17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

370. mál, viðskiptahættir ríkisbanka

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram á þskj. 223 fsp. til viðskrh. um viðskiptahætti ríkisbanka. Fsp. hljóðar svo:

„1. Samkv. hvaða lögum eða reglugerðum geta bankar krafist þess, að 5% af andvirði keyptra viðskiptavíxla sé lagt inn á bundinn bankareikning?

2. Hve lengi hafa þessi viðskiptahættir tíðkast?

3. Hve stórar upphæðir eru inni á slíkum bundnum reikningum í ríkisbönkum?“

Svo sem mörgum mun kunnugt munu a.m.k. sumir ríkisbankarnir haga viðskiptum sínum á þann veg við sina viðskiptavini, að þeir kaupa svonefnda vöruvíxla eða viðskiptavíxla gegn því að 5% af andvirði þessara víxla séu lögð inn á bundna almenna sparisjóðsbók. A.m.k. í einu tilviki, sem ég hef kynnt mér, gerir bankinn samning við viðskiptavininn, skriflegan samning, þar sem kveðið er á um að 5% af andvirði þeirra vöruvíxla, sem bankinn kaupir, séu lögð inn á sparisjóðsbók sem haldið er í vörslu bankans sem handveði fyrir öllum skuldbindingum viðskiptavinarins eða fyrirtækja hans, hverju nafni sem nefnast, og jafnframt að bankanum sé heimilt að taka greiðslu af þessu handveði, eins og þörf krefur að hans mati og án afskipta eða atbeina annarra, til lúkningar gjaldföllnum skuldum framangreinds aðila við bankann, hvort sem er höfuðstóll, vextir, dráttarvextir, kostnaður eða annað, og er bankanum heimilt að ganga að handveði á framangreindan hátt án fyrirvara, tilkynninga eða aðvarana, annarra en hann telur nægja ef til kemur.

Þeir aðilar hjá ríkisbönkum, sem ég hef rætt við og kannast við og hafa slíka viðskiptahætti, lýsa því yfir að hér sé um að ræða fullkomið samkomulag banka og viðskiptavinar, hér sé um að ræða tryggingu fyrir skuldbindingum viðskiptavinarins í bankanum og í mörgum tilvikum að ósk viðskiptavinar. Þessum samningi sé unnt að segja upp, segja þessir aðilar bankanna, hvenær sem er. Ef viðskiptamaður óskar eftir geti hann losað sitt fé. Hins vegar segir sá banki, sem ég hef rætt þetta við, að þessi viðskiptamáti sé skilyrði hans fyrir kaupum vöruvíxla og víxlakvóti sé miðaður við nokkurn veginn tvöfalda bindingu á þessari almennu sparisjóðsbók. Sá banki sem ég hef rætt við upplýsir mig jafnframt um að viðskiptavinir hans vilji ekki segja slíkum samningi upp þó að þeim sé boðið, enda missa þeir þá þennan víxlakvóta svonefnda eða möguleika á því að bankinn kaupi vöruvíxla.

Þannig liggur málið fyrir frá sjónarhóli bankans. Frá sjónarhóli margra almennra borgara, sem á þetta horfa, virðist mönnum að þarna sé bankinn að binda fé á tiltölulega lágum vöxtum gegn útláni á fé á hærri vöxtum. Að vísu hefur þessi vaxtasamanburður nokkuð breyst á undanförnum árum, þar sem vextir á almennum sparisjóðsbókum eru nú orðnir 35%, en víxilvextir 34%. Víxilvextir eru þó forvextir og þar af leiðandi hærri enn. Mörgum þeim, sem horfa á þetta mál, virðist að hér sé verið að koma sér upp aðferð til þess að komast fram hjá vaxtaákvörðunum Seðlabankans. Ég skal ekki leggja dóm á það. En það er óneitanlega dálítið sérstætt mál þegar sumir ríkisbankar setja slík skilyrði fyrir ákveðnum tegundum viðskipta, en aðrir ekki. Eðlilegast væri að sömu reglur giltu hjá hinum mismunandi ríkisbönkum. Án þess að fara nánar út í þetta mál hef ég lagt hér fram fsp. til hæstv. viðskrh. þar sem spurt er samkv. hvaða lögum eða reglugerðum bankar geti krafist þess, að viðskipti fari fram með þessum hætti.

Nú upplýsir sá ríkisbanki, sem ég hef talað um, að hér sé ekkí um að ræða kröfu, heldur samkomulag og í mörgum tilvikum ósk viðskiptavinar. Eigi að síður spyr ég: Samkv. hvaða reglugerðum og lögum er ríkisbanka heimilt að haga viðskiptaháttum sínum á þennan veg? Vona ég að ég fái sem greiðust svör við þeirri spurningu.