18.02.1981
Efri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. þau svör sem hann gaf, svo langt sem þau náðu, en jafnframt ítreka nokkrar spurningar sem ég tel að þjóðin eigi kröfu á að fá svör við, en ekki voru í svörum forsrh.

Það er auðvitað stór yfirlýsing af hálfu forsrh. þegar hann segir að ríkisstj. sinni hafi orðið á mjög alvarleg mistök. Það eru fleiri sem koma til greina sem sökuaðilar, ég skil það svo hjá hæstv. forsrh. En þá vaknar auðvitað spurningin: Svo framarlega sem hér hafa orðið mjög alvarlega mistök, sem ég er alveg sammála forsrh. um, þá vil ég spyrja hvort ekki sé hugmyndin að leiða neinn til ábyrgðar fyrir þau mistök sem hér hafa átt sér stað. Eiga menn bara að standa upp og segja: Ja, við gerðum hér mistök upp á nokkra milljarða kr., yppta síðan öxlum og láta eins og ekkert hefi gerst? Ég held að það sé ekki til fyrirmyndar í stjórnarfari. Ég tel að Alþingi setji niður og stjórnsýslukerfið allt ef það kinokar sér við að leiða menn til ábyrgðar um svona hluti.

Ég spurði hvort í upphaflegri samþykkt ríkisstj. um ríkisábyrgð hefði ekki verið miðað við einhverja tiltekna upphæð, hvort ríkisábyrgðin hefði ekki verið miðuð við einhverja tiltekna fjárhæð. Ég túlka svör forsrh. og það bréf sem hann las varðandi þetta efni, þannig að ríkisstj. hafi einmitt ekki tiltekið neina sérstaka fjárhæð. Og það voru þá væntanlega fyrstu mistökin í þessu máli og gerð af hálfu ríkisstj. Hún sjálf tiltekur ekki neina upphæð, hún skilur málið eftir galopið, ávísunin er óútfyllt. Það eru fyrstu og sjálfsagt alvarlegustu mistökin í þessu máli, ef svo er. Og ég verð að segja það, að af svörum hæstv. forsrh. get ég ekki ráðið annað en svo sé.

Ég gat ekki heldur ráðið annað af svörum hæstv. forsrh. en að ekkert hefði verið tiltekið í upphaflegu bréfi ríkisstj. um það, að „Framkvæmdastofnunin ætti að aðstoða við val og kaup og veita sérfræðilega aðstoð“, eins og haft var eftir einum hv. þm. í blaðaviðtali, Stefáni Jónssyni, og ég rakti hér áður. Þegar menn koma svo eftir á og segja Framkvæmdastofnunina hafa átt að gera þetta eða hitt, þá sýnist mér að sökin geti ekki síður legið hjá ríkisstj. sjálfri, sem ekki hafi tiltekið það í boðum sínum, í bréfi sínu til Framkvæmdastofnunar. Forsrh. leiðréttir það þá væntanlega, ef þetta er röng túlkun á því bréfi sem ríkisstj. sendi frá sér, en það kom ekkert fram í því, sem hæstv. forsrh. las upp um það, að þetta hefði verið bundið við tiltekna fjárhæð né heldur að Framkvæmdastofnuninni væri ætlað að aðstoða við val og kaup.

Ég vildi líka gjarnan fá skýringar á því — og bað um svör við því — hvernig það mætti vera, að það fé, sem ætlað væri til skipasmíða, væri nú látið renna til togarakaupa erlendis frá, og með hvaða hætti það styrkti skipasmíðina í landinu. Við þessu fengust engin svör frá hæstv. forsrh., og ég ítreka þá fsp.

Hæstv. forsrh. vildi ekki veita nein svör um það, hvernig samtal þeirra Sverris Hermannssonar framkvæmdastjóra og hæstv. sjútvrh., Steingríms Hermannssonar, hefði verið. Ég trúi því tæpast, að hæstv. forsrh. viti ekki, hvernig þetta samtal hafi gengið fyrir sig, eða hafi eftir því innt. Mér þykir einsýnt að það skipti miklu máli fyrir forsrh. hvernig þetta samtal hafi verið, svo afdrifaríkar ákvarðanir sem teknar voru. Og ég hefði talið einsýnt að forsrh. hefði nú haft samband við þessa menn til að ganga úr skugga um hvernig orð hefðu farið þeirra á milli. Ég vil hér með beina því mjög eindregið til hæstv. forsrh., að hann varpi nú ljósi á þessa miklu og stóru gátu, þannig að við fáum skilið hér í deild og þjóðinni verði ljóst hver hulduboð gengu þarna á milli þessara tveggja aðila, þar sem annar segist hafa tekið við skilaboðum, en hinn ekki nokkurn tíma hafa látið þau sér um munn fara — og verður að teljast heldur einkennilegt. En kannske er vert að vekja athygli á því í þessu sambandi, að jafnóðum og hæstv. sjútvrh. vill ekki kannast við neitt í þessu efni, þá er hann í sjöunda himni yfir því, að samtal hans við Sverri Hermannsson skuli hafa verið skilið á þennan hátt og að Framkvæmdastofnunin hafi tekið þá ákvörðun sem hún tók í gær, sem ég skildi hæstv. forsrh. svo að hann í raun og sannleika harmaði, því að hér væri verið að innsigla þau alvarlegu mistök sem hefðu átt sér stað. Því vil ég eindregið beina því til hæstv. forsrh., að hann svari þessari spurningu.

Ég vil líka ítreka þá spurningu, sem ég bar fram um það, hver það sé að áliti ríkisstj. sem standa eigi undir rekstri þessa skips. Eða er hæstv. forsrh. tilbúinn að gefa yfirlýsingu um það, að svo framarlega sem af þessu verði öllu saman megi Þórshafnarbúar og meðútgerðaraðilar þeirra á Raufarhöfn búast við því, að ríkisstj. hlaupi undir bagga um þær 660 millj., sem þarna vantar upp á, strax á næsta ári?

Ég vil aðeins segja það að lokum, að mér er það ljóst, sem kom fram í ræðu hv. þm. Stefáns Jónssonar, að hann og hv. þm. Árni Gunnarsson gerðu ítrekaðar tilraunir til að fá að fylgjast með gangi þessa máls. En ég veit ekki hvort það var rétt til orða tekið hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, að þeir hefðu komið að tómum kofunum. Mér skildist að þeir hefðu komið að læstum dyrunum og engar upplýsingar fengið.

Ég verð líka að segja það í framhaldi af þeim upplýsingum, sem komu fram í ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar, að ríkisstj. samþykkti kaup á dýrara skipi 8. okt heldur en þm. höfðu gert ráð fyrir. Þá var skipið orðið 1–11/2 milljarði dýrara en þm. höfðu gert ráð fyrir, og þó vitað að gera þyrfti á því einhverjar endurbætur. Þessari samþykkt kyngdi svo Framkvæmdastofnunin hinn 17. okt., eftir því sem mér skilst, en þá eftir að ríkisstj. hafði samþykkt kaupin upp á 21 millj. n. kr. Ríkisstj. hafði þannig forgöngu í þessu máli.

Að lokum einungis þetta: Hv. þm. Stefán Jónsson rakti efnahagsmálavanda við Þistilfjörð til útgerðar á togaranum Fonti. Mér er tjáð að útgerð á togaranum Fonti hafi gengið allvel síðan hann fór til Siglufjarðar. Ég hef haft áhyggjur af því, að erfitt væri að gera út togara frá þessum stað. Mér er ljóst að nýir togarar geta líka bilað. Ég hef mjög sterkar taugar til Þórshafnar. Ég var fóstraður þar sumarlangt ungur maður. En ég hef aldrei getað séð að það væri annað en bjarnargreiði víð þetta pláss að ætla að leysa atvinnuástand þar með þeim hætti að reka þaðan rándýran togara, sem ekki er hægt að annast viðhald á í heimahöfn né heldur í raun og sannleika að manna með eðlilegum hætti. Það er því ekki vegna þess að ég hafi ekki viljað hjálpa til við að styrkja atvinnulífið á Þórshöfn sem ég hef ekki séð vit í togarakaupum af þessu lagi. Það er þvert á móti einmitt vegna þess að ég hef litið svo til að hér væri verið að gera þessu plássi bjarnargreiða og það yrði að leita annarra leiða sem betur hentuðu til að treysta atvinnulífið þar.