12.02.1981
Neðri deild: 52. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég fór fram á það áðan í máli mínu, að gert yrði hlé á fundum deildarinnar til þess að fjh.- og viðskn. gæti komið saman og rætt þann ágreining sem upp er kominn varðandi sjómannafrádráttinn. Ég vek athygli á því, að framtalsfrestur er óðum að renna út, og ég get ekki séð að deildin geti unað því að hæstv. fjmrh. hafi aðrar skoðanir á lögum heldur en bókstafur þeirra segir til um og tali um það hér sem sjálfsagt að þetta mál sé svo flókið að um það verði að fjalla uppi í rn., en ekki hér á hinu háa Alþingi.

Spurning mín til hans var afdráttarlaus varðandi fiskimannafrádráttinn. Um það fjallar ekki reglugerðin. Lítur hann svo á, að skattstofunum sé heimilt að synja hlutaráðnum netamönnum um fiskimannafrádrátt? Og ég vil einnig ítreka það sem ég sagði hér áðan, að sú er skoðun bæði hv. 3. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, og hv. 4. þm. Suðurl., að hið sama eigi að gilda um hlutaráðna landmenn á línubátum og netabátum.

Mér er satt að segja ekki ljóst hvernig við það er hægt að una, að þetta mál verði afgreitt héðan án þess að úr því fáist skorið, hver sé í raun vilji alþingis í þessum efnum. Það eru engin vinnubrögð að láta eins og þessi ágreiningur hafi ekki komið upp. Í þeim leiðbeiningum, sem ríkisskattstjóri hefur dreift, er þetta mál látið óhreyft. Hins vegar er framkvæmd skattstjóranna úti um landið með ýmsum hætti. Það ætti þó að vera lágmarkskrafa skattborgaranna, hvar sem þeir eru á landinu, að um þá gildi hin sömu lög í þessum efnum. Ég mælist því til þess, að fjh.- og viðskn. gefist tóm til að halda fund um þetta mál og athuga hvort hún sjái ástæðu til þess að kveða skýrar á um sjómannafrádráttinn og fiskimannafrádráttinn en gert er í lögum, þar sem hæstv. fjmrh. er ekki reiðubúinn til að gefa afdráttarlausar yfirlýsingar í þessum efnum.