12.02.1981
Neðri deild: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Nd. hefur fjallað um frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt, 189. mál, og unnið það mál á sameiginlegum fundi með fjh.- og viðskn. Ed.

Fyrir nefndinni lá einnig frv. um sömu efnisatriði frá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni og Halldóri Blöndal. Ég get tekið undir það sem hefur komið fram, að það hefði út af fyrir sig verið eðlilegra, að frv. þetta væri lagt fram í Nd., þannig að þau gætu orðið meira samferða, en um það hafði nefndin ekkert að segja. Ég lít á það sem ákveðin mistök og tek undir gagnrýni þeirra sjálfstæðismanna varðandi það atriði. Æskilegt er að ráðherrar flytji mál í þeirri deild sem skyld mál hafa verið flutt í til þess að auðvelda samstarf í nefndum. Það er náttúrlega mikilvægt að það samstarf geti verið gott, þó að ég sé ekki að segja að þetta hafi beinlínis spillt fyrir í þessu tilfelli.

Efnisatriði þessa máls eru í fyrsta lagi að heimilt verður að draga frá innan viss hámarks kostnað vegna handverkfæra er launþegar í löggiltum iðngreinum þurfa að leggja sér til vegna starfsins. Það varð breyting á þessu atriði við álagningu á s.l. ári. Þá var iðnaðarmönnum ekki lengur heimilt að draga frá ákveðna upphæð vegna handverkfæra, þ.e. iðnaðarmönnum sem eru eingöngu launþegar. Nú er það þannig, að mjög margir iðnaðarmenn eru bæði launþegar og atvinnurekendur í skilningi skattalaga. Þeir taka að sér verk í ákvæðisvinnu og teljast því að nokkru leyti atvinnurekendur í skilningi laganna. Þessir aðilar geta að sjálfsögðu dregið frá allan þann kostnað sem þeir hafa við öflun tekna og geta sýnt fram á að sannarlega sé varið til þessara atriða. Samkvæmt þeim lögum getur hins vegar iðnaðarmaður, sem er eingöngu launþegi og fær hluta af launum sínum greiddan fyrir verkfærin, ekki dregið þennan kostnað frá tekjum sínum.

Ég býst við að þetta mundi hafa þau áhrif, að í framtíðinni yrði þessum greiðslum breytt þannig, að atvinnurekendur greiddu sínum launþegum ákveðna upphæð til þess að kaupa handverkfærin og það væri tekið út úr launaskalanum. Samkvæmt gildandi skattalögum væri þá ekkert við það að athuga, að menn drægju viðkomandi upphæð frá. Hins vegar hef ég verið þeirrar skoðunar, að hér væri um slíkt smámál að ræða hjá iðnaðarmönnum, tiltölulega lága fjárhæð, að það mundi ekki skipta neinum sköpum hvort þessi frádráttur væri heimilaður eða ekki. Þess vegnu ætti það að geta gerst með bærilegum friði að hann væri lagður af. Þeir hafa hins vegar lagt á þetta mál mikið ofurkapp, lagt áherslu á að þessi tiltölulega litli frádráttarliður yrði heimilaður áfram, og niðurstaðan er nú orðin sú, að það er lagt til.

Gerir frv. ráð fyrir að það verði lögfest, hins vegar skuli ríkisskattstjóri sjá um frekari framkvæmd á þessum lið, svo sem mat á hámarksupphæð.

Önnur grein frv. fjallar um vaxtagjöld til frádráttar skattskyldum tekjum einstaklinga. Ég vil aðeins rifja það upp, að þegar ákveðið var að taka upp svokallaðar verðbreytingarfærslur í skattskýrslum atvinnurekenda, þá var mönnum það ljóst, sem að því máli unnu, að nauðsynlegt væri að gera breytingar á vaxtagjöldum einstaklinga, enda hefur verið um það víðtæk pólitísk samstaða, að vaxtagjöld til frádráttar þyrfti að takmarka væri það hægt með skynsamlegu móti.

Það er staðreynd, að þeir, sem hafa getað nýtt sér mestan vaxtafrádrátt, hafa verið þeir einstaklingar sem hafa haft tiltölulega mestar tekjur. Það er ósköp eðlilegt, vegna þess að það stendur enginn undir því að greiða há lán og vexti af miklum lánum nema hafa verulegar tekjur. Það er hægt að sýna fram á það með mörgum dæmum, að þeir, sem segja má að mest megi sín í þjóðfélaginu hafi notið þessa mest.

Hins vegar er ljóst að vaxtafrádráttur verður ekki afnuminn, í einu vetfangi. Hann verður ekki allt í einu tekinn af þeim sem standa í húsbyggingum og eru að koma yfir sig þaki. Það mundi vera gífurlegt misrétti gagnvart þeim, miðað við þá sem áður hafa notið þessa frádráttar.

Meiri hl. nefndarinnar hefur unnið að þessu máli út frá því sjónarmiði að halda bæri í þá skilgreiningu, að vaxtagjöld og þar með skuldirnar væru tengd byggingu húsnæðis til eigin nota. Og fram kemur að lánin skuli sannarlega hafa verið tekin vegna öflunar húsnæðis til eigin nota. Það hefur valdið nokkurri umræðu í nefndinni, hvað þetta „sannanlega“ þýðir. Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég tel að þetta sé út af fyrir sig ekkert frávik frá öðrum reglum í skattalögunum. Skattþegn getur alltaf staðið frammi fyrir því að þurfa að sanna þær tölur, sem standa á skattskýrslu hans, og leggja fram gögn í því sambandi.

Það er út af fyrir sig mjög erfitt oft að skilja á milli hvað er vegna öflunar húsnæðis og hvað er vegna annars. En ég lít svo á að í framkvæmd verði þetta þannig, að hafi maður t.d. lagt 100 þús. kr. í öflun eigin húsnæðis og tekið 100 þús. kr. lán á árinu, þá verði að líta svo á að það sé til öflunar eigin húsnæðis, þó að maðurinn hafi keypt sér bíl eða eitthvað annað á því ári. Ef þessi regla er ekki viðhöfð mun það valda endalausum deilum sem erfitt er að sjá fram úr hvernig skuli á taka. Þess vegna vil ég hér við framsögu málsins taka það skýrt fram, að hafi maður lagt í þennan kostnað á árinu og sýnt fram á það á sinni skattskýrslu, þá ber að líta svo á að lán, sem tekið er á því ári, gangi fyrst og fremst til íbúðaröflunar, án tillits til annarra aðgerða sem koma fram á skattskýrslu viðkomandi aðila. Ég tel mikilvægt að þetta sé skýrt. Meiri hl. nefndarinnar taldi nauðsynlegt að rýmka þær skilgreiningar sem voru í lögunum, m.a. með tilliti til þess, að einstaklingar hafa ekki haft aðstöðu til þess að fá nægilega vitneskju um þessi mál.

Bankar og sparisjóðir hafa ekki gert sér far um að lána fólki með tilliti til þessara reglna. Að mínu mati hafa þeir brugðist nokkuð því sem kalla mætti þjónustuskyldu og upplýsingaskyldu gagnvart viðskiptamönnum. Mér finnst eðlilegt að bankar geri sér far um að gera fólki, sem tekur fé að láni í bönkunum, grein fyrir því, hvaða þýðingu það hafi að lánið sé til svo og svo langs tíma. Í okkar þjóðfélagi, þar sem alltaf vantar lánsfé, er meira um það að þessu sé slett í menn, án þess að hugað sé að því, hvaða fjárhagslegar afleiðingar það hefur fyrir viðkomandi aðila. Þetta er þjónusta sem víða tíðkast erlendis, að bankar veita einstaklingum fjárhagslega ráðgjöf. Mættu bankar hérlendis taka sér það til fyrirmyndar.

Með tilliti til þessa og annarra atriða hefur þótt nauðsynlegt í fyrsta lagi að hækka hámarksvaxtafrádráttinn. Um það má ávallt deila hversu hár þessi frádráttur skuli vera, en niðurstaðan er sú, að hann verði 7 millj. 250 þús. hjá hjónum á árinu 1981 vegna tekjuársins 1980 og helmingi lægri upphæð hjá einstaklingi. Þá hefur verið sett ákvæði þess efnis, að einnig sé hægt að taka til frádráttar vaxtagjöld vegna endurbóta á húsnæði. Þótti nauðsynlegt að setja þarna einhver mörk, þ.e. skilgreina orðið endurbætur í þessu sambandi. Varð niðurstaðan að það væru 7% af fasteignamati íbúðarinnar í árslok. Ég vil einnig taka það fram, að undir þetta falla endurbætur vegna orkusparandi aðgerða. Húsnæðismálastjórn mun nýlega hafa ákveðið að taka upp lán í því skyni. Hins vegar eru þau lán fyrst veitt á árinu 1981. Í nefndinni var rætt um það, að e.t.v. væri ástæða til þess að vextir af þessum lánum væru ávallt frádráttarbærir.

Við ákváðum hins vegar að sjá betur hvernig framvinda þessara lána yrði. Varð um það samstaða í nefndinni að taka þetta mál fyrir að nýju við skattlagningu árið 1982 vegna tekjuársins 1981 og gera þarna breytingu á, ef við sæjum ástæðu til eftir að hafa séð betur hvernig framkvæmd þessara mála yrði.

Í þriðja lagi er sá tími sem er nauðsynlegur vegna lánanna, styttur úr þremur árum í tvö ár og lengdur sá tími, sem vextir af lausaskuldum eru frádráttarbærir.

Öll þessi atriði verða til rýmkunar á vaxtafrádrættinum, en hins vegar höldum við algerlega þeirri skilgreiningu sem upphaflega var sett fram hér á Alþingi og samþykkt, af þeirri einföldu ástæðu að við teljum að verði hún afnumin muni grundvallaratriði þessara skattalaga verða brotið niður, og meiri hl. nefndarinnar getur ekki borið ábyrgð á slíkri aðgerð. Þetta er það kjarnaatriði sem við vildum koma á framfæri.

Hins vegar töldum við eðlilegt — og gerðum miklar breytingar til að rýmka þennan frádrátt miðað við þær aðstæður sem upp hafa komið eftir að þessi ákvörðun var tekin.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál herra forseti, en vil aðeins ítreka að meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kom breytt frá Ed., en þær breytingar voru gerðar í fullu samstarfi við meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd.