10.02.1981
Neðri deild: 50. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja hér örfá orð um málsmeðferð.

Það var í upphafi síðustu viku að ég kvaddi mér hljóðs hér í deild í upphafi fundar utan dagskrár til þess að spyrjast fyrir um hvað liði afgreiðslu á frv. sem við tveir þm., ég og hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, fluttum um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem fjallað var sérstaklega um vaxtafrádrátt. Þetta frv. fluttum við hér í nóv. og því var um miðjan nóv. vísað til hv. fjh.og viðskn. þessarar deildar., en hafði ekki hlotið afgreiðslu. Ég taldi sérstaka ástæðu til að spyrjast fyrir um það þegar ég sá að hæstv. fjmrh. hafði lagt fram í Ed. frv. um sama efni, sem að vísu gekk allmiklu skemmra en okkar tillögur.

Þessi umr. hér hefur engan árangur borið að því leyti, að okkar frv. situr enn þá í nefnd, en það frv., sem hæstv. ráðh. lagði fram í Ed., er nú komið hingað til Nd. Mér þykja þetta óeðlileg vinnubrögð. Fyrst það, að ekki skuli ganga að fá málið út úr nefnd, og í öðru lagi, að hæstv. ráðh. skuli leggja fram frv. um sama efni í annarri deild þannig að ekki gefst kostur á að ræða það í fyrri deild samhliða því frv. sem við lögðum fram.

Það var í febr. s.l. sem samþykktar voru breytingar á skattalögum. Þær voru flestar tæknilegs eðlis og áttu rætur að rekja til þess, að þá lá fyrir að staðgreiðslukerfi skatta yrði ekki komið á að sinni og þess vegna yrði nauðsynlegt að gera vissar tæknilegar breytingar á skattalögum. Meðal þessara breytinga í febr. voru þó nokkrar efnisbreytingar, m.a. sú, að áratugagömul regla, sem mjög hefur festst í hugum skattgreiðenda, um að vextir væru frádráttarbærir, var afnumin að mjög miklu leyti. Það voru mjög þröng skilyrði sett fyrir því, að vextir gætu verið frádráttarbærir, og sett var ákveðið þak á vaxtafjárhæðirnar. Mjög ströng skilyrði voru um það, til hvers lánin mætti nota, og síðan mjög þröng tímamörk. Ég held að þegar leið á s.l. ár hafi fleiri borgurum — og þá reyndar þm. einnig — verið ljóst að hér var um mistök að ræða, — mistök sem ég held að þm. hafi ekki hugað nægilega vel að á sínum tíma og eru enn þá alvarlegri þegar haft er í huga hversu geysimikil vaxtabyrði hefur orðið á öllum almenningi nú á þessu ári, ekki síst þeim sem eru að koma þaki yfir höfuðið.

Við hv. 7. landsk. þm. sáum því ástæðu til þess að flytja hér fyrir áramótin frv., sem ég gat um áðan til breytinga á þessum reglum. Við gerðum það að till. okkar að þakið, sem er 1.5 millj. í núgildandi lögum, eða lögunum frá því í febr., yrði hækkað í 4 millj. til einstaklinga, en helmingi hærra fyrir hjón, og að tímamörkin og skilyrðin til notkunar lánsins yrðu afnumin.

Um þetta hefur verið ágreiningur hér í hv. Alþingi, og sá ágreiningur speglast í málinu eins og það kemur frá hv. Ed. Menn skiptust þar í minni hluta og meiri hluta. Ég vil nú í þessari umr. gera nokkrar athugasemdir við þá þrjá meginþætti, sem þarna er um að ræða, og víkja að þeim sjónarmiðum sem ég hef í þeim efnum og liggja að baki frv. okkar.

Í fyrsta lagi lögðum við til að vaxtafjárhæðin færi úr 1.5 millj. upp í 4 millj. kr. fyrir einstakling, en yrði helmingi hærri fyrir hjón. Ég skal taka það fram mjög skýrt, að þegar við nefnum 4 millj. í okkar frv., þá var það í okkar huga, að það yrði sú fjárhæð, sem væri í gildi við álagningu árið 1981 vegna tekna ársins 1980, og hún tæki ekki skattvísitölu, að skattvísitala legðist ekki á hana fyrr en á næsta ári. Það kann að vera að þetta sé ekki nægilega glögglega orðað í frv., en okkur til afsökunar höfum við það, að í lögunum, sem samþykkt voru í febrúar, var ekki gert ráð fyrir að þessi upphæð, 1.5 millj., tæki skattvísitölu. Það var gerð leiðrétting á því í maí, þegar skattstigarnir voru samþykktir. En í okkar huga var meiningin, að þessar 4 millj. tækju ekki skattvísitölu á þessu ári. Þetta vil ég að komi mjög skýrt fram.

Að sjálfsögðu má deila um slíkar upphæðir nánast endalaust og hvar eigi að setja mörkin. Við vildum hins vegar hafa þau í hærri kantinum vegna þess að það er vitað mál, að mjög margt fólk — og þar er ekki endilega um hátekjufólk að ræða — ber mjög þung vaxtagjöld sem oft eru í algjöru ósamræmi við þær tekjur sem menn hafa. Það gera menn á þann hátt að þeir taka lán á lán ofan, greiða eldri lánin upp með nýjum lánum og þá hluta af vöxtum eldra lánsins og velta þessu þannig á undan sér í langan tíma þannig að vaxtabyrði manna er oft í algjöru ósamræmi við þær tekjur sem menn hafa. Þess vegna vildum við hafa þetta þak í rýmra lagi. Segja má að nú hafi verið komið nokkuð til móts við þetta sjónarmið okkar, vegna þess að þegar talað er um 2.5 millj. í frv., eins og það lítur nú út frá hv. Ed., þá þýðir það með skattvísitölu ársins í ár 3 millj. 625 þús. kr. Hins vegar held ég að það sé of lág upphæð, og þess vegna tel ég að sú upphæð, sem minni hl. fjh.- og viðskn. Ed gerir till. um, þ.e. 3 millj. með skattvísitölu, sé nær lagi. Þessi upphæð verði síðan helmingi hærri fyrir hjón.

Skilyrði fyrir því, til hvers þetta lán er notað, eru mjög þröng. Ég skal fallast á að það sé rétt og eðlilegt að ganga sérstaklega til móts við þá sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið. En eins og þetta er orðað nú í lögunum segir að þessi lán eigi að vera „lán sem sannanlega eru notuð til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða endurbóta“. Hér hvílir sönnunarbyrðin alfarið á skattborgaranum sjálfum, og skattstofunum og starfsmönnum þeirra er lagt hér í hendur geysimikið vald. Ég tel að þetta sé allt of þröngt og í rauninni sé svo erfitt um allar sannanir í þessu efni, að það eigi að afnema þetta skilyrði, enda er vitað að almenningur þarf oft að taka sér lán vegna ýmissa annarra ástæðna en húsbygginga. Skyndileg efnahagsleg áföll, sjúkdómar o.þ.h. kemur hér til og margt fleira. Ég held að enginn geri sér leik að því í dag, eins og vaxtabyrðin er, að taka lán, þannig að það sé óhætt að sleppa þessum skilyrðum alveg. Þess vegna lögðum við það til í okkar frv.

Tímamörkin vildum við líka fella alveg úr gildi. Þau voru mjög þröng í lögunum eins og þau voru samþykkt í febr. Það var talað um fasteignaveðlán, til þriggja ára eða lengri tíma, en önnur lán voru aðeins frádráttarbær í tvö ár, ef um kaup var að ræða, en í fjögur ár ef um nýbyggingar var að ræða.

Nú hefur að vísu verið gerð nokkur rýmkun á þessu, þannig að það er talað um fasteignaveðlán til tveggja ára eða lengri tíma, og við álagningu ársins 1981 eiga sjálfskuldarábyrgðarlán að leggjast að jöfnu við fasteignaveðlán, enda er mikill hluti vaxtaaukalána, sem almenningur á kost á, tryggður með sjálfskuldarábyrgð. Ég skil reyndar ekki hvers vegna sjálfskuldarábyrgðarlánið á eingöngu að vera frádráttarbært við álagningu ársins 1981, því að ef sú regla á að vera skilyrðislaus í framtíðinni að um fasteignaveðlán þurfi að vera að ræða í þessu tilviki, þá er beinlínis verið að knýja menn til dýrari lána, því að fasteignaveðlánin eru mun dýrari vegna þess hversu háttað er þinglýsingargjöldum, sem menn sleppa við ef um sjálfskuldarábyrgð er að ræða.

Varðandi önnur lán — lausaskuldir, sem húsbyggjendur stofna til í ríkum mæli, þ.e. vaxtaauka, sem ekki eru veðtryggðir og eru til skemmri tíma en þriggja ára, vörukaupalán, víxla o.fl. — hafa ákvæðin nú verið rýmkuð þannig, að þegar um kaup er að ræða er þetta rýmkað í þrjú ár, en að því er byggingar snertir í sex ár. Auðvitað er þetta til mikilla bóta fyrir skattgreiðendur, en engu að síður held ég að hér sé um of þröng mörk að ræða. Ég held að það sé alveg ljóst að bæði húsbyggjendur og íbúðakaupendur eru oft mun lengur að koma sér út úr sínum fjárhagsvandræðum heldur en þessar till. gera ráð fyrir. Ég held að segja megi um allan almenning að það sé u.þ.b. tíu ára stríð sem menn eiga í áður en þeir ná jafnvægi á sínum fjármálum aftur eftir að hafa lagt í það mikla átak að koma sér þaki yfir höfuðið. Þess vegna eru þessi tímamörk of þröng.

Þó að allmikið hafi verið komið til móts við þau sjónarmið, sem við hv. þm. Halldór Blöndal settum fram hér í nóv., þá tel ég að of skammt sé gengið. Mér finnst þess vegna vera skynsamleg sú till., sem minni hl. fjh.- og viðskn. lagði til, þ.e. að sú regla um vaxtafrádrátt, sem gilt hefur áratugum saman og hefur öðlast fastan sess í hugum manna, gildi áfram við álagningu ársins 1981, en þó með því þaki sem þeir gera ráð fyrir, þ.e. að vaxtafrádrátturinn verði aldrei hærri en 3 millj. fyrir einstaklinga og helmingi hærri fyrir hjón. Með því fæst umþóttunartími til að huga betur að þessari reglu. Og ég held, — og það ræð ég af umræðum sem átt hafa sér stað úti í þjóðfélaginu, þó að þessi regla hafi verið samþykkt hér á hv. Alþingi í febr. s.l. um þennan mun þrengri vaxtafrádrátt, — að allur almenningur hafi alls ekki gert sér grein fyrir því á þessu ári, að þessi regla væri komin í gildi.

Þetta vekur reyndar til umhugsunar um það, hversu lítið er gert í því að kynna almenningi það sem samþykkt er hér á Alþingi. En það er önnur saga sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér.

Ég vil eindregið hvetja hv. fjh.- og viðskn. til þess að huga að þeirri till., sem minni hl. fjh.- og viðskn. í Ed. lagði til, þ.e. að gamla reglan gildi á þessu ári með ákveðnu þaki, þannig að menn fái þá betri tíma til að huga að því, hver verða eigi framtíðarreglan í þessu efni, og að ekki sé komið aftan að almenningi við álagningu ársins í ár.