18.02.1981
Efri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (2539)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til þess að beina fsp. til hæstv. forsrh. vegna svonefnds Þórshafnarmáls. Eins og kunnugt er tók þetta mál allmiklar kúvendingar í gær og vissulega ástæða til þess að almenningur fái skýringar á því, hvað hafi verið að gerast í þessu máli. Það heyrir að vísu til sögunnar, að við höfum ýmsir talið þessi kaup röng, bæði vegna þess að regla var brotin um útflutning á skipi í stað innflutts og eins vegna þess að við töldum fyrirsjáanlegt að það yrðu miklir erfiðleikar í rekstri, mikið tap. Við töldum því, að hér væri um bjarnargreiða að ræða við þau pláss sem hér um teflir, og vildum leysa atvinnuvandkvæði á annan hátt.

Engu að síður tók ríkisstj. og Framkvæmdastofnun ákvörðun um kaupin á sínum tíma, en svo kom í ljós að kaupverðið hafði heldur betur hækkað. Það mun vera svo í þessu máli, að undirskrift þingmanna með áskorun á sínum tíma byggðist á samningsdrögum um kaup á skipi frá Frakklandi sem hljóðar upp á því sem næst 1.1 milljarð gkr., og það liggur líka fyrir, að þessir útgerðaraðilar hafa fengið boð um skip frá norskum aðila upp á 1.5 milljarða kr., enda hafa margir fullyrt að gott skip mætti fá fyrir upphæð sem væri nálægt hálfum öðrum milljarði gkr.

Það hefur komið fram hjá ýmsum þm. sem að þessu stóðu á sínum tíma, að vitaskuld hafi þeim ekki dottið í hug að hér ætti að kaupa skip upp á 3.5 milljarða, og við þennan vonda draum virðist stjórn Framkvæmdastofnunar líka hafa vaknað, — vaknað til vitundar um það, að þetta væri ekki nægilega gott mál.

Ég held ég verði að segja að ýmsum hafi þótt mjög eðlilegt þegar stjórn Framkvæmdastofnunar tók ákvörðun um að reiða ekki meira fé af hendi heldur en upphaflegt kaupverð gerði ráð fyrir og var þó nógu hátt. En síðan gerist það í gær á stjórnarfundi, að stjórn Framkvæmdastofnunar kúvendir gjörsamlega í málinu. Þó var það svo, að a.m.k. einn stjórnarmaður úr Framkvæmdastofnun og framkvæmdastjóri stofnunarinnar höfðu tekið nokkuð stórt upp í sig fyrir fáeinum dögum um það, að þetta væri alls ekki gott mál og þyrfti jafnvel að leysa niður um ýmsa — svo notað sé það orðfæri sem framkvæmdastjóri stofnunarinnar viðhafði — til þess að sýna hvernig mál þetta væri í raun og sannleika vaxið. Manni kom þess vegna nokkuð á óvart þegar þessi kúvending átti sér stað í Framkvæmdastofnuninni í gær, og allar þær stóryrtu yfirlýsingar um að upplýsa þyrfti málið og sýna fram á sekt og svik hjöðnuðu og urðu að engu.

Ég verð að segja að mig hefur furðað það mjög hvaða vendu þetta mál hefur tekið. Nú er það upplýst af blaðafréttum í dag, að stjórn Framkvæmdastofnunar hafi tekið þessa ákvörðun eftir að inn á fund hjá henni bárust tilmæli frá hæstv. sjútvrh. í gegnum framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Eggert Haukdal lagði á fundinum fram bókun, eftir því sem segir í Morgunblaðinu, með leyfi hæstv. forseta, og tillögu um að fyrri samþykkt stjórnarinnar um lán á 20% af 21 millj. norskra kr. yrði felld úr gildi. Þetta fékk ekki hljómgrunn, en þá segir:

„Sverrir Hermannsson framkvæmdastjóri flutti þá inn á stjórnarfundinn tilmæli frá Steingrími Hermannssyni sjútvrh. um að það kaupverð, sem nú sé talað um, sé 28 millj. norskra kr. og miði Byggðasjóður lán sitt við þá upphæð, láni 10% beint, en 10% verði tekin af sérstöku framtagi sem ríkisstj. hefur ákveðið að fá Byggðasjóði til ráðstöfunar.“

Að þessum tilmælum fengnum tekur meiri hluti stjórnar Framkvæmdastofnunar þá afstöðu að samþykkja þessi tilmæti Steingríms Hermannssonar. Eggert Haukdal bókar að vísu og segir: „Ljóst er að þetta togarakaupamál hefur þróast þannig, að kaupverð ásamt breytingarkostnaði hefur vaxið svo frá því sem upphaflega var talað um að um gjörbreyttar forsendur fyrir fjármagnskostnaði í rekstri er að ræða. Þá má telja mjög vafasamt að kaup á þessum togara verði á nokkurn hátt til að leysa atvinnumál Þórshafnar og Raufarhafnar til frambúðar. Þvert á móti gætu þau sett atvinnulíf á þessum stöðum í strand þegar hallarekstur þessa togara fer að íþyngja í vaxandi mæli.“

Í þessari bókun sinni tekur stjórnarformaðurinn, Eggert Haukdal, undir þau sjónarmið sem ég og ýmsir aðrir hafa látið í ljós varðandi þetta mál. Karl Steinar Guðnason ítrekar andstöðu sína við málið með sérstakri bókun.

En svo gerist það í dag, að blöð flytja fréttir af því að það sé nú síður en svo að nokkur samþykkt hafi verið gerð um þetta mál í ríkisstj., og hæstv. iðnrh. lætur hafa eftir sér í Morgunblaðinu: „Þetta er alveg yfirgengilegt. Og jafnfjarstæðukennt er það að mínu mati að ætla að sækja fé til þessara kaupa í fjárveitingu sem ríkisstj. hugsar sem stuðning við innlenda skipasmíði. Hér er greinilega tvísýnt mál á ferðinni.“

Enn fremur segir hæstv. iðnrh.: „Það er rangt, að ríkisstj. hafi samþykkt einhver tilmæli til stjórnar Framkvæmdastofnunar varðandi lán í sambandi við kaup á togara til Raufarhafnar og Þórshafnar. Þvert á móti varð það niðurstaðan eftir allnokkrar umræður um málið, að ríkisstj. hvorki ályktaði um það né beindi einum eða neinum tilmælum til einhvers.“ — Afdráttarlausari getur þessi yfirlýsing ekki verið, eins og hún birtist í Morgunblaðinu, og það má segja að samhljóða yfirlýsingu sé að finna í Þjóðviljanum í dag líka.

Nú hefur það loks gerst, að í dagblaðinu Vísi í dag neitar hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson því, að hann hafi nokkur boð borið inn á þennan fund, og segir, með leyfi forseta: „Það er alrangt, að ég hafi flutt nokkur tilmæli. Ég tilkynnti Sverri að það væri ekki von á neinni samþykkt til viðbótar frá ríkisstj. Málið væri í þeirra höndum og við teldum eðlilegast að þeir leystu það eins og þeir sæju réttast.“ En á hinn bóginn lætur ráðh. hafa það eftir sér, að hann sé ánægður með þessa ákvörðun Framkvæmdastofnunar engu að síður.

Þetta gefur vissulega tilefni til spurninga. Maður hlýtur að spyrja: Var gerð samþykkt í ríkisstj. eða var hún ekki gerð? Ef hún var gerð hafði þá sjútvrh. umboð ríkisstj. til að flytja þessi tilmæli eða hafði hann það ekki? Flutti sjútvrh. þessi tilmæli eða flutti hann þau ekki? Og ef þetta var samþykkt hvað kemur þá til að ríkisstj. ákveður að hafa sjónarmið stjórnarformannsins, Eggerts Haukdals, að engu og traðka þannig á hans sjónarmiðum? Og ég spyr reyndar: Ef ekki liggur ríkisstjórnarsamþykkt að baki þessu, hvernig má það þá vera að aðrir stuðningsmenn ríkisstj. gangi þannig gjörsamlega þvert á sjónarmið stjórnarformannsins?

Ég vil líka spyrja hvernig það sé hugsað af hálfu ríkisstj., að það teljist stuðningur við íslenska skipasmíði að taka fé af peningum sem ætlaðir eru til innlendrar skipasmíði, eins og fram kemur í lánsfjáráætlun sem liggur hér fyrir, og nota þá til þess að kaupa togara til landsins. Er kannske gert ráð fyrir því, að þessi togari bili svo mikið að hann verði stöðugt í slipp? Ég verð að segja það fyrir mína parta, að ég fæ alls ekki séð hvernig það gengur upp að ætla að styrkja innlenda skipasmíði með því að kaupa skip til landsins, nota það fé, sem ætlað er til þess að styrkja innlenda skipasmíði, til þess að kaupa togara til landsins.

Það er enn til þessa máls að leggja, að í Þjóðviljanum í dag er það haft eftir hv. þm. Stefáni Jónssyni, að þetta niðurlausnarmál snúi öðruvísi við heldur en Sverrir Hermannsson hefði ætlað, og hv. þm. Stefán Jónsson telji sig hafa önnur verkefni fyrir höndum á því sviði. Og hann tekur fram og segir að ríkisstj. hafi ætlað Framkvæmdastofnuninni lausn þessa máls, ekki aðeins að reiða af höndum peningagreiðslur, heldur að aðstoða við kaupin, bæði um val og kaup og veita sérfræðilega aðstoð. Ég vil því spyrja: Var það tiltekið í upphaflegu bréfi ríkisstj. til Framkvæmdastofnunar, að hún skyldi inna af hendi þau verkefni sem hv. þm. Stefán Jónsson tekur fram í yfirlýsingu í dag að Framkvæmdastofnuninni hafi verið ætlað að gera, eða var það ekki tiltekið í bréfi ríkisstj.? Eða tiltók ríkisstjórnarsamþykktin og bréfið til Framkvæmdastofnunarinnar ekkert um þetta efni? Og ég vil spyrja: Hvernig var það með upphaflega samþykkt ríkisstj. um ríkisábyrgð, var hún ekki bundin við neina upphæð? Var ríkisábyrgðin ekki bundin við neina upphæð? spyr ég, vegna þess að á undanförnum dögum hefur málið snúist um það, hvort stjórn Framkvæmdastofnunar hafi átt að vera bundin við einhverja upphæð. En þá liggur fyrst fyrir að spyrja: Var ríkisábyrgðin bundin við einhverja tiltekna upphæð?

Ég vil að lokum spyrja hæstv. forsrh. að því, hvernig hugmynd ríkisstj. sé að standa undir rekstri þessa skips, sem er talið eiga að kosta 3.5 milljarða kr. Upplýst er að það vanti a.m.k. 660 millj. gkr. upp á það að tekjur hrökkvi fyrir útgjöldum. Fyrir einum og hálfum mánuði hafði ég áætlað þessa upphæð 500 millj. kr., svo það var þá ekki fjarri lagi og ekki ofætlað af minni hálfu. En er þá hugmyndin að greiða þetta fé, þennan taprekstur líka úr almannasjóðum, eða er hugmynd ríkisstj. sú, að það að leggja svo miklar skuldbindingar á þessi byggðarlög geti orðið til að styrkja atvinnulífið á þessum stöðum? Maður, sem ég hitti á götu, sagði um þetta mál: Nú veit ég í hvað skattarnir mínir fara. Ég vissi það að vísu, að þeir fóru mikið í Kröflu um tíma, en hér sýnist mér vera stefnt í sama farveginn. — Og ég verð nú að segja það, að mér sýnist að hér sé einmitt farið inn á þá braut að ætla sér mikið án þess að sjást fyrir um það, hvernig eigi að standa undir greiðslum, og hætt við að nokkuð mikið muni renna af almannafé til þess að standa undir þessum rekstri, ef svo fer sem horfir.

En ég ítreka fyrri spurningar: Hvernig var upphafleg samþykkt ríkisstj. um ríkisábyrgð? Var hún ekki bundin við einhverja tiltekna upphæð? Hvernig má það vera, að fé, sem renna á til skipasmíða til að styrkja innlendan skipaiðnað, verði varið til að kaupa skip til landsins í staðinn? Og hvers konar framferði er það í rauninni að afhenda fyrst 1.5 milljarða kr. til sérstakra verkefna og taka síðan þá fjármuni til baka með þessum hætti? Og hvernig var svo samþykkt ríkisstj. í gær? Er það rétt, að engin samþykkt hafi verið gerð? Hvernig má það vera, ef engin samþykkt var gerð, að þessi boð fóru inn á fund Framkvæmdastofnunar? Og hvernig líta þm., sem sitja í stjórn Framkvæmdastofnunar, á það ef hér er í rauninni um falsboð ein að ræða?

Í heild verð ég að segja að þetta mál er allt hið einkennilegasta, og almenningur hlýtur að eiga kröfu á að fá skýringar á því, hvernig mál geta þróast með þessum hætti. Í þeim efnum tek ég í rauninni undir sjónarmið sem forstjóri Framkvæmdastofnunar lét einmitt í ljós fyrir nokkrum dögum.