17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2311 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

370. mál, viðskiptahættir ríkisbanka

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. hefur lagt hér fram aðra fsp. til mín, og ég sneri mér til Seðlabankans eins og í fyrra tilviki og óskaði eftir að fá svör bankans við því, hvernig þessum málum er háttað. Svar Seðlabankans er á þessa leið:

„Hér með fylgir svar við lið 3 vegna fsp. um viðskiptahætti ríkisbanka, sbr. bréf rn. frá 12. þ. m.

Eitt af grundvallaratriðum í bankastarfsemi er að forsvarsmenn bankanna sjái til þess, að hæfilegar og auðaðgengilegar tryggingar séu settar fyrir lánsviðskiptum. Í því sambandi má benda á b-lið 5. gr. laga nr. 11 frá 1961, um Landsbanka Íslands, sbr. d-lið sömu greinar, svo hljóðandi: .,Að kaupa og selja víxla, tékka og ávísanir; að veita hvers konar lán önnur gegn tryggingum sem bankinn metur gildar.“ Enn fremur má benda á 28. gr. reglugerðar fyrir Landsbanka Íslands nr. 3V frá 1962 svohljóðandi: „Bankastjórnin skal að jafnaði krefjast þess, að settar séu tryggingar fyrir útlánum bankans, svo sem fasteignaveð, sjálfsvörsluveð í lausafé, handveð, ábyrgð eða aðrar tryggingar sem bankastjórnin telur fullnægjandi.“ Samsvarandi ákvæði eru í lögum og reglugerðum annarra banka. Þegar um það er að ræða, að krafist er af hálfu banka að ákveðið hlutfall af andvirði keyptra viðskiptavíxla sé lagt inn á bundinn bankareikning, er það á grundvelli framangreindra laga- og reglugerðarákvæða. Að öðru leyti verður að telja, að sá viðskiptaháttur, að ákveðið hlutfall af andvirði keyptra viðskiptavíxla er lagt inn á bundinn bankareikning, sé samkv. samkomulagi bankans og viðskiptaaðilans.

Í framhaldi af bréfi viðskrn. 12. þ.m. skrifaði bankaeftirlit Seðlabankans ríkisviðskiptabönkunum þremur bréf og óskaði eftir svörum þeirra við umræddri fsp. um viðskiptahætti ríkisbanka.

Í svari Landsbankans kemur fram að bankinn hafi aldrei krafist þess, að viðskiptavinir leggi 5% eða aðra hlutfallstölu af andvirði keyptra viðskiptavíxla inn á bankareikning, en einstaka viðskiptavinir hafi óskað eftir því sjálfir að ákveðinn hluti andvirðis keyptra viðskiptavíxla sé lagður inn á bankareikning. Þetta sé þó mjög fátítt og slíkir reikningar séu ekki bundnir.

Í svari Búnaðarbankans kemur fram að fyrirtækjum, sem eru í föstum viðskiptavíxlaviðskiptum við bankann, er gefinn kostur á að leggja til hliðar á sérstakan sparisjóðsreikning, ekki bundinn reikning, ákveðna prósentu af seldum viðskiptavíxlum gegn því að bankinn skuldbindi sig til að kaupa ætíð viðskiptavíxla sem nemi a.m.k. tvöföldu söfnunarfé. Þessi viðskiptaháttur hefur tíðkast í nær tvo áratugi hjá Búnaðarbankanum. Svar Búnaðarbankans við 3. tölul. fsp., þ.e. hve stórar upphæðir eru inni á slíkum bundnum reikningum í ríkisbönkum, er á þessa leið:

„Svo sem áður segir eru ekki í Búnaðarbanka neinir bundnir reikningar vegna viðskiptavíxla eftir bankalegri skilgreiningu á bundnum reikningum, en mjög verulegar fjárhæðir eru inni á hinum sérstöku reikningum sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Heildarupphæð er hins vegar ógerlegt að nefna án frekari fyrirvara, en svars er óskað strax í bréfi Seðlabankans. Til þess að fá rétta mynd af málinu gagnar heldur ekki að vita aðeins aðra hliðina, því að heildarfjárhæð keyptra viðskiptavíxla þarf að vera til samanburðar.“

Í svari Útvegsbankans kemur fram að það hefur tíðkast að viðskiptavinir bankans hafi lagt 2–5% af andvirði keyptra víxla inn á innlánsreikninga, þetta hafi ávallt verið gert í samráði við viðskiptavinina og bankinn hafi ekki krafist þessara viðskiptahátta af neinum, en þeir hafi tíðkast, aðallega síðan á árunum 1974–1975. Á slíkum reikningum voru í Útvegsbanka 589 millj. kr. 16. 12. 1980.

Seðlabankinn vonast til að framangreint gefi viðunandi svar við umræddri fsp. um viðskiptahætti ríkisbankanna.“

Ég verð að segja alveg eins og er, að mér finnst ýmsar skilgreiningar og framsetning af hálfu viðskiptabankanna og bankakerfisins vera nokkuð flókið og torskilið mál fyrir venjulega leikmenn. Þegar ég kom í viðskrn. var ég þess mjög vel vitandi, að þetta hefur tíðkast um langan tíma, og það, sem hér er um að ræða, er að mínu mati fyrst og fremst fjáröflunaraðferð. Bankar hafa á undanförnum árum, bankar sem hafa þetta fyrirkomulag, verið að græða peninga einfaldlega, svo að þetta sé sett fram á mennskra manna máli, þ.e. að láta viðskiptavini leggja inn hluta af því fé, sem þeir fá lánað, á miklu lægri vexti en þeir vextir eru sem þeir verða að greiða af heildarláninu. Þess vegna fór ég að fjalla svolítið um þessi málefni í viðskrn. Ég skrifaði Seðlabanka svohljóðandi bréf á s.l. vori:

„Reykjavík, 2. maí 1980. Ráðuneytinu hefur verið skýrt frá því, að viðskiptabanki hafi sett sem skilyrði fyrir veitingu rekstrarlána að lántakandi leggi samhliða inn fé á sparisjóðsreikning sinn í sama banka. Jafnframt var spurt hvort slíkir skilmálar væru í samræmi við þær reglur um lánskjör sem Seðlabankinn hefur sett viðskiptabönkum.

Ráðuneytið óskar hér með eftir athugun og umsögn Seðlabankans um ofangreint mál.“

Þetta er því ekki í fyrsta sinn sem Seðlabankinn er spurður þeirra spurninga sem hv. þm. hefur hér lagt fram, heldur hefur það verið gert áður.

Ég skal ekki rekja svör Seðlabankans. Þau eru mjög svipuð því sem ég gerði grein fyrir áðan með því að lesa svarbréf bankans. Ég vil þó lesa hér upp að lokum bréf sem viðskrn. sendi Seðlabanka, en það var dags. 24 sept. 1980 og er svohljóðandi:

„Í bréfi Seðlabankans, dags. 8. júlí s.l., sem var svar við bréfi viðskrn., dags. 2. maí s.l., segir m.a.:

„Í svörum frá nokkrum bankanna er tekið fram að sá háttur sé hafður á við kaup á viðskiptavíxlum, að hluti andvirðis þeirra sé lagður inn á sérstaka almenna sparisjóðsbók, prósentubók. Hlutfall þess fjár sem lagt er inn á þessar bækur, geti verið mismunandi, en algengt mun þó vera að það sé 5% af andvirði keyptra víxla.“

Ráðuneytið telur þessa viðskiptahætti mjög óeðlilega og vafasamt að þeir samræmist gildandi lögum og reglum um lánskjör sem Seðlabankinn setur viðskiptabönkunum. Ráðuneytið vill því mælast til þess, að Seðlabankinn athugi þetta mál nánar og geri síðan viðhlítandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir áframhald þessara viðskiptahátta.“

Ég hef ekki fylgst með því, hvað Seðlabankinn hefur gert í framhaldi af þessu bréfi, en ég vonast til að þær umræður, sem hafa orðið um málið, leiði til þess, að þessir viðskiptahættir verði lagðir af, enda sé ég engin rök fyrir því, að þeir séu viðhafðir. Það er að vísu sagt að þetta sé gert til að tryggja bankann. En auðvitað er þetta ekki gert til að tryggja bankann vegna þess að það þarf þá að lána meira. Ef viðkomandi viðskiptaaðili fengi að taka út innistæður úr sínum bundnu bókum, þá minnkaði náttúrlega fyrirgreiðsla bankans sem því nemur, þannig að þetta hefur að mínu mati sáralítið að gera með tryggingu fyrir bankann sem slíkan. Og ég held að á undanförnum árum hafi þetta verið gert til þess, eins og ég sagði áðan, að bankinn græddi þarna nokkra peninga.

Aftur á móti held ég að nú sé svo ástatt með vaxtareglur og útlánareglur, að því sé ekki lengur til að dreifa að bankar geti hagnast á þessu. Það sýnist mér ekki vera. Viðhorf eru því nokkuð breytt frá því sem áður var, þegar um talsvert verulegan hagnað var að ræða af svona viðskiptum.