári sem höfðu þann tilgang að auðvelda lausn kjaradeilunnar. Eitt þeirra atriða, sem komu þar fram og höfðu verið samþykkt af ríkisstj. og stjórnaraðilum, var yfirlýsing þess efnis að fjmrh. mundi beita sér fyrir breytingum á tekjuskattslögum á þá lund, að kostnaður launþega í löggiltum iðngreinum vegna kaupa á handverkfærum yrði frádráttarbær frá tekjum. Eins og flestum er kunnugt er ýmiss konar kostnaður enn frádráttarbær við ákvörðun skattgjaldstekna þó að frádráttarliðum hafi mjög verið fækkað eftir að tekin var upp almenn 10% frádráttarheimild. Einn af þeim liðum, sem féllu niður við breytinguna sem gerð var á skattalögum árið 1978, var frádráttur vegna verkfærakostnaðar. Að nánar athuguðu máli þykir hins vegar eðlilegt að jafna þessum kostnaði við annan þann kostnað sem menn hafa af öflun tekna, t.d. bifreiðakostnað, ferðakostnað og fæðiskostnað, og af þeirri ástæðu er hér lagt til að gerð verði breyting á lögunum í þessa átt.

Þegar frv. var lagt fram var till. gerð um það að frádrátturinn félli undir C-lið 30. gr. laganna, en frádráttarliðirnir eru fimm talsins og flokkast í A-, B-, C-, D- og E-frádráttarliði, og er nokkuð mismunandi hvaða afleiðingar það hefur í hvern flokk frádrátturinn flokkast. En við nánari athugun málsins hefur verið ákveðið að gera ráð fyrir því, að hér verði um að ræða A-flokk frádráttar, og hefur hv. Ed. samþykkt frv. í þeim búningi. Það þykir eðlilegri málsmeðferð og sanngjarnari á allan hátt. Orðlengi ég það ekki frekar.

Um vaxtafrádráttinn er það að segja, að um hann eru ítarleg ákvæði í 30. gr. skattalaganna, en samkvæmt þeim er hámark vaxtafrádráttar fyrir einhleyping 1.5 millj. gkr., sem með skattvísitölu 145 hefði orðið um 2.2 millj., og þá fyrir hjón um 4.4 millj.

Í frv. var gert ráð fyrir að hámark vaxtafrádráttar hækkaði þannig að hann yrði fyrir einstakling að skattvísitölunni meðtalinni 3.6 millj. gkr., en 7250 millj. gkr. fyrir hjón. Ekki hefur verið gerð nein breyting á þessu atriðið í meðferð málsins í Ed. En í Ed hafa verið gerðar nokkrar breytingar til viðbótar, sem allar horfa til rýmkunar og til ívilnunar fyrir skattgreiðendur.

Í fyrsta lagi, að verulegar endurbætur á íbúðarhúsnæði eru lagðar að jöfnu við íbúðarkaup, þó því aðeins að endurbæturnar nemi 7% eða meira af fasteignamati íbúðarinnar í árslok.

Í öðru lagi er skilgreiningin á þeim lánum, sem eru frádráttarbær án tillits til þess, hversu langt er liðið frá öflun íbúðarhúsnæðis, rýmkuð á tvennan hátt. Undir þennan flokk lána falla nú öll fasteignaveðlán til tveggja ára eða lengri tíma, en í lögunum er krafist a.m.k. þriggja ára lánstíma. Er þetta óhjákvæmileg breyting með tilliti til þess, að bankar hafa lánað húsbyggjendum fasteignaveðlán í stórum stíl sem þó ná ekki þriggja ára markinu. Enn fremur er skilgreiningin rýmkuð á þann hátt, að á gjaldárinu 1981 eru lán til tveggja ára eða lengri tíma til öflunar íbúðarhúsnæðis, sem tryggð eru með sjálfskuldarábyrgð þriðja manns, lögð að jöfnu við fasteignaveðtryggð lán. Ætti þá töluvert mikið af vaxtaaukalánum, sem veitt hafa verið að undanförnu, að falla innan þessarar skilgreiningar.

Í þriðja lagi hafa tímamörk frá kaupári eða upphafsári byggingar, sem lausaskuldir eru frádráttarbærar, verið rýmkuð allverulega. Frádráttarbærni lausaskulda, sem tengdar eru íbúðarkaupum, er lengd úr tveimur árum í þrjú ár, en frádráttarbærni lausaskulda, sem tengdar eru íbúðarbyggingum, er lengd úr fjórum árum í sex, talið frá og með því ári sem bygging er hafin.

Öll þau atriði, sem nú hafa verið nefnd, komu fram í till. meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed., og Ed. féllst á þessar breytingar. Ég vil sérstaklega benda á það, að annar stjórnarandstöðuflokkurinn, Alþfl., stendur að afgreiðslu frv. og samþykkt brtt. ásamt stjórnarliðum. En fulltrúar Sjálfstfl. skiluðu séráliti og sértillögum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. Ég hef ekki haft aðstöðu til að láta reikna út hvað þessar breytingar hafa í för með sér mikil aukaútgjöld fyrir ríkissjóð. En ég hygg að það sé ekki langt frá 700-800 millj. kr. sem vaxtabreytingin ein sér kostar ríkissjóð.

Ég legg til, herra forseti, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.