17.02.1981
Sameinað þing: 50. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

154. mál, vararaforka

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 192 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni og Stefáni Guðmundssyni að flytja till. um vararaforku. Tillögugreinin hljóðar á eftirfarandi hátt: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að gerð verði áætlun um magn og nýtingu vararaforku í landinu í neyðartilvikum vegna orkuskorts.“

Eins og till. þessi ber með sér gerir hún ráð fyrir að tekin verði afstaða til þess, hve mikið magn vararaforku skuli vera tiltækt í landinu, fyrst og fremst vegna öryggissjónarmiða en jafnframt að gerð verði áætlun um nýtingu þeirrar orku miðað við hinar ýmsu aðstæður sem ráða þarf fram úr ef í nauðir rekur vegna orkuskorts í einstökum landshlutum eða byggðakjörnum.

Nú vaknar sú spurning e.t.v. í huga sumra, hvort ekki sé gætt fyllsta öryggis með þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið í orkuöflun og orkudreifingu. Að sjálfsögðu hefur öryggi aukist vegna samtengingar orkuflutningslína, og e.t.v. verður næsta stórvirkjun reist utan eldgosa- og jarðskjálftasvæða. Hvort tveggja eykur að flestra dómi, ef ekki allra, mjög á öryggi. Með tilliti til orkuþarfar nú á tímum og orkuöflunar virðist augljóst að öllu þarf að halda til haga.

Staðsetning meginraforkuvera okkar á helstu jarðskjálfta- og eldgosasvæðum hlýtur að vekja spurningar um hvernig færi ef til meiri háttar náttúruhamfara kæmi, að því er varðar orkumannvirkin sjálf, svo sem gufuvirkjanir, vatnsaflsvirkjanir, flutningslínur og vatnsfarvegi sem og uppistöðulón.

Hvað mundu menn taka til bragðs ef slíkir atburðir knýja dyra um miðjan vetur þegar hart er frost? Ég hygg að flestum yrði svarafátt. Reynslan sýnir jafnframt að raforkuframleiðslan er í hættu stödd þegar saman fer lítil úrkoma og lágt hitastig. Það gildir jafnt um allt land. Meiri háttar bilanir geta jafnframt orðið á flutningslínum vegna jarðskjálfta, veðurhæðar og/eða ísingar. Sú staðreynd, hve þjóðin er algjörlega háð þessum orkugjafa í sínu daglega lífi, hlýtur að kalla á lágmarksöryggi.

Fyrst og fremst þess vegna er sú till. flutt sem ég er hér að gera grein fyrir, svo að hægt verði að svara þótt ekki væri nema hluta þeirra spurninga sem vakna þegar hugað er að ráðstöfunum til þess að afstýra neyðarástand vegna orkuskorts.

Þegar talað er um vararaforku er átt við orku sem hægt er að grípa til í neyðartilvikum. Hér verður alls ekki reynt að meta það, hversu mikil vararaforka þarf að vera fyrir hendi svo að lágmarksöryggis sé gætt, enda gerir sú till., sem hér er rætt um, ráð fyrir slíku mati. Fyrir eru í landinu allnokkra olíurafstöðvar sem ekki eru notaðar lengur eða munu verða aflagðar til daglegrar notkunar. Í fljótu bragði sýnist sjálfsagt að halda þessum stöðvum við, halda þeim í því horfi að þær verði tilbúnar til gangsetningar ef á þarf að halda.

Í því skyni að nýta til hins ýtrasta alla vararaforku, sem fyrir er í landinu, verður að dómi okkar flm. ekki litið fram hjá þeim möguleikum sem felast í nýtingu skipastólsins. Tekið skal fram að raforkuframleiðsla er mjög mismunandi eftir hinum ýmsu skipum og nýrri skipin eru með 380 volta rafkerfi. Heildarraforkuframleiðsla allra togara og vöruflutningaskipa samanlagt í landinu er 60–70 mw. Eitt skip er þó rétt að nefna sérstaklega, rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson, en það mun geta framleitt um 1400 kw.

Mörg áðurnefndra skipa eru með sérstakan landtengibúnað til þess að nýta raforku úr landi. Þessi búnaður, bæði í landi og í skipum, er ekki gerður til þess að flytja nema mjög takmarkað magn orku, mest um 40–50 kw., sem er að sjálfsögðu mjög langt undir því sem skipin geta framleitt. Til þess að geta flutt verulegt magn orku verður því að leggja svera strengi frá aðaltöflum skipanna í spenni sem komið er fyrir í landi til þess að geta flutt raforkuna á hærri spennu inn á flutningskerfi til notenda.

Ég vil ekki neita því, að ýmsar aðrar forsendur en tæknilegar geti vegið þungt í þeim aðgerðum sem hér er bent á að því er skipastólinn varðar, svo sem bryggjupláss á hinum einstöku stöðum, miðað við orkuþörf viðkomandi byggðarlags, svo og fjölmörg skipulagsatriði og kostnaður. Við flm. bendum aðeins á skipastólinn í þessu sambandi, e.t.v. fyrst og fremst til þess að vekja umræðu um þessi mál, en eins og ég hef bent á í minni framsögu er þarna um allverulegt magn raforku að ræða sem hugsanlega mætti nýta í hinum einstöku byggðakjörnum.

Ég vil aftur minna á dísilstöðvarnar sem væntanlega verða aflagðar þegar tímar líða og við höfum manndóm í okkur til þess að afla frekari orku úr fallvötnum okkar og standa skynsamlega að þeim framkvæmdum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að lengja mál mitt frekar. Að mínum dómi skýrir þessi till. sig sjálf að öllu leyti. Hér er um að ræða till. sem gerir ráð fyrir að stjórnvöld leggi niður fyrir sér hversu mikið magn vararaforku skuli vera tiltækt í landinu og með hvaða hætti skuli nýta hana. Okkur flm. þykir sjálfsagt að slík áætlun verði unnin í samráði og samvinnu við Almannavarnir ríkisins, því að augljóslega er hér um almannavarnamál að ræða. Þessi till. gerir fyrst og fremst ráð fyrir því, að sett verði á fót eins konar neyðaráætlun.

Herra forseti. Ég legg til að að loknum hluta umræðunnar verði till. vísað til allshn.