03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það er rétt, að hv. 8. landsk. þm. hafði samband við mig í gærkvöld og sagðist hafa í hyggju að taka til máls utan dagskrár um þetta efni, án þess að fara nánar út í það í einstökum atriðum. Þær spurningar, sem hún hefur hér lagt fyrir mig, voru svo á borði mínu áðan, þegar ég kom á þingfund, þannig að ég hef að sjálfsögðu ekki möguleika á að svara þeim til neinnar hlítar nú, en mun með ánægju svara þeim og gera það gjarnan skriflega og senda hv. þm. þau svör sem ég hef að gefa við spurningum hans. (Gripið fram í: Ráðherra, get ég fengið afrit eins og aðrir?) Nei, ég held að þess verði hv. hlustandi að afla sér á annan hátt. — Ég ætla að fara nokkrum almennum orðum um þetta mál og koma nokkuð inn á hvað hefur verið að gerast í versluninni á undanförnum árum, í samræmi við þær upplýsingar og skýrslur sem safnað hefur verið í því efni.

Þær eignir, sem hv. þm. gerði að umræðuefni, eru miklar, upp á 3.6 milljarða kr., að þær hafa verið gefnar, eins og kunnugt er, til líknar- og menningarmála. Er það mikil og rausnarleg gjöf sem ástæða er til að meta að verðleikum.

Ég hef í morgun reynt að kynna mér lauslega atvik þessa máls, hvers vegna þessar miklu eignir hafa orðið til, til upplýsinga, af því að farið er að ræða um þetta mál hér á hv. Alþ. Niðurstaða mín af þessari athugun, sem er mjög lausleg, er á þá leið, að þessar eignir hafa orðið til á 50 ára tímabili, sem lauk fyrir áratug eða tæplega það. Mér er sagt að fyrirtækið Silli og Valdi hafa byrjað að eignast fasteignir fyrir 1930, eða skömmu eftir að fyrirtækið var stofnað, en það mun hafa verið stofnað árið 1925. Og eftir það hafa engar fasteignir verið seldar af hálfu fyrirtækisins, heldur bætt við þær. Hagnaður, sem varð af fyrirtækinu, mun alla tíð hafa farið til uppbyggingar fyrirtækisins sjálfs.

Þau hjónin Sigurliði Kristjánsson og Helga Jónsdóttir áttu enga afkomendur, eins og fram kom í ræðu hv. 8. landsk. þm. Eigendur fyrirtækisins Silla og Valda, sem voru tveir, voru án efa afreksmenn í verslunarstörfum. Ég held að engar deilur séu um það í sjálfu sér. Ég þekkti þá ekki, en mér er sagt að þeir hafi unnið baki brotnu allt sitt líf við uppbyggingu og rekstur fyrirtækisins, og það er enginn efi á því, að verslanir Silla og Valda voru í fremstu röð hér í Reykjavík um áratugaskeið. Ég held að um þetta atriði deili heldur enginn maður.

Kunnugir menn hafa sagt mér að þeir Sigurliði og Valdimar hafi verið óvenjulega eljusamir verslunarmenn, útsjónarsamir og reglusamir og sparsamir. T.d. er mér sagt að þeir hafi aldrei haft nema ákaflega takmarkað skrifstofuhald, þeir hafi haft einn skrifstofumann sem hafi unnið að skrifstofustörfum í þessu stóra fyrirtæki alla tíð. Er það til dæmis um það, hvað þeir héldu spart á. Til viðbótar þessu hafa svo fasteignir sífellt hækkað í verði vegna verðbólgunnar.

Þetta held ég að séu helstu ástæðurnar fyrir því, að þessar miklu eignir urðu til. Það er hagnaður af versluninni í 50 ár tæp, það er mikill dugnaður við rekstur fyrirtækisins og svo er það verðbólgan sem eykur verðgildi fasteigna.

Ég dreg því í efa að söfnun þessara eigna geti verið réttur mælikvarði á hag smásöluverslunarinnar í landinu s.l. áratug. En ég sé ástæðu til þess að athuga hvað hefur verið að gerast í versluninni samkv. opinberum skýrslum. Þjóðhagsstofnun hefur safnað allítarlegum gögnum um hag verslunarinnar á undanförnum árum og þar koma fram vissar upplýsingar í því sambandi. Samkv. þessum skýrslum hefur vergur hagnaður innflutningsverslunarinnar — fyrir skatta — í hlutfalli við tekjur verið á seinustu árum: Árið 1973 4.9%, 1974 4.7%, 1975 4%, 1976 4.5%, 1977 3% og 1978 2.6%. Ég hafði samband við verðlagsstjóra í morgun, og hann er þeirrar skoðunar, að sennilega hafi hagur innflutningsverslunarinnar versnað að þessu leyti á seinasta ári. En ég mun kynna mér hvað menn álíta um þessi efni á þessu ári, eins og hér er spurt af hv. þm., og svara því að þeirri athugun lokinni.

Ef við lítum hins vegar á hreinan hagnað innflutningsverslunarinnar — fyrir skatta — í hlutfalli við tekjur hefur hann samkv. skýrslum Þjóðhagsstofnunar lækkað úr 4.1% 1973 í 2.1% 1978.

Að sjálfsögðu eru þetta allt saman meðaltalstölur og þess vegna verður að lesa þær með tilliti til þess. Sumar verslanir hafa miklu betri afkomu, aðrar hafa lakari afkomu. Skal ég ekki ræða það nánar, en um það mætti sjálfsagt margt segja.

Ég hef einnig athugað hver þróunin hefur verið í smásöluversluninni á undanförnum árum. Þá kemur í ljós að vergur hagnaður — fyrir skatta — í hlutfalli við tekjur hefur verið þessi á seinustu árum: Árið 1973 2.6%, 1974 2.1%, 1975 2.3%, 1976 2%, 1977 2%, 1978 1.5%, og horfur eru á að vergur hagnaður fyrir skatta í hlutfalli við tekjur verði á þessu ári 1.3%.

Lítum hins vegar á hreinan hagnað — fyrir skatta — í hlutfalli við tekjur. Þá kemur í ljós að hann hefur verið samkv. þessum skýrslum Þjóðhagsstofnunar: Árið 1973 1.5%, 1974 1.3%, 1975 1.6%, 1976 1.2%, 1977 1.1%, 1978 0.6%, og 1979 eru horfur á að þetta hlutfall verði 0.5%. Hér er auðvitað um að ræða meðaltalstölur eins og í hinum tilvikunum og verður að hafa hliðsjón af því.

Það er alveg augljóst mál, að það er mjög mikill munur á afkomu verslunarinnar — og þá er ég að tala sérstaklega um smásöluverslunina — eftir því hvort um er að ræða þéttbýli, eins og t.d. Reykjavík og grennd og Akureyri, eða strjálbýli. Það er alveg ljóst, að hin gífurlega mikla verðbólga, sem við búum við, gerir það að verkum, að það er höfuðatriði fyrir verslunina að velta sínum lagerum sem allra örast. Vaxtabyrðin og fjármagnskostnaðurinn eru gífurlega mikil hjá fyrirtækjum sem ekki geta velt lagerum sínum ört. Þarna kemur fram mismunur, sérstaklega á milli strjálbýlisverslunar og þéttbýlisverslunar. Strjálbýlisverslunin hefur miklu lakari aðstöðu til þess að beita þeim aðferðum sem þessi gífurlega verðbólga krefst og á því mjög í vök að verjast. Og þar held ég að ég geti talað af nokkurri þekkingu, vegna þess að við mig hafa talað bæði fulltrúar samvinnuverslunarinnar og einkaverslunarinnar utan af landi. Ég held að smásöluverslun úti um land eigi í miklum erfiðleikum og aðalerfiðleikinn sé fólginn í því, sem ég var að nefna, og stafi af því, að það er erfitt fyrir þessar verslanir að endurnýja sína lagera. Það gengur sífellt á lagerana og það eykur á erfiðleika um afkomuna. Ég álít að afkoma verslunarinnar í dreifbýlinu sé áhyggjuefni. Ein aðalástæðan er verðbólgan og ekki nægilega mikill veltuhraði til þess að mæta þeim útgjöldum, sem hún hefur í för með sér. Svo kemur ýmislegt fleira til í sambandi við dreifbýlisverslunina, t.d. mikil lánsviðskipti, sem fylgja því að umsetningin er hægari, og meiri rekstrarkostnaður, símakostnaður, svo að dæmi sé nefnt, og margt fleira. Og verðbólgan er í raun og veru sífellt að auka á þessa erfiðleika.

Í þessum spurningum kemur fram að verðlagseftirlitið hafi verið gagnrýnt nokkuð á undanförnum árum, og ég hef verið spurður að því hér, hvort unnið sé að úrbótum á því. Þessu get ég svarað strax að því leyti til, að nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir 1981 að auka talsvert verulega starfsemi Verðlagsskrifstofunnar. Það hefur verið gert á þessu ári og verður gert til þess að hún sé betur í stakk búin til þess að sinna verðlagseftirliti. Í fjárlagafrv. nú er gert ráð fyrir 443 millj. til Verðlagsskrifstofunnar, en voru 273 í fjárlagafrv. sem lagt var fram fyrir þetta ár. Hækkunin er milli 61 og 62%. Það er að mínu mati ákaflega þýðingarmikill þáttur í sambandi við verslunina, að til séu sterk neytendasamtök, og gert er ráð fyrir því að tvöfalda framlag til Neytendasamtakanna frá því sem er á þessu ári.

Ég get getið þess í leiðinni, fyrst ég er farinn að ræða um þessi mál, að nokkrum dögum eftir að ég tók við starfi viðskrh. ritaði ég Verðlagsskrifstofunni svohljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstj. eru ákvæði um að stutt skuli að lækkun vöruverðs, m.a. með því að haga verðlagsákvæðum þannig að þau hvetji til hagkvæmra innkaupa og greiði fyrir innkaupum í stórum stíl. Í framhaldi af samtali er yður hér með falið að athuga hvernig best verður hægt að standa að framkvæmd þessara mála, m.a. í samráði við innflytjendur og samtök þeirra. Væntir rn. þess að fá skýrslu um árangur yðar af þessari viðleitni.“

Verðlagsstjóri hefur sagt mér að það hafi verið unnið mikið í þessu máli og muni Verðlagsstofnunin leggja fyrstu hugmyndir sínar fyrir mig nú á næstunni.

Varðandi verslunina almennt eru skiptar skoðanir, eins og kunnugt er, hvaða kerfi muni leiða af sér ódýrastar vörur og besta þjónustu. Ég hef opinberlega sagt skoðun mína í þeim efnum. Ég er þeirrar skoðunar, að um verslunina gildi það almennt, að heilbrigð samkeppni einkaverslunar og samvinnuverslunar ásamt virku verðlagseftirliti og sterkum neytendasamtökum sé besta tryggingin fyrir heilbrigðum verslunarháttum, ódýrri vöru og góðri þjónustu. En því er ekki að leyna, að verðbólgan skapar gífurlega erfiðleika í sambandi við verslunina, t.d. gengissig, eins ört og það hefur verið að undanförnu, jafnvel svo ört að menn hafa farið þar í þrepum eða stökkum, eins og stundum hefur verið sagt. Þetta veldur auðvitað miklum erfiðleikum í sambandi við allt verðlagseftirlit, vegna þess að verðið breytist frá degi til dags, ef svo mætti segja. Ég álít að eitt af skilyrðunum fyrir því að koma á heilbrigðum og æskilegum verslunar- og viðskiptaháttum sé að ná niður verðbólgu og koma á sæmilega stöðugu verðlagi. Ég held að það hafi staðið verslun landsmanna fyrir þrifum, hvað verðbólgan hefur verið mikil.

Þetta eru nokkur sundurlaus orð í tilefni af fsp. hv. þm., en ég skal taka þessar fsp. til athugunar og reyna eins fljótt og mér er unnt að senda þm. svör við þeim.