17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2319 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

374. mál, kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. um hvað líði framkvæmd þál. sem samþykkt var á Alþingi 28. apríl 1980, um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum. Þessi þál., sem samþykkt var, er mjög margþætt. Hún miðaði sérstaklega að því að upplýsa ýmsa þá þætti kjara- og launamála sem ekki hafa legið nægjanlegar upplýsingar fyrir um, en þekking á þessum þáttum er forsenda sanngjarnrar uppbyggingar og þróunar kjaramála og undirstaða réttmætrar skiptingar og hlutdeildar þjóðfélagsþegnanna í bættum þjóðarhag. Ljóst er einnig að í öllum umræðum um kjaramál og ákvarðanatöku í þeim málum skortir oft heildaryfirsýn yfir raunverulega tekjuskiptingu í landinu og á hverju uppbygging hinna ýmsu kjaraþátta í raun grundvallast.

Þál. þessi var í 15 liðum, þar sem m.a. var lögð áhersla á að rannsaka forsendur flokkaskipunar og annarra kjaraatriða og upplýsa hlutfall hinna ýmsu launakerfi í launakjörum almennt, þannig að hægt væri að sjá hvaða þáttur væri mest ákvarðandi um kaup og kjör hverrar starfsstéttar. Þar er átt við dagvinnutaxta, yfirvinnutaxta, afkastahvetjandi launataxta og ekki síst yfirborganir og aðrar duldar greiðslur eða kjaraþætti. Þegar borin eru saman launakjör í landinu er oftast gengið út frá umsömdum launatöxtum, en þeir segja ekki nema hálfa sögu um raunverulega tekjuskiptingu og launakjör í landinu, þannig að nauðsynlegt er að fá upplýst hvaða kjaraþáttur er mest ákvarðandi um raunveruleg launakjör í landinu. Einnig átti þessi könnun að upplýsa, hvernig aldurs- og kynskipting væri eftir launatöxtum, yfirborgunum og starfsgreinum, og athuga, hvort uppbygging launataxta og annarra launakjara kalli fram mismun í kjörum karla og kvenna, jafnframt því að kanna hvort brögð væru að því, að launamisrétti væri falið í stöðuheitum. Einnig má nefna að kannanirnar áttu að upplýsa og meta heilsufræðileg og félagsleg áhrif hinna mismunandi launakerfa og vinnuaðstæðna og kanna hvaða áhrif skert starfsgeta og starfsþrek hefur í reynd á eðlilega tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og í hve ríkum mæli hún er ákvarðandi um lífskjör þegar önnur atriði eru sambærileg.

Þau dæmi, sem ég hef hér tekið, eru aðeins nokkur þeirra sem kannanir þessar eiga að upplýsa, en ljóst er að með slíkum könnunum opnast möguleikar á raunhæfum samanburði á hvers konar kjaraatriðum, sem að gagni gætu komið fyrir ríkisvaldið og aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga eða við mótun launa- og tekjustefnu í landinu. Launa- og kjaramál eru sífellt í sviðsljósinu í þjóðfélaginu, bæði við mótun efnahagsstefnu stjórnvala og við gerð samninga milli aðila vinnumarkaðarins. Því er ljóst að ef fyrir lægju slíkar upplýsingar, sem tillagan gerir ráð fyrir gætu þær orðið mikilvægar og hagnýtar við ýmsa sameiginlega ákvarðanatöku stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Því er það von mín, að stjórnvöld hafi þegar hafist handa um að framkvæma þær kannanir sem þáltill. gerir ráð fyrir. Þótt ég geri mér grein fyrir að slíkar kannanir taki nokkurn tíma að framkvæma í heild þá tel ég að hægt sé að leggja þær jafnóðum fyrir Alþingi, eftir því sem hver úrvinnsluþáttur liggur fyrir hverju sinni. Því leikur mér hugur á að vita hvernig ríkisstj. hefur hagað framkvæmd þál., hvort ekki liggi fyrir að þegar hafi verið hafist handa um framkvæmd hennar og hvaða aðilar hafi þá fengið það verkefni sem þál. gerir ráð fyrir. Vænti ég að hæstv. félmrh. geti upplýst þessi atriði.