17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

369. mál, vaxtaútreikningur verðtryggðra lána

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herraforseti. Hv. 12. þm. Reykv. hefur lagt fram á þskj. 223 svohljóðandi fsp. um vaxtamál: „Hvernig stendur á því, að vextir af verðtryggðum innlánareikningum eru reiknaðir á annan hátt en vextir af verðtryggðum útlánum?“

Ég hef skrifað Seðlabankanum og beðið hann um að svara þessari spurningu, og ég held að ég geri best í því að lesa svar Seðlabankans, en það er svohljóðandi:

„Meginmunur vaxtareiknings útlána og innlána er sá, að útlánin hafa fasta gjalddaga, einkum heilum eða hálfum árum frá stofndegi láns, og nægileg nákvæmni þykir nást með breytingu vísitölunnar frá stofngildi hennar ásamt vöxtum á verðtryggðum grunni. Inn á innlánsreikningana er hins vega frjálst að leggja hvenær sem er og sömuleiðis að taka fé út á ýmsum tímum mánaðar að útrunnum uppsagnarfresti. Þar sem gildi vísitalnanna miðast við mánaðamót þarf að beita einfaldri samtímareglu og þótti einfaldast og ljósast að færa inn greiðslur til næstu mánaðamóta og útgreiðslur frá síðustu mánaðamótum með vöxtum 12 mánaða vaxtaaukainnlána.

Vaxtareikningur þessara innlána fylgist að við annan vaxtareikning innlánsstofnana og lýtur venjum og tækniskilyrðum á því sviði. Þessar aðferðir leiða til þess, að 1% vextir eru reiknaðir ofan á uppfærðan höfuðstól í lok hvers mánaðar og geymdir á vaxtatali reikningsins til ársloka. Leiðir það til eilítið lægri raunvaxta en 1% samkv. venjulegum skilningi eða um 0.8–0.9% raunvaxta eftir því hver verðbólgan er. Þessi regla er viðurkennd með gildandi vaxtatilkynningum. Benda má á að séu afborganir útlána ekki greiddar á réttum gjalddaga er einnig reiknað aukalega með dráttarvöxtum í þeirra tilviki.“

Þetta er það svar, sem Seðlabankinn hefur gefið mér við fsp. um þetta mál í tilefni af fsp. hv. 12 þm. Reykv., og þær skýringar sem bankinn gefur á fyrirkomulagi þessara mála.