03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs vegna fregnar sem mér hefur borist af Suðurnesjum. Sjávarútvegurinn þar á við örðugleika að stríða sem annars staðar, en það skal ekki gert hér og nú að umræðuefni, heldur sú fregn, að togskipið Guðsteinn, sem er eign Samherja hf, í Grindavík, mun vera þar til sölu og talið líklegt, miðað við það sem áður hefur gerst og nú hefur heyrst, að skipið verði selt burt af svæðinu. Hefur verið á það minnst, að sala til Patreksfjarðar kæmi til greina vegna sérstakra möguleika á lánafyrirgreiðslu.

Ég hef því leyft mér að kveðja mér hljóðs til að víkja að þessu máli og varpa fram eftirfarandi spurningu til hæstv. forsrh.: Fari svo, að Samherji hf. í Grindavík geti ekki fengið þá fyrirgreiðslu sem fyrirtækið telur sig þurfa til þess að halda rekstri skipsins áfram, geta þá aðilar á Suðurnesjum, sem áhuga hafa á því að kaupa skipið, ekki verið fullvissir um að þeir njóti sömu lánafyrirgreiðslu og fyrirtæki utan þessa svæðis? Þess vegna beini ég þessari fsp. til hæstv. forsrh., að líkur eru taldar á að hér komi Byggðasjóður til greina í sambandi við fyrirgreiðslu í þessu máli, og málefni Byggðasjóðs heyra undir forsrn.