17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

374. mál, kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur ekki tekið eftir því sem ég sagði, vegna þess að ég taldi að hér væri um yfirgripsmikið verkefni að ræða. Sum af þessum verkefnum er hægt að afgreiða á tiltölulega skömmum tíma, sum taka langan tíma. Það hefur komið fram í mínu máli. Og ég vil segja það um þá spurningu hæstv. ráðh. hvort ég ætlist til að í eitt skipti fyrir öll verði þessum upplýsingum safnað saman í bók, að auðvitað geri ég ekki ráð fyrir því. Ég vil benda á það sem stendur í grg. till. um fyrsta liðinn sem ráðh. hefur greinilega ekki lesið. Þar stendur:

„Eðlilegt má telja að slíkar upplýsingar séu varðveittar á einum stað, þar sem hægt sé að endurbæta þær eins og tilefni gefast til og vinna úr þeim.“

Auðvitað þarf að endurbæta svona verkefni og vinna þau alltaf upp miðað við aðstæður hverju sinni.