16.02.1981
Neðri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

201. mál, sérhannað húsnæði aldraðra og öryrkja

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ef taka á mið af því, sem sumir fjölmiðlar hafa nýtt undir umr. um málefni aldraðra, mætti ætla að á þessu sviði hafi unnist stórvirki á síðustu árum. Ég hygg að í Morgunblaðinu, sem hefur allra blaða og fjölmiðla mest barist fyrir og vakið athygli á nauðsyn úrbóta í þessum málum, verði þetta lesmál ekki talið í dálkum eða dálkasentimetrum, heldur lengdarmetrum. Ekki vil ég draga úr því sem aðrir fjölmiðlar hafa vel gert á þessu sviði. Má að sjálfsögðu benda á að það eru fleiri blöð sem þarna eiga þátt í og eins hljóðvarp nú á síðustu tímum. Og það eru fleiri sem hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga. Ekki ætta ég heldur að draga úr því, sem vel hefur verið gert í þessum málum á liðnum árum og bendi á mörg glæsileg dvalarheimili aldraðra sem hafa risið víðs vegar um land og eru komin eða eru að komast í notkun.

Hér á Alþingi hefur umr. um þetta verið næsta lítil. Þótt á mörg góð mál hafi verið drepið, svo sem orlof aldraðra, símamál aldraðra, hækkun lífeyris til ellilífeyrisþega, svo eitthvað sé nefnt, hefur aðeins lítils háttar verið komið inn á þessi mál við afgreiðslu fjárlaga, enda fyrst nú á allra síðustu árum sem neyðin í húsnæðismálum aldraðra er viðurkennd við afgreiðslu fjárlaga.

Mig langar sérstaklega í þessu sambandi að benda á mjög víðtæka og ítarlega þáltill. um skipulag og úrbætur á sviði geðheilbrigðismáta. Þótt í þessari þáltill. komi fram og sé bent á tíu efnisleg viðfangsefni, sem nauðsynlegt er fyrir þá menn sem skipa á samkv. till. þessari að kanna, er hvergi minnst á hið sérstæða vandamál aldraðra á þessu sviði. Þó liggur fyrir, að meira að segja hér á Íslandi hefur farið fram sérfræðileg rannsókn á geðheilsu aldraðra.

Ég fékk á sínum tíma í hendur erindi sem flutt var í Læknafélagi Reykjavíkur snemma árs 1974 og byggt var á rannsóknum sem þeir Tómas Helgason, Sveinn Gunnarsson og Karl Haraldsson höfðu unnið að. Þótt eflaust megi halda því fram, að slíkar rannsóknir hér á landi gætu verið fullkomnari og vísindalegri ef að öllu leyti væri hægt að fylgja fordæmi ríkra þjóða — eða Dagblaðsins, þá er samt ljóst í sambandi við þær niðurstöður sem komu í ljós við rannsóknir þessara sérfræðinga að við erum ekki frábrugðnir nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum í þessum efnum.

Niðurstöður þessara rannsókna voru byggðar á upplýsingum sem fengnar voru hjá heimilislæknum fólksins og á sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum sem það hafði dvalist á. Augljóst er að tölur, sem þannig eru fengnar, eru lágmarkstölur og gefa ekki upplýsingar nema um hluta af hugsanlegri hjúkrunarþörf gamla fólksins. Þá ber og að hafa í huga að þörfin fyrir rúm á stofnun er ekki eingöngu háð heilsufari viðkomandi einstaklings, heldur er hún einnig háð félagslegum aðstæðum hans.

Í Noregi hafa á síðustu árum farið fram miklar athuganir og umræður um aldrað fólk með geðræn vandamál. 1975 skipaði norski landlæknirinn nefnd manna til að kanna og gera tillögur um hvaða stefnu ætti að fylgja í framtíðinni, þegar höfð væri í huga þörfin á að byggja og reka sérhæfð hjúkrunarheimili fyrir aldraða sjúklinga með geðræn vandamál. Síðar var starfssvið þessarar opinberu nefndar fært út og til viðbótar var henni falið að gera tillögur um göngudeildir fyrir öldrunargeðlækningar og jafnframt að leggja mat sitt á og gera tillögur um þjónustu í þeirri grein í heild. Þessum aðila þótti nauðsynlegt að fá til samráðs og samvinnu sérfræðinga á mörgum sviðum til að gera sér grein fyrir hugtökum, skrá þau og festa svo menn greindi ekki á síðar hvað væri verið að ræða. Þeir, sem þátt tóku í að móta þessar skilgreiningar, voru geðlæknisfræðingar, öldrunarfræðingar og öldrunargeðlæknar. Þeir ræddu m.a. skilin á milli geðlæknisfræðinnar og öldrunarlæknisfræðinnar. Út í umræður um þetta sérstæða, alvarlega vandamál innan annars stærra skal ég ekki fara nánar nema tilefni gefist til.

Í Noregi var rannsakað hvort og hvernig vistun og lækningum aldraðra með geðræn vandamál og geðsjúkdóma væri best fyrir komið. Strax upp úr árinu 1950 komu tillögur fram þar um sérstök heimili fyrir þetta fólk. Núna er yfirleitt á norskum hjúkrunarheimilum reynt að hafa fólk með geðræn vandamál, hegðunarvandamál, áfram sem lengst á hinum almennu hjúkrunarheimilum og þá á sérstökum deildum ef mikið ónæði stafar af, eins og við hér heima þekkjum af beiskri raun, en með þessa sem aðra aldraða sjúklinga er stefna sjúkrahúsanna hér á landi sú að koma þeim út aftur sem fyrst — líklega vegna uppmælingarinnar í allri spítalaþjónustu okkar.

Ég minnist ítarlega á þennan þátt í upphafi máls míns um það frv., sem hér er til umræðu, meðfram vegna þeirrar umræðu sem varð hér á Alþingi s.l. haust um þáltill. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur o.fl. um félagsþega þjónustu fyrir aldraða. Ég var þá erlendis í opinberum erindagerðum og gat ekki tekið þátt í þeirri umr. Í máli 1. flm. og þeirra, sem standa að baki þeim skoðunum sem komu fram í framsöguræðu þm., var m.a. minnst á draumalandið Bretland hvað öldrunarþjónustu viðkemur, en sú stefna, sem þar er rekin, minnkar þörfina fyrir vistrými aldraðra. Þessi draumsýn margra spítalalækna hér heima, þ. á m. þeirra sem mest vald hafa í heilbrigðismálum okkar, kemur svo fram í meðferð og heimsendingu eða kröfu í ímyndað vistrými sem er ekki til og hefur aldrei verið til, en reiknað með Sölva — aðferðum, meðfram vegna leti við að setja sig inn í staðreyndir vandamálsins og einnig vegna meðfæddrar eða áskapaðrar frekju í eigur annarra, gæti verið heppileg bráðabirgðalausn þegar stefnu þeirra sem mótað hafa fjárfestingarstefnuna innan heilbrigðisstéttanna hefur borið á sker og rambar þar.

Í norska nál., sem ég minntist á, þótti athyglisvert það sem komið hafði þá fram fyrir skömmu í enskri rannsókn um hve margir aldraðir, sem þjáðust af mismunandi miklum geðtruflunum, væru annars vegar í heimahúsum og hins vegar á sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum. Það kom í ljós, að þeir, sem áttu við alvarlegar geðveilur að stríða, voru sex sinnum fleiri í heimahúsum en á sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum og það voru átján sinnum fleiri á heimilum sínum en á spítölum og stofnunum, þeirra sem fengu ofsa- eða þunglyndisköst. Alls voru um fjórtán sinnum fleiri slíkra sjúklinga í heimahúsum en á spítölum eða öðrum sambærilegum stofnunum. Ég dreg þetta fram hér vegna þess að mér segir svo hugur að þetta ástand sé ekki betra hér heima.

Um leið og ég undirstrika nauðsyn þess, að við búum eins vel og kostur er að hinu sjúka aldraða, fólki megum við ekki gleyma þeim sem heima eru og reyna, þrátt fyrir þær gífurlegu þjóðfélagslegu breytingar sem orðið hafa hér á landi á síðustu áratugum, að sjá um, þjóna og hjúkra þessu fólki. Því miður höfum við of mörg dæmi þess, að slíkt ástand hafi orðið ástæða fleiri sjúkrahúsdaga, meiri veikinda á sál og líkama hjá þeim sem gæsluna önnuðust, margs konar upplausnar á heimilum og jafnvel hjónaskilnaða — að ekki sé talað um þau mörgu dæmi sem maður þekkir af beinni og óbeinni andlegri og líkamlegri kvöl sem þessir öldruðu einstaklingar, sem gátu gert sér þess grein, urðu fyrir bæði af hendi aðstandenda og innra með sjálfum sér.

Þótt ærin ástæða væri að fara nokkru frekar út í umræðu um þetta sérstaka efni, því hún varðar vissulega það mál sem hér er til umræðu, skal það þó ekki gert. En ég vil, áður en ég ræði málið efnislega, nota tækifærið til að leiðrétta misskilning sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. er hann ræddi um Grund og Dvalarheimili aldraðra sjómanna — „heimilið“ sem hann kallaði svo, og mun eiga við Hrafnistu í Reykjavík því hann talaði í eintölu, en heimilin eru orðin tvö eins og flestum mun kunnugt. Ég vil nota þetta tækifæri til að leiðrétta ummæli hans til þess að misskilningur þm. standi ekki óleiðréttur í þingtíðindum.

Sjómannadagsráð í Reykjavík og Hafnarfirði byggir þessi heimili og sér algjörlega um alla fjáröflun til þeirra og um rekstur þeirra og annarra fyrirtækja sinna jafnframt. Félög sjómanna í Reykjavík og Hafnarfirði kjósa 32 einstaklinga í þetta ráð. Félögin koma að öðru leyti ekki að framkvæmdum eða rekstri Hrafnistuheimilanna, enda um sjálfseignarstofnanir að ræða, reknar af þar til kosnum einstaklingum.

Þingmaðurinn virðist ekki vita að leyfi fyrir Happdrætti DAS fékkst frá Alþingi í kjölfar mikillar verðrýrnunar á stórfé sem sjómannadagssamtökin lánuðu til endurnýjunar fiskiskipaflotans á sínum tíma — fiskiskipaflota sem dreifðist um allt land. Þessi samtök nutu þessa happdrættisleyfis aðeins í níu ár. Þá þótti Alþingi tímabært að þynna þann tekjustofn út með lögunum um Byggingarsjóð aldraðra, en síðan þá renna 40% af hagnaði Happdrættis DAS í þennan sjóð sem varið er til annarra bygginga yfir aldrað fólk en sjómannadagssamtökin hafa með að gera.

Það eru auðvitað fleiri stoðir sem standa undir þessum byggingum: kvikmyndahúsreksturinn, sem ég mun koma að, og auk þess áheit og gjafir sem alltaf hafa verið þýðingarmikill þáttur á nákvæmlega sama hátt og hjá Elliheimilinu Grund, en bygging þess merka heimilis grundvallaðist einmitt á slíku fjárframlagi.

Svo lítil opinber aðstoð kom til byggingar Hrafnistu í Reykjavík að hún var innan við 1/2% af byggingarkostnaði. Það var því ekki um verulega opinbera aðstoð að ræða, eins og þm. hélt fram. Brunabótamat Hrafnistueignanna í Reykjavík var í árslok 1980 á sjötta milljarð gkr. Hins vegar hefur komið nokkur opinber styrkur til vistheimilisins í Hafnarfirði. Mun styrkurinn frá Hafnarfjarðarbæ og frá Alþingi hafa numið milli 9 og 10% af byggingarkostnaði. Þar er nær helmingur íbúanna Reykvíkingar. Fyrsti styrkur til þess heimilis fékkst ekki við afgreiðslu síðustu fjárlaga, heldur í ráðherratíð þeirra Matthíasanna, heilbrrh. Matthíasar Bjarnasonar og fjmrh. Matthías Á. Mathiesen, en til þess að fá þann styrk varð að sérbúa heimilið til að taka við léttum hjúkrunarsjúklingum. Brunabótamat þessa heimilis mun vera nú á þriðju milljón gkr.

Ég veit ekki til þess, að neinn banni, hvorki borgarstjórninni í Reykjavík né bæjarstjórn í neinu sveitarfélagi, að setja á fót happdrætti til að afla tekna til að byggja yfir gamalt fólk. Það munu nú starfa hátt á annan tug happdrætta á landsvísu og ágóði þeirra rennur til margs konar menningar- og mannúðarmála. Hins vegar eru aðeins þrjú bundin sérstaklega með löggjöf.

Eins og ég sagði áðan hafa þessi samtök aflað fjár með öðrum hætti, m.a. með rekstri kvikmyndahúsa, t.d. Laugarásbíós í Reykjavik. Af því eru greidd öll sams konar gjöld og slík hús í einkarekstri greiða. Hins vegar fæst skemmtanaskatturinn endurgreiddur til uppbyggingar Hrafnistuheimilanna. Er það ekkert sérstakt. Það er endurgreiddur skemmtanaskattur af þó nokkrum kvikmyndahúsum sem síðan rennur til margs konar menningarmála og mannúðarmála. En Reykjavíkurborg, eitt allra sveitarfélaga, hefur séð ástæðu til að leggja sérstakan skatt á kvikmyndasýningar, svokallað sætagjald. Ráðstöfunarfé til byggingar yfir aldraða á vegum þessara samtaka minnkar að sama skapi.

Ég hef verið formaður í þessum samtökum í tuttugu ár og lengst af þess tíma höfum við þurfir að láta enda ná saman án opinberrar fyrirgreiðslu á nokkru sviði. Á þeim tíma hafa þessi samtök byggt um 400 rými fyrir aldrað fólk, en fyrir voru rúmt hundrað, þannig að á Hrafnistuheimilunum búa nú nokkuð á sjötta hundrað manns, enda þótt skipulega hafi verið unnið að fækkun á þeim, sérstaklega á Hrafnistu í Reykjavík hin síðari ár, m.a. til að koma við aukinni þjónustu og meira sameiginlegu rými fyrir vistmenn.

Ég vildi nota þetta tækifæri, herra forseti, til að koma þessari leiðréttingu að, fyrst villan var á annað borð komin inn í þingtíðindi.

Frv. það, sem hér er svo til umr., er miklu takmarkaðra um öldrunarvandamál sem ég hef nokkuð farið inn á, en það fjallar um sérhannað húsnæði aldraðra og öryrkja, og eru meðflm. mínir hv. þm. Matthías Bjarnason og Halldór Blöndal.

Það er tekið fram í grg. með frv. að að okkar mati komi það fram í hinum ítarlegu lögum um heilbrigðisþjónustu að ætlunin hafi verið, sbr. 19. gr. þeirra laga sem fjalla um þjónustu heilsugæslustöðva, að síðar kæmi sérlöggjöf um öldrunarmálin. Í heilbrigðislögunum er aðeins fjallað lítils háttar um að þessi þjónusta skuli vera veitt þaðan. Auk þess má benda á að það er að vísu getið um sérmál aldraðra í mörgum lögum, þótt markverðust séu að sjálfsögðu ákvæðin í almannatryggingalöggjöfinni um ellilífeyri o.fl. Það má benda á breytingar eða ákvæði í lögum um Byggingarsjóð ríkisins sem hafa verið að koma á síðustu árum inn í þau lög. Það má benda á reglugerðina um heimilisþjónustu aldraðra, sem byggð er á lögum frá 1952, og svo lögin frá 1973 um dvalarheimili aldraðra, sem fjalla um einn þátt húsnæðismála aldraðra og þá þjónustu sem þar á að veita. Það frv., sem hér er til umr., fjallar einmitt um þá löggjöf, því í þessu frv. felst endurskoðun á þeim lögum að fenginni reynslu af þeim.

Í grg. er þess getið, að 17. apríl 1979 skipaði þáv. heilbrrh., Magnús H. Magnússon, nefnd til að endurskoða lög um dvalarheimili fyrir aldraða. Á bak við skipun þessarar nefndar og störf, sem hún átti að vinna, mun hafa legið sú hugsun að fram mundu koma nýtilegar tillögur að nýrri löggjöf varðandi sem flesta þætti öldrunarþjónustunnar. Ólafur Ólafsson landlæknir var skipaður formaður nefndarinnar, en aðrir nm. voru ég, sem var beðinn um að taka þar sæti sem nokkurs konar fulltrúi sjálfseignarstofnananna, Þór Halldórsson yfirlæknir og Adda Bára Sigfúsdóttir borgarfulltrúi í Reykjavík. Auk þessara starfaði með nefndinni fyrstu vikurnar Ársæll Jónsson læknir, sem var ritari hennar, en hann fór utan til frekara náms á meðan á störfum hennar stóð.

Þessi nefnd náði samkomulagi og í frv., sem nefndin samdi, var fyrst og fremst miðað að því að tengja sem best saman það þjónustustarf, sem þegar er unnið í landinu af ýmsum aðilum, og byggja á stofnunum og stjórnsýslueiningum sem fyrir eru eftir því sem unnt er, eins og sagði í stuttri grg. sem um það frv. var gerð.

Því er ekki að leyna, að ekki voru allir á eitt sáttir, þó að allir skrifuðu undir þetta frv., og margir urðu að brjóta af skoðunum sínum. Frá þessu frv. hef ég ekki heyrt síðan ég skrifaði undir það. En það, sem hér er flutt og úr því tekið um endurskoðun laga um dvalarheimili aldraðra var frá mér komið í þeirri nefnd og ég hef tekið það upp aftur að miklu leyti ásamt nokkrum smábreytingum sem nefndin gerði á þeim tillögum mínum.

Við flm. þessa frv. teljum að hér sé um að ræða einn þýðingarmesta hlekkinn í þessu vandamáli öllu, en það eru húsnæðismál aldraðra, og við teljum að þegar og ef Alþingi samþykkir þetta frv. og gerir það að lögum muni koma og eigi að koma í kjölfarið breytingar á þegar gildandi lögum um lán og styrki til slíkra bygginga, sem heyra undir önnur lög, og jafnvel má hugsa sér að breytt sé lögum, sem nú eru í gildi og ekki koma inn á málefni aldraðra, til þess að ná inn meira fé til nota við þær nauðsynlegu byggingar sem hér er getið um.

Í grg. tökum við það fram, að við teljum að alfarið eigi langlegudeildir að vera í tengslum við eða innan veggja sjúkrahúsa vegna eðlis þeirrar hjúkrunar og þjónustu sem þarf að veita. Að sjálfsögðu munu hjúkrunarheimilin, eins og þau gera, hafa á sínum vegum þunga sjúklinga, t.d. eru mörg ár síðan stjórnendur Hrafnistuheimilanna tóku upp þá stefnu hjá sér að það skyldi aldrei neinum verða vísað á braut, þótt mikið veikur væri og rúmliggjandi, eftir að hann væri kominn þar inn, þótt við hönnun og byggingu heimilisins hafi hins vegar aðstaða fyrir slíkt fólk ekki verið tekin til greina nema að mjög takmörkuðu leyti og alls ekki fyrir neinar nývistanir, enda er svo komið þar, að það er rétt svo að þær deildir duga fyrir vistfólkið sjálft á vistdeildunum. Hins vegar hefur verið farið inn á að deildaskipta svokölluðum hjúkrunardeildum eftir þyngd. Að sjálfsögðu eru mjög þungar deildir þar því að sú stefna var tekin upp að skilja ekki fólk að þótt svona stæði á, hvorki þá sem hefðu verið í hjónabandi eða sambúð árum saman né ef mikil vinátta hefði skapast á milli.

Ég hef persónulega séð framkvæmd á því erlendis þegar verið var að skilja eiginkonu frá eiginmanni. Það var verið að flytja hana frá eiginmanni sínum, en þau dvöldust bæði á vistheimili. Hún var orðin það illa farin líkamlega að það þurfti að fara með hana á hjúkrunarheimili sem var marga kílómetra í burtu. Um leið var með þessari aðgerð verið að skilja þetta fólk að, þótt full ástæða hefði verið til að lofa því að umgangast hvort annað, alla vega því sem betur var á sig komið að heimsækja hitt sem rúmliggjandi var. — Ég hef oft haft þessa sögu á orði vegna þess að þetta sýnir miskunnarleysið sem fylgir þeirri miðstýringu sem gildir víða um heim í þessum málum og margir vilja innleiða hér á Íslandi með illu eða góðu, helst illu.

Okkur, sem flytjum þetta frv., hefur lengi þótt skorta á skilgreiningu á íslenskri löggjöf á þeim mörgu hugtökum sem hafa verið notuð yfir húsnæði aldraðra. Fjöldi Íslendinga, sem verið hafa í sendinefndum sveitarfélaga, opinberra stofnana og verkalýðsfélaga, hefur átt þess kost á liðnum árum að skoða og kynna sé alla þætti öldrunarþjónustu nágrannaþjóða okkar, þ. á m. fjölmargar útfærslur á sérhönnuðum íbúðum aldraðra. Þó að heildarstefnu sé fylgt í flestum þessara landa er þjónustan og hið sérhannaða húsnæði aldraðra og öryrkja ásamt eignarformi ákaflega breytilegt. Þegar heim er komið hefur vafist fyrir mörgum að gefa því, sem lýst er, hið rétta nafn sem ætti að taka mið af í starfsemi, þjónustu og því öryggi sem viðkomandi þjónustuþáttur á að veita. Fyrir þá sem lána til, styrkja og borga þann kostnað, sem af þessari starfsemi leiðir, og fyrir þá, sem móta stefnu í slíkum málum, hlýtur sú skilgreining, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að vera til hins betra, geta fyrirbyggt misnotkun og verið til viðmiðunar þegar skipta þarf takmörkuðu fjármagni til margra nauðsynlegra verkefna. Við vitum að villugjarnt hefur verið fyrir ýmsa sem lána fé og veita aðra fyrirgreiðslu og dæmi finnast um að ósköp venjulegt íbúðarhúsnæði hefur fengið heitið „íbúð aldraðra“ án þess að nokkur skilsmunur hafi verið þar á. Tilgangurinn hefur annaðhvort verið að njóta sérstakrar lánafyrirgreiðslu eða nota umrædda framkvæmd sem pólitíska skrautfjöður á kosningahatt.

Flm. telja vænlegra að fara þá leið sem þeir leggja til í 10. gr. þessa frv. um 60% kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs í stað 85% sem heilbrigðislög kveða á um í 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna þess að þeim er vel kunnugt um mörg þeirra verkefna sem fjárveitingavaldið hefur þegar ráðist í. Einnig mun þurfa nokkurn umþóttunartíma fyrir forustumenn heilbrigðismála til að átta sig á að þessa stefnu beri að taka þrátt fyrir metnaðargirni og vissulega oft þörf þeirra sem slást um fjárveitingar til eigin stofnana.

Við bendum líka á í grg. frv., að þetta 60% framlag, ef að lögum yrði, mundi ýta mjög undir sveitarfélög og aðra aðila, félagasamtök og jafnvel hugsanlega einstaklinga, sem vildu ráðast í slíka framkvæmd, að leggja fé á móti því sem ríkið mundi leggja fram í þessu skyni. Að sjálfsögðu geri ég mér fulla grein fyrir því, og það er í íslenskum lögum, að þá mundu slík heimili, eins og þau gera nú og munu alltaf gera, falla undir heildarlöggjöf um yfirstjórn og eftirlit heilbrigðismálayfirvalda.

Við teljum líka með flutningi þessa frv. að vegna neyðarástandsins, sem ríkir hér á Suðvesturlandi í húsnæðismálum aldraðra, verði þm. almennt máske að hugsa til þess, að þar sem þessi mál eru í sæmilegu horfi er það vegna þess að spítalar og sjúkrahús úti um land eru að stórum hluta nýtt sem hjúkrunarheimili aldraðra. Flest þeirra voru byggð með 60% framlagi ríkissjóðs og með 40% framlagi heiman úr héraði. Neyðarástandið hefur einnig skapast vegna hinna miklu flutninga sem hafa átt sér stað hjá eldra fólki til Reykjavíkur og næsta nágrennis. Þessir flutningar eru ákaflega einstaklingsbundnir og eiga margar orsakir. Af minni reynslu, sem er orðin löng þegar um vistun aldraðra alls staðar að af landinu er að ræða, sýnist mér þó að um nokkrar höfuðástæður sé að ræða:

Í fyrsta lagi hafa börn og önnur skyldmenni flust á brott og er reynt að fylgja þeim eftir.

Í öðru lagi kalla veikindi og sjúkdómar á tíðar spítalalegur eða reglubundna hjálp sérfræðinga í heimilisþjónustunni, sem er að finna hér í Reykjavík og máske á Akureyri, en getur því miður ekki dreifst víðar um landið nema að litlu leyti vegna kostnaðar. Þetta fólk sækir eftir meira öryggi því að samgöngur ráða miklu um að þessari oft lífsnauðsynlegu þjónustu sé náð í tíma.

Í þriðja lagi verða breytingar á lífsháttum við fráfall maka og kalla þær oft á slíkan flutning.

Í fjórða lagi fjárfesta mjög margir strax á miðjum aldri í íbúð í Reykjavík, sem viðkomandi aðilar síðan flytjast í, þegar starfsævi lýkur eða eftirlaunaaldri er náð, og ná með því sveitfestu í Reykjavík.

Í fimmta lagi eru í Reykjavík og á Akureyri spítalar með sérfræðiþjónustu. Það kallar á flutning fólks í nálægð þeirra. Slíkar stofnanir á að skikka til að koma upp langlegudeildum aldraðra. Hér í Reykjavík eru líka heimili aldraðra, sem ekki eru bundin neinu ákveðnu sveitarfélagi um vistun. Eitt árið áttu t.d. yfir 50% af vistmönnum á Hrafnistu í Reykjavík lögheimili utan Reykjavíkur.

Þá má nefna ótrúlega marga sem eru orðnir dauðleiðir á búsetu á sama stað allt sitt líf, sjá alltaf sama fólkið, sömu húsin og sömu víkina, og vilja í meira fjölmenni þar sem félagslíf er meira og þægindi jafnvel líka. Ég hef áður haldið því fram persónulega, að margs konar félagsleg þjónusta hér í Reykjavík, bæði á sviði húsnæðis og annarrar þjónustu, sem hefur ekki síður verið staðið að af einkaaðilum en borginni sjálfri, hafi stórkostlega létt undir með fjölmörgum sveitarfélögum, ekki aðeins þeim sem næst liggja, heldur fjölmörgum öðrum. Að sjálfsögðu binst fólk í slíkri þjónustu hér í Reykjavík vegna þessa, en um leið gefst þeim sem geta tækifæri til starfa við framleiðslu í útflutningsgreinum okkar í sinni heimabyggð. Með þessum og mörgum öðrum rökum má skilyrðislaust halda því fram, að þessi þjónusta í Reykjavík, eins og mörg önnur, hafi stuðlað að aukinni útflutningsframleiðslu, stuðlað að því, að byggð héldist víða um land, sem annars væri illframkvæmanlegt, og því stuðlað að þeirri byggðastefnu sem haldið hefur verið uppi, þótt þar megi finna fjölmargt sem betur mætti fara.

Í ljósi þessara skoðana minna er engin goðgá, miklu frekar sjálfsögð skylda að tala um það í fullri alvöru, að Byggðasjóður leggi þessum málum lið, sem réttilega er lýst sem neyðarástandi, t.d. af núv. hv. heilbrmrh. og þeim sem gegndi því starfi á undan honum. Þetta gæti gerst bæði með beinu framlagi verulegrar upphæðar og einnig vaxtalausu láni.

Á Stór-Reykjavíkursvæðinu er nú unnið að þrem framkvæmdum sem munu létta mjög mikið á því neyðarástandi sem hér ríkir: Langlegudeild aldraðra við Borgarspítalann, Hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi og hjúkrunardeild Hrafnistu í Hafnarfirði, sem ekki mun taka til vistunar eftir búsetu fólks í sveitarfélagi nema að litlu leyti. Ég leyfi mér að fullyrða að öltum þessum byggingum má ljúka á næsta ári — ári aldraðra — séu nægir peningar fyrir hendi. Við þurfum þá ekki að plástra þetta neyðarástand með fokdýrum breytingum gamalla og óhentugra húsa. Gamla fólkið okkar á annað skilið en slíka úrlausn loksins þegar tekist hefur að vekja nokkurn hluta þjóðarinnar til umhugsunar um vandamálið og miðaldra fólk og ungt fólk er farið að velta þeirri staðreynd fyrir sér, að það verði líka gamalt. Með þessum orðum mínum er ég ekki að gagnrýna þá sem af góðum hug teita að nærtækri og fljótvirkri lausn, heldur að benda á að útvega má fjármagn á fleiri vegu en með fjárveitingu Alþingis ef ríkisstj. viðurkennir neyðarástandið. Það er nefnilega ekki nóg að hæstv. heilbrmrh. geri það einn ráðherranna.

Þá þykir mér ekki miður að geta dregið fram þá staðreynd í þessu máli, að ef skynsamlega er að staðið í byggingu sérhannaðs húsnæðis fyrir aldraða og nauðsynleg þjónusta veitt má spara ótrúlega háar upphæðir fyrir ríkissjóð og hafa bæði beinan og óbeinan fjárhagslegan ávinning af. Ég benti á þetta í bréfi til fjvn. á s.l. hausti er ég sótti um byggingarstyrk til sjúkraheimilis Hrafnistu í Hafnarfirði og sendi með tölulegan fróðleik byggðan á opinberum upplýsingum um stofn- og rekstrarkostnað sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila. Þær forsendur, sem ég notaði, voru að það væri bið eftir legurými á sjúkrahúsum, að öldrunarsjúkir lægju á almennum sjúkrahúsum, en hvort tveggja er staðreynd, að bygging Hrafnistu í Hafnarfirði væri sérhæfð til að annast 75 öldrunarsjúklinga sem þar munu eiga heimili, og gengið var út frá byggingarvísitölunni 539 stig. Þetta bréf var sent í byrjun des. s.l. Eru daggjaldatölur frá s.l. hausti og að sjálfsögðu þá miðað við gkr.

Kostnaðaráætlun um framkvæmd sjómannadagssamtakanna í Hafnarfirði er 3 milljarðar 87 millj. gkr. eða 41 millj. 160 þús. á rúm fullbúið, með sundlaug og fullkominni endurhæfingarþjónustu. Upplýsingar liggja fyrir um að heildarkostnaður við byggingu legudeildar sjúkrahúss í tengslum við lyflækningar og skurðstofur sé um 70 millj. gkr. á rúm. Þetta táknar að hagkvæmni þess að byggja byggingu okkar, sem ég kalla svo, byggingu sjómannadagssamtakanna, til að minnka álag sjúkrahúsa sé: Sjúkrahús: 75 rúm á 70 millj. hvert: 5 milljarðar 250 millj. 75 rúm á hjúkrunardeild Hrafnistu, Hafnarfirði: 3 milljarðar 87 millj. Mismunur: 2 milljarðar 163 millj.

Ef litið er á rekstrarkostnaðinn sést samkv. upplýsingum daggjaldanefndar að rekstrarkostnaður Hafnarbúða í eigu og umsjá Reykjavíkurborgar er um 42 þús. kr. á legudag, en þetta hjúkrunarheimili var dýrast hjúkrunarheimila í rekstri á s.l. ári. Meðaltal rekstrarkostnaðar sjúkrahúsa í Reykjavík er um 90 500 kr. á legudag. Sé athuguð hagkvæmni þess að öldrunarsjúklingar séu hýstir á sérhæfðum vistunarheimilum, eins og áformuð bygging í Hafnarfirði er, lítur dæmið þannig út, — það er ekki verið að hafa neitt af sjúkrahúsunum með þessum samanburði, eins og ég tók fram er tekið dýrasta daggjaldið sem finnst á hjúkrunarheimili, — en með þessu verður rekstrarkostnaðardæmið þannig, að 90 500 kr. í 365 daga fyrir 75 manns gera 2 milljarða og tæpar 500 millj. kr. Á hjúkrunarheimili aldraðra mundi sams konar kostnaður vera 1 milljarður 150 millj. kr. tæpar. Þarna er mismunurinn orðinn 1 milljarður 327 millj. 600 þús. kr.

Niðurstöður eru þær, að mismunur stofnkostnaðar og mismunur rekstrarkostnaðar í eitt ár er samtals 3 milljarðar 490 millj. kr., sem er meira en áætlaður byggingarkostnaður þessarar hjúkrunardeildar fyrir 75 öldrunarsjúklinga í Hafnarfirði með sundlaug og fullkominni endurhæfingaraðstöðu.

Þessum samanburði hefði að sjálfsögðu mátt halda áfram og hafa til samanburðar við sjálfseignarstofnanirnar sem eru reknar með miklu minni tilkostnaði en Hafnarbúðir. T.d. er kostnaðarmismunur fyrir hjúkrunarsjúkling á einstakling á árinu 1980 milli Hafnarbúða og Hrafnistu í Reykjavík tæpar 510 þús. gkr., en tæpar 600 þús. gkr. sé farið í samanburð við Hafnarfjörð. Þessi gjöld eru of lág á Hrafnistuheimilunum, en þrátt fyrir nauðsynlega hækkun á þeim yrði um umtalsverðan mun að ræða.

Ég vil sérstaklega undirstrika þýðingu þess, að stefnt sé að sparnaði í tryggingakerfinu án þess að þjónusta sé skert. Eitt ráðið er að vinna að frestun þess, að aldraðir þurfi að fara inn á hjúkrunarheimili, að ekki sé talað um langlegudeild eða sjúkrahús, en geti verið áfram í heimahúsum í vernduðum íbúðum eða á vistdeildum dvalarheimilanna. Þetta er hægt að gera m.a. á þjónustumiðstöðvum aldraðra með endurhæfingu og fyrirbyggjandi aðgerðum. Ef okkur tækist á Hrafnistuheimilinu hér í Reykjavík að fresta um eitt ár flutningi 100 vistmanna af almennri vistdeild inn á hjúkrunarheimili, eins og Hafnarbúðir eða í Hátún, má ná fram sparnaði upp á 868.7 millj. gkr., sem er mismunur 100 vistgjalda þessara heimila á einu ári.

Rekstrarsamanburð á milli hjúkrunarheimila aldraðra hér í Reykjavík skal ég ekki fara út í frekar, enda kemur það ekki beint málinu við. Þó má benda á nokkrar tölur sem tilefni gafst til að fá upplýsingar um og fengust frá hæstv. heilbrmrh. er hann svaraði fsp. sem ég var með.

Það kom í ljós að á árinu 1979 voru daggjöld í Hátúni 10B um 25 þús. kr., en á sama ári voru þau á sjúkradeild Hrafnistu í Reykjavík 10 115. Þá kom í ljós að á liðum á dvalardag á þessum heimilum gat munað mjög miklu eins og fatnaði og hreinlætisvörum“. Sá liður var á dvalardag á þessu heimili ríkisins eða hluta Landspítalans 748 kr. meðan hann var miklu lægri á hinum staðnum. Lyf og spítalavörur voru 549 kr. á dag hjá ríkisspítölunum, en tæpar 300 kr. hjá einkaaðilanum. Hreingerningar og þvottur, líklega á ríkisrekna þvottahúsinu, rúmar 1000 kr. á dag hjá ríkisspítaladeildinni, en 82 kr. hjá einkarekstrinum. Fæðiskostnaðurinn var hjá ríkisspítaladeildinni 2900 kr., meðan hann var tæpar 1300 kr. í einkarekstrinum. Og annar kostnaður var 2500 kr. tæpar hjá ríkisspítaladeildinni, meðan hann var 162 kr. hjá einkarekstrinum. (Gripið fram í: Hjá hverjum?) Hrafnistu, sjúkradeildinni í Reykjavík. Þar eru hærri gjöld en á Grund. Samanburðurinn hefði verið enn þá óhentugri fyrir ríkisgeirann ef samanburður hefði verið gerður við Grund.

Skoðun mín er sú, að lög nr. 46 frá 1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem eru smám saman að komast til framkvæmda, og frv. um hollustuhætti og hollustuvernd, sem er til meðferðar í þinginu og verður væntanlega samþykkt og orðið að lögum í vor eða á næsta þingi, muni hafa mikið að segja um þróun heilsufars meðal landsmanna næstu ár og áratugi, að ákvæði þessara lagabálka muni fá fólk smám saman til að hugsa betur um heilsu sína og framtíð hennar en áður. Þessi lög munu hafa í för með sér að allur almenningur mun vakna til vitundar um að heilsuna ber að vernda, bæði líkama og sál.

Þegar ég hafði tekið saman helstu markmið sem unnið er að á Norðurlöndunum og víðar í sambandi við málefni aldraðra, þótti mér, auk þess að geta bent á þessa tvo lagabálka, eftirtektarvert að það má líka finna önnur mál sem hafa verið hér til umr. á Alþingi. Þótt þau hafi ekki verið beint vegna hinna öldruðu hafa þessi mál hins vegar spannað yfir ýmsa þætti í vandamátum þeirra. Ég bendi á hin nýju lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ég bendi á breytileg eftirlaunaaldurstakmörk, breytilegan vinnutíma o.fl., o.fl., eins og ég vakti athygli á í byrjun ræðu minnar. En alls staðar er lögð megináhersla á að þegar sé hafist handa um allt fyrirbyggjandi starf. Það er ekki seinna vænna að hefjast handa á þessu sviði. Þessi fyrirbyggjandi starfsemi verður að hafa forgang og miða að því að hefja mjög byltingarkennda breytingu, má segja, á lífskjörum hinna öldruðu.

Mig langar að nefna nokkur þessara atriðá, sem ég minntist á, sem unnið er að og talið af t.d. forstöðumönnum hjúkrunarheimila og verndaðra íbúða eða heimila, sem hafa slíkar íbúðir innan sinna veggja, að skipti máli. Þessi atriði eru fengin frá forstöðumönnum hjúkrunarheimila, m.a. þessi:

Upplýsingar um hvernig fólk eldist eðlilega nái til þeirra sem enn lifa í elli svo og hvernig framtíðin muni þróast hjá þeim sem sjá fram á að eldast og enn eru á miðjum aldri. Þá yrði breyting á afstöðunni og viðbrögðunum gagnvart þeim öldruðu. Mér er aðeins kunnugt um ein landssamtök sem hafa tekið það upp á málefnaskrá sína að vinna að þessu, en þar mun vera um að ræða Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.

Í öðru lagi er undirbúningur undir ellina nauðsynlegur, m.a. með því að taka tillit til þarfanna á að viðhalda og bæta andlegt atgervi og auka athafnasemina og áhugann.

Í þriðja lagi verður að endurbæta aðstöðuna og umhverfið á vinnustað. Þriðjungur þeirra manna, sem eru á ellilífeyrisaldri, hefur orðið að fara á eftirlaun fyrir tímann vegna heilsubrests. Það takmarkar tækifæri þeirra til að eiga tómstundir til að létta lífið.

Í fjórða lagi nefni ég breytileg eftirlaunaaldurstakmörk, þar sem einnig væri gert ráð fyrir að leyft væri að skipta niður vinnutímanum og jafnframt kæmi til greina að vinna hluta úr degi og fá þá hlutfallsleg eftirlaun. Afnám tímabundins eftirlaunaaldurs kæmi til framkvæmda, en leyft yrði að halda vinnunni áfram eftir getu og áhuga.

Í fimmta lagi ætti að koma þegar upp nauðsynlegum hjúkrunarheimilum og langlegudeildum við spítala þar sem þess er þörf.

Í sjötta lagi eru endurbætur á íbúðum nauðsynlegar, fyrst og fremst með því að gera við og setja í stand íbúðir hinna öldruðu svo að þeir geti búið við viðunandi og hentug örugg skilyrði. Enn fremur ætti að fjölga mikið félagslegum sambýlisíbúðum, þjónustuíbúðum, vernduðum íbúðum og hjúkrunarheimilum.

Í sjöunda lagi að auka leitina að þeim sem komnir eru á hættustigið, sem svo er kallað á Norðurlöndum. Það eru einstæðingar, það eru þeir sem orðið hafa fyrir einhvers konar áfalli, öryrkjar og þeir sem hafa verið útskúfaðir af spítölum — þeir þekkja þetta vandamál líka á öðrum Norðurlöndum eins og við hér í Reykjavík — og fólk sem er eldra en 80 ára.

Í áttunda lagi að sjá um að aldraðir hafi síma sem þeir ráði við.

Í níunda lagi sérhannaðar íbúðir aldraðra. Þær séu búnar öryggiskall- eða viðvörunarkerfum.

Í tíunda lagi dagheimili, daghjúkrunarheimili og matardreifing verði virkir þættir.

Í ellefta lagi að námskeið fyrir heimahjálparstarfsemi verði aukin og endurbætt.

Í tólfta lagi að auka athafnasemi hinna öldruðu þegar þeir verða lagðir inn á spítala eða hjúkrunarheimili.

Í þrettánda lagi betri upplýsingar og samráð læknis og sjúklings við læknisskoðun.

Í fjórtánda lagi að bæta hið sálræna andrúmsloft á heilsuhælum og heimilum, þar sem aldraðir dveljast, og sýna þeim fram á að um sé að ræða heimili, en ekki stofnun.

Til viðbótar bentu þessir forstöðumenn á að auka þyrfti sjálfsákvörðunarrétt og samráð við stjórnun, auka þátttökuna í verklegu starfi, það yrði að koma á meira og betra sambandi og umgengni milli íbúanna, allt eftir því sem við á og óskað er. Undir flest þetta má taka hér þótt á margan hátt sé sú þróun, sem hér hefur orðið innan slíkra heimila, æskilegri en víða annars staðar, og má vera að það sé vegna þess að ákveðnir aðilar fengu ekki jafnmikinn íhlutunarrétt í nágrannalöndum okkar og þeir sumir vilja stefna að hér heima.

Það gildir um flest það sem hér hefur verið nefnt, að það á við vel skipulagða og framfarasinnaða starfsemi, og það bendir á að nokkurra klukkustunda virkt fyrirbyggjandi framtak á réttum tíma getur glætt vonir hinna öldruðu um að þeir öðlist meiri lífsfyllingu, samtímis því að það mundi stytta og létta á hinum erfiða hjúkrunartíma svo að mánuðum skipti. Þetta er fullyrðing sem kemur beint frá þeim fræga Íslending, sem starfaði í Danmörku, Guðmundi Magnússyni prófessor í geðlæknisfræðum. En ekkert af þessu, sem ég hef hér bent á og eru óskamarkmið fólks á Norðurlöndum sem að þessum málum vinnur, breytir þeirri staðreynd að við hér á Íslandi, sérstaklega þó í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu, búum við hringrás sem við komumst ekki út úr í samband við heimahjúkrun og heimilishjálp. Fólk, sem við þetta starfar, hefur svo marga þunga einstaklinga að sjá um að það kemst ekki yfir nema lítinn hluta þess, sem það þyrfti að stunda, á þann hátt sem æskilegur væri. Að sjálfsögðu kemst það yfir allt sem það er beðið um, en þetta þunga fólk er komið á það hjúkrunarstig að það á betur heima á sérhönnuðum heimilum en í eigin íbúðum eða íbúðum venslamanna sinna. Ef sérhannað húsnæði væri til mundi heimahjúkrun og heimilishjálp starfsfólks þessa betur geta stuðlað að því að þeir, sem enn eru ekki orðnir of aldnir eða illa farnir, geti dvalið heima hjá sér enn lengur án þess að ný vandamál verði til, sem ég drap á fyrr í ræðu minni.

Í frv. því, sem við höfum hér flutt, er ekki ákvæði um hvaða ráðh. eigi að fara með þessi mál. Flestir munu telja eðlilegt að málið sé hjá heilbrmrh., en bæði í máli mínu og eins samkv. frv. má sjá að það getur ekki síður verið um félmrh. að ræða, nema í þeim sérstöku þáttum sem heyra undir eftirlit og umsjón heilbrigðisyfirvalda. Það er ekki neitt til eftirbreytni sérstaklega þó að getið sé um hjúkrunarheimili í heilbrigðislögunum. Hér er verið að tala um hjúkrunarheimili aldraðra, og má vel hugsa sér að sérákvæði gildi um þau, en um staðsetningu þeirra sérákvörðun hjá rn. En sannleikurinn er sá, að það eru fleiri en ég sem hafa talið á liðnum árum að vandamál aldraðra séu að stærri hluta vandamál sem falla undir það sem kallast félagsleg vandamál en heilbrigðisvandamál. Þetta mun nefndin, sem fær frv. til meðferðar, að sjálfsögðu athuga og gera tillögur um, ef hún sér ástæðu til að koma frv. frá sér aftur. Að sjálfsögðu mundi besta lausnin og hagkvæmasta vera sú, sem er í raun í dag, að sami aðili gegni bæði ráðherrastarfi félagsmála og heilbrigðismála.

Við höfum ekki heldur séð ástæðu til að taka inn í frv. á þessu stigi ákvæði um endursölu íbúðanna, enda eiga slík ákvæði að mínu mati að gilda hjá þeim sem lána til slíkra íbúðabygginga eða styrkja, t.d. hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Eins og frv. ber með sér er reiknað með að húsnæðismálastjórn verði stór aðili að byggingu þessara íbúða, eins og hún í rauninni er þegar orðin.

Ég sé ekki ástæðu til að skýra betur en gert er í aths. einstakar greinar frv. Ég held að þær skýri sig sjálfar — alla vega með þeim skýringum sem með fylgja. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til heilbr.- og trn. og 2. umr.