11.02.1981
Sameinað þing: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að þakka hæstv. sjútvrh. svör hans þótt þau væru reyndar ófullnægjandi að mínu mati.

Það kom fram í svörum hæstv. sjútvrh., að ábyrgð yrði tekin á yfirdráttarheimild Verðjöfnunarsjóðs sjávarafurða af hálfu ríkisstj., og hann gaf í skyn að endurgreiðsla yrði e.t.v. með gengisbreytingu eða öðrum hætti. Ef endurgreiðslan verður með gengisbreytingu, með því að fella gengi íslensku krónunnar, er alveg ljóst að horfið er fyrir fullt og allt frá þeim efnahagsráðstöfunum sem tilkynntar voru á gamlársdag. Það hefur að vísu verið horfið frá þeim að nokkru með breyttri viðmiðun gengis íslensku krónunnar.

Hæstv. sjútvrh. nefndi ekki með hvaða öðrum hætti væri unnt að fjármagna Verðjöfnunarsjóðinn til að greiða hærra viðmiðunarverð en markaðsverð sjávarafurða segði til um. Og þá erum við komin að því, að hæstv. ríkisstj. hefur í raun tilkynnt að hún muni taka upp styrkja-, uppbóta- og millifærslukerfi í höfuðatvinnuvegi okkar. Það verður að vara mjög sterklega við því að fara inn á þá braut sem farin var sérstaklega á áratugnum milli 1950 og 1960, gaf svo illa raun sem menn muna og kostaði raunar mikið átak að hverfa af 1959 og 1960.

Það er ljóst að yfirdráttarheimild Verðjöfnunarsjóðs, sem hæstv. sjútvrh. segir ríkisstj. hafa samþykkt, getur numið 8–10 milljörðum kr. á ári. Raunar fer fjárþörfin vaxandi eftir því sem á árið líður og verðbólguþróun ársins og kostnaðarhækkanir segja meira til sín. En með þessu er ekki öll sagan heldur sögð vegna þess að eftir sem áður, þrátt fyrir breytta gengisviðmiðun, nú við meðalgengi, er fjárþörf útflutningsiðnaðarins einnig fyrir hendi í stórum stíl.

Hitt skulum við svo hafa í huga, að hækkun dollars bætir í raun viðskiptastöðu landsins, og er það út af fyrir sig vel. Í því sambandi má minna á að útflutningur okkar miðast aðallega við dollar, en innflutningur okkar við Evrópugjaldeyri. Þessi breyting á gengisskráningu erlendra gjaldmiðla hefur því haft í för með sér viðskiptakjarabata fyrir Íslendinga í heild. Það er jafnvel útlit fyrir að þessi viðskiptakjarabati komi að einhverju leyti fram við útreikning verðbóta til hækkunar núna 1. mars, og viðskiptakjarabatinn hefði áreiðanlega komið fram við útreikning verðbóta 1. júní ef Alþb.-mennirnir hefðu ekki verið svo gáfaðir að krefjast þess, að viðskiptakjaraviðmiðun verðbóta yrði afnumin. Eftir að launþegar hafa sem sagt þolað verðbótaskerðingu samkvæmt Ólafslögum vegna verri viðskiptakjara er alveg mátulega afnumin þessi viðmiðun þegar viðskiptakjörin fara batnandi og eiga að fara að bæta kjör launþega. Þarna er þeim Alþb.-mönnum alveg rétt lýst. Ég sé nú að bæði hæstv. félmrh., Svavar Gestsson, og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, sem ég ávarpaði nokkrum orðum í fyrri ræðu minni, hafa horfið af fundi. Það er ekki að furða.