11.02.1981
Sameinað þing: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvrh., hvað líði ákvörðun fiskverðs og með hvaða hætti ríkisstj. hyggist veita atbeina sinn til fiskverðsákvörðunar og framkvæmdar hennar. Að vísu hefur hæstv. sjútvrh. látið að því liggja í umr. hér á Alþingi fyrir nokkru, að það skorti ekkert á atbeina ríkisstj. til þess að fiskverðsákvörðun verði tekin. En fjölmiðlar segja okkur annað, að málið sé til umræðu og meðferðar á ríkisstjórnarfundum, en vegna þess að ríkisstj. hafi ekki tekið ákvörðun dragist og ákvörðun fiskverðs.

Hæstv. sjútvrh. hefur samt sem áður látið fjölmiðla hafa eftir sér að ríkisstj. hyggist m.a. veita atbeina sinn til fiskverðsákvörðunar. Í fyrsta lagi segir hann að verði horfið frá þeim veigamikla þætti efnahagsráðstafananna á gamlársdag að við festingu gengis íslensku krónunnar skuli miðað við dollar og nú skuli tekin upp viðmiðun við meðalgengi. Í öðru lagi hefur hæstv. sjútvrh. getið um það í fjölmiðlum, að í ráði væri að breyta útflutningsgjöldum þannig að í stað þess að þau væru sama hlutfall á öllum sjávarafurðum sé nú ætlunin að taka upp breytilegt hlutfall. Og í þriðja lagi hefur það og heyrst, að ætlunin sé að veita ábyrgðaryfirlýsingu til handa Verðjöfnunarsjóði fiskafurða þannig að unnt verði að ákveða viðmiðunarverð hærra en markaðsverð.

Nú vil ég inna hæstv. sjútvrh. nánar eftir þeim yfirlýsingum sem hann hefur gefið í fjölmiðlum. Ég tel raunar skylt og rétt að hæstv. sjútvrh. gefi Alþingi um þetta nokkra skýrslu þar sem hann þó hefur sagt svo mikið sem raun ber vitni um í fjölmiðlum án þess að skýringar fylgi sem alþm. eiga rétt á að heyra.

Að vísu geri ég mér grein fyrir að vera kann að hæstv. sjútvrh. saki mig um að vilja spilla fyrir ákvörðun fiskverðs, eins og hann sakaði hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, um í s.l. viku. En sannleikurinn er sá, að fiskverðsákvörðun er nú 43 dögum eftir áætlun, og það er raunar alveg óskiljanlegt, að ríkisstj. skuli ætla sér í alvöru að standa að efnahagsaðgerðum eins og þeim sem tilkynntar voru á gamlársdag, án þess að ganga betur frá málum en svo, að fiskverð sé í lausu lofti. Sá þáttur einn gerir það að verkum að efnahagsaðgerðirnar eru opnar í báða enda, eins og sagt var um stefnuskrá eins ríkisstjórnarflokksins. Það er í raun ekkert eftir af efnahagsaðgerðum ríkisstj. nú en 7–9.3% kaupskerðing. Allt annað er í lausu lofti og hefur í raun enga þýðingu, - að ekki sé talað um að ekkert ákvæði brbl. eða efnahagsaðgerðanna var þess eðlis að það hefði ekki getað beðið aðgerða Alþingis þegar Alþingi kom saman 26. jan. s.l.

Fyrr í umr. um þetta mál hafa menn verið sammála um að fiskvinnslan þyldi ekki 15% fiskverðshækkun, hvað þá 20–24% fiskverðshækkun, eins og forsvarsmenn sjómanna telja nauðsynlegt og forsvarsmenn útgerðarinnar sömuleiðis svo að útgerð verði rekin hallalaus og sjómenn fái samsvarandi kjarabætur eða kauphækkun og landmenn áður í nóv. og des. Þegar á það er litið, að áætlanir munu liggja fyrir um að verðbætur á laun muni hækka nálægt 6% 1. mars, þrátt fyrir 9.3 eða 9.4% skerðingu verðbóta þann dag, er ljóst að vandi sjávarútvegsins er mikill. Ástæða er því til að ítreka þá spurningu til hæstv. sjútvrh. hvað ríkisstj. hyggist gera.

Nú heyrist um þá fyrirætlun ríkisstj. að breyta útflutningsgjöldum þannig að hækka þau t.d. á þeirri fiskvinnslugrein sem ber meira úr býtum en aðrar greinar. Þá er væntanlega einkum um að ræða að hækka útflutningsgjöld á skreið og e.t.v. lækka þau á frystum fiski. Ég tel að þarna sé um mikla afturför að ræða. Sem betur fer tókst fyrir nokkrum árum — ég hygg á árinu 1976 — að jafna útflutningsgjöldin í stað þess að mismuna einstökum fiskvinnslugreinum. Árangur af þeirri jöfnun hefur m.a. verið sá, að áhersla hefur verið lögð á hverjum tíma á þá fiskvinnslugrein sem mestan arð hefur gefið bæði fyrirtækjum og þjóðarbúinu í heild.

Það var lögð áhersla á endurskoðun sjóðakerfisins 1976. Það væri veruleg afturför ef nú ætti að stofna til annarrar eins flækju og áður var í þessum efnum. Ég vara eindregið við því. Auðvitað er rétta leiðin í þessu sambandi að nýta Verðjöfnunarsjóð sjávarafurða þannig að safna í þær deildir hans þar sem verðlag er hátt.

Þá á ég við skreið og e.t.v. saltfisk, en eins og kunnugt er hefur skreiðarmarkaður verið mjög ótryggur. Það er eingöngu í raun á síðasta ári að skreiðarverkun gefur svo mikið í aðra hönd að menn álíta að unnt sé að nýta ann arð til að verðbæta aðrar greinar fiskvinnslunnar. Ég tel að það væri langtum réttara að safna í deild skreiðar í Verðjöfnunarsjóði til þess að standast þær sveiflur sem reynslan sýnir okkur að eru gjarnan á verði og sölumöguleikum skreiðarinnar.

Með sama hætti má einnig segja að það sé réttara að styrkja deild saltfiskvinnslunnar í Verðjöfnunarsjóði, vegna þess að allt fram til síðustu áramóta, að því er ég hygg, hefur verið greitt úr Verðjöfnunarsjóði með saltfiskvinnslunni.

En jafnvel þótt þessi mismunun á útflutningsgjöldum verði tekin upp og jafnvel þótt viðmiðun gengis íslensku krónunnar sé breytt er alveg ljóst að það er þörf á frekari fyrirgreiðslu til þess að unnt sé að greiða viðunandi verð fyrir frystan fisk. Þá dugar ekki það gengisfall krónunnar gagnvart dollar sem orðið er frá áramótum. Þar þarf meira til að koma. Ég skal ekki fullyrða hvað gengisfallið þyrfti að vera umfram það sem þegar er orðið frá áramótum gagnvart dollar. En núv. ríkisstj. hefur heitið því að festa gengi íslensku krónunnar. Hún hefur þegar hopað af hólmi með því að breyta viðmiðuninni, en segist ætla að halda genginu föstu með einhverjum ráðum.

Ábyrgðaryfirlýsing ein dugar ekki nema til komi veruleg verðhækkun á fiski á erlendum markaði, sem enn hefur ekki séð dagsins ljós. Og þá hafa formælendur ríkisstj. sagt okkur hinum að þrjár leiðir séu hugsanlegar.

Það er í fyrsta lagi að taka af svokölluðum gjaldeyrishagnaði Seðlabankans, það er í öðru lagi að taka erlent lán og það er í þriðja lagi að auka skattheimtu og styrkja útflutningsatvinnuvegina. Allar þessar leiðir eru, að mínu viti og mati, algerlega útilokaðar.

Svokallaður gjaldeyrishagnaður Seðlabankans, sem um er talað, er í raun og veru ekki neinn hagnaður. Maður, sem á 1000 dollara á gjaldeyrisreikningi um áramótin 1979 og 1980, sem þá voru í ísl. kr. 400 þús. kr., á þá sömu 1000 dollara um síðustu áramót, sem þá eru í ísl. kr. 625 þús. Þessi maður á nákvæmlega sömu eignina í upphafi árs og í lok ársins, þannig að hann hefur ekki hagnast neitt þótt krónutalan hafi aukist. Það er þess vegna verið að blekkja sjálfan sig ef sagt er að það sé unnt að taka af slíkum sjó8 til að styrkja útflutningsatvinnuvegina.

Í öðru lagi er það saga til næst bæjar, ef það á að styrkja helstu útflutningsatvinnuvegi okkar, þ.e. skapa gjaldeyri fyrir innanlandsneyslu, með því að taka erlent lán. Þar er a.m.k. ekki tjaldað nema til einnar nætur.

Í þriðja lagi er aukin skattheimta, jafnvel að mati stjórnarsinna, algjörlega útilokað vegna þeirrar skattaáþjánar sem núv. ríkisstj. og vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar hafa staðið fyrir og gerir að verkum að landsmenn borga nú í ár um 70 milljörðum kr. meira í skatta á föstu verðlagi en fyrir þremur árum.

Það er líka þess vegna fróðlegt að ítreka fsp. til hæstv. sjútvrh. um hvernig á að afla fjármagns til að standa undir útborgun þeirra viðmiðunarverðflokka Verðjöfnunarsjóðs sem ákveðnir verða með hliðsjón af nauðsynlegri tekjuöflun fiskvinnslunnar í landinu, og þá er það ekki síður tilefni til spurningar hvernig á að ráðstafa þeim peningum eins og nú háttar.

Sannleikurinn er sá, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur komið sér upp snöru um hálsinn með því að segja í fyrsta lagi, að verðstöðvun skuli gilda, í öðru lagi, að halda skuli föstu gengi, og í þriðja lagi, að hávaxtastefna skuli ríkja. Ef ríkisstj. efndi alla þessa stefnuþætti er ljóst að hjól atvinnulífsins mundu stöðvast þar sem allar spár benda til 50–60% verðbólgu á þessu ári. Ef ríkisstj. vill hins vegar reyna að halda þeim hjólum gangandi er og ljóst að horfið er frá verðstöðvun, föstu gengi og verðtryggingu sparifjár í slíkri verðbólgu.

Ég nefni þetta til að sýna fram á, að það er ekkert eftir af efnahagsráðstöfunum ríkisstj. frá því á gamlársdag nema 7–9,3% skerðing verðbóta á laun, og rifja upp í því sambandi, að frá því að Framsfl., og Alþb. og Alþfl. gengu saman í ríkisstj. 1. sept. 1978 með fyrirheitinu „Samningarnir í gildi“ hafa aðeins orðið tvisvar sinnum grunnkaupshækkanir, þ.e. 3% á árinu 1979 og 10% á s.l. hausti, en skerðing verðbóta á laun hefur verið 8% í des. 1978, 16.6% samkv. skerðingarákvæðum Ólafslaga, eftir því sem hæstv. félmrh., form. Alþb., hefur upplýst, og nú 1. mars n.k. 9.3%. Kaupskerðingin hefur sem sagt numið tæpum 34% þegar grunnkaupshækkun hefur verið um 13%. Það er þess vegna furðulegt að þeir skuli ekki gefa skýringu á því, t.d. hv. alþm. Guðmundur J. Guðmundsson, hver er túlkun á kjörorðinu „Samningarnir í gildi“ og „Kosningar eru kjarabarátta“, eða t.d. hæstv. ráðh. og form. Alþb., Svavar Gestsson, gæfi skýringu á þeim vanefndum á því loforði Alþb. að taka þátt í núv. ríkisstj. til að koma í veg fyrir skerðingu á kaupmætti launa og koma í veg fyrir kaupskerðingu. Það er ljóst að núv. ríkisstj. er mesta kaupskerðingarríkisstj. sem setið hefur að völdum og er þar að auki eins og stefnulaust rekald í efnahagsmálum, enda sjáum við fram á sömu verðbólguþróun á yfirstandandi ári og á hinum tveim síðustu undir vinstri stjórn.