16.02.1981
Neðri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2286 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

5. mál, barnalög

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Því ber að fagna að loksins virðist þess sjá merki að gera megi sér vonir um að frv. til barnalaga verði að lögum. Því er ekki að leyna, að það hefur valdið mörgum vonbrigðum hve lengi þetta mál hefur verið að velkjast hér á hv. Alþingi, eða í fimm ár, án þess að af röggsemi og festu væri tekið á því hér á Alþingi. Auðvitað skal ekkert af því skafið að það hefur verið Alþingi til skammar að hafa ekki haft uppburði í sér að taka þetta mál föstum tökum fyrr en nú að það sýnist vera almennur áhugi og vilji til að taka á þessu máli þannig að frv. verði að lögum á næstunni.

Þær brtt., sem koma fram hjá hv. allshn., sýnast flestar hverjar vera til bóta. Ég hef þó aths. fram að færa við 17. gr. Í frv. var gert ráð fyrir framfærsluskyldu eða heimild til þess að ákveða framfærsluskyldu til 24 ára aldurs vegna menntunar eða starfsþjálfunar þannig að einstætt foreldri gæti staðið undir áframhaldandi skólagöngu barns eftir að skyldunámi lýkur. Allshn. hefur nú lækkað aldurinn, sem heimildin til framfærsluskyldu er miðuð við, niður í 20 ár. Út af fyrir sig geri ég ekki aths. við það, enda skilst mér að Félag einstæðra foreldra telji slíkt ekki óeðlilegt, enda fyrir hendi fyrirgreiðslur t.d. í námslánum.

Ég hef þó nokkrar áhyggjur af því, að mér finnst ekki nægjanlega tryggt hvernig innheimta eigi áframhaldandi framfærslueyri eftir 17 ára aldurinn. Tryggingastofnun hefur þessar greiðslur á hendi nú, en innheimtuaðili meðlagsgreiðslna er Innheimtustofnun sveitarfélaga sem endurgreiðir síðan Tryggingastofnun. Ef skilningur minn er réttur á — samkv. 29. gr. þessa frv. — Tryggingastofnunin að inna af hendi framfærslueyrinn eða meðlagið, en þó innan þeirra marka um fjárhæð og aldur barns er greinir í almannatryggingalögum, eða til 17 ára aldurs. Ég tel að það geti reynst erfitt að innheimta áframhaldandi framfærslueyri til 20 ára aldurs vegna skólagöngu, eins og ákvæði 17. gr. segir til um, ef ekki er tryggilega frá því gengið, hvernig innheimta á það framlag. Efalítið þyrfti að breyta almannatryggingalögunum ef Tryggingastofnun á að greiða meðlagið áfram eftir 17 ára aldurinn. Ég vil beina því til formanns allshn., hvort þetta ákvæði 17. gr. hafi verið athugað og á hvern hátt innheimtan eigi að vera þannig að hugsað hafi verið fyrir framkvæmdinni einnig.

Ég vil svo að lokum endurtaka það sem ég sagði í upphafi, að þm. sameinist um að hraða afgreiðslu þessa máls, því að þó að einhverjir hnökrar kunni að finnast við framkvæmd laganna, sem vel gæti reynst á svo flóknum og viðamiklum lagabálki sem þessum, er tvímælalaust stórt framfaraspor, sem verið er að stíga, sem tryggja mun verulega réttarstöðu barna og umgengnisrétt foreldra við börn sín.