12.02.1981
Neðri deild: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þess að ég tel að allnokkur hávaði hafi orðið hérna vegna misskilnings — og er ekkert við því að segja. Jafnvel allra gleggstu menn eru þannig, að þeim getur skotist ef ekki er nægileg rósemi yfir þeim meðan lesturinn fer fram. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa hér 4. gr. reglugerðar nr. 310 frá 27. júní 1980, sem fjallar um sjómannafrádrátt. Það er sú reglugerð sem hv. þm. Halldór Blöndal leitaði fanga í varðandi þetta mál. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hlutaráðnir landmenn, þ.e. beitingamenn á línubát skulu fá sjómannafrádrátt sem svarar til þeirra daga sem þeir njóta greiðslu fæðispeninga frá áhafnadeild Aflatryggingasjóðs. Frádráttur þessi tekur ekki til manna sem starfa í ákvæðisvinnu við beitingu. Þeim, sem starfa við landvinnu hjá útgerðinni, t.d. netavinnu, skal ekki heimill sjómannafrádráttur“ — og takið nú vel eftir: „enda þótt um launakjör þeirra fari að öllu eða einhverju leyti eftir afkomu útgerðar eða aflahlutum skipverja.“

Í þessari grein, sem máli skiptir í þessu tali öllu, er hvergi minnst á það, að hlutaðeigandi maður sé skráður eða hlutaráðinn, enda skiptir ekki ýkjamiklu máli hvernig þessi texti er lesinn, lögin standa auðvitað fyrir sínu. Útgerðarmaðurinn getur borgað þessum netavinnumanni sínum fyrir að gera að netum o.s.frv. og fella, hvað sem honum sýnist, en ef hann hefur þann háttinn á eða skipshöfnin, að þessi maður sé jafnframt hlutaráðinn, þá er augljóst að hann á að njóta þessara skattfríðinda. (HBI: Ekki hefur framkvæmdin verið þannig.) Heimildin sem hv. þm. Halldór Blöndal sótti í er ekki eins og hann vildi lesa út úr henni. Ég vildi bara láta þetta koma fram, því að rétt skal vera rétt.

En fyrst ég er nú kominn hérna á annað borð, þá held ég að ekkert geri til þó að það heyrist dálítið annar tónn varðandi allan þennan skattafrádrátt húsbyggjenda heldur en heyrst hefur hér áður í dag. Hins vegar, herra forseti, hefur þetta álit mitt komið fram áður.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ég tel till. hv. sjálfstæðismanna, sem vilja ganga lengra, hækka þessa upphæð sem er heimil til frádráttar, auðvitað vera tóma vitleysu, ég tala nú ekki um að taka eigi þarna inn allar aðrar skuldir. Mér finnst sem sagt þegar of í lagt með frv. hæstv. fjmrh. og þeirra félaga.

Vaxtaupphæðin, sem má draga frá skatti samkv. frv., er á h jón eða heimili sem stendur í byggingum 7.25 millj. gkr. Til þess að greiða slíka vexti þurfa menn að skulda líklega um 40 millj. kr., gamalla að vísu. Með því að leyfa fólki að draga þetta frá tekjum til skatta er ríkið í fyrsta lagi að borga helminginn af vaxtagjöldunum, greiða niður fjármagnið. Í öðru lagi eru þá aðrir skattborgarar auðvitað að borga þetta fyrir þessa aðila og hjálpa þeim til að greiða óeðlilega lága vexti í þessari verðbólgu og þar með að græða á verðbólgunni. Með þessum orðum er ég auðvitað ekki að mæla með háum vöxtum, síður en svo, en mér finnst þetta röng leið til þess að leysa vanda húsbyggjenda. Vanda manna í þessum efnum á að leysa í húsnæðismálakerfinu sjálfu, en ekki með því að hvetja menn til að skulda sem mest og refsa þeim sem vilja skulda sem minnst. Og mér finnst það vera dálítið fyndið, þegar hv. þm. Matthías Á. Mathiesen kallar þessa menn skattborgara, því að menn með slíkan frádrátt borga auðvitað aldrei nokkurn skatt.

Ég held að það sé óþarfi að eyða frekar orðum að þessu. Mér finnst þessi upphæð til skattafrádráttar í hæsta lagi, en ég mun ekki leggjast á móti því atriði við afgreiðslu málsins í þinginu. Ég vil þó að það fari ekki á milli mála, að ég hef þessa skoðun á málinu.

Að lokum, herra forseti, vil ég ráðleggja hv. ræðumönnum það, þegar þeir gera mikinn hávaða eða gera tilraun til þess út af einstökum atriðum í skattalögunum og reglugerðum, að lesa þessa pappíra aðeins betur og af meiri rósemi og eftirtekt.