18.02.1981
Efri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

Umræður utan dagskrár

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Í þessari deild fara nú fram allfróðlegar umræður. Hér er margt sagt en ég held að margt af því sé lítið hugsað.

Vegna ummæla hv. þm. Eiðs Guðnasonar áðan vil ég lýsa undrun minni á því orðalagi sem hann notaði hér í þessum ræðustól. Ég sé ekki hvaða ósköp hafi skeð í þessu máli. Hins vegar mæli ég ekki gegn því, að hið sanna og rétta komi í ljós. Það er eðlilegt að menn geri kröfu til þess. Og það er líka málinu fyrir bestu.

Hv. þm. taldi — og það hefur heyrst margsinnis áður í umræðum um þetta mál — að það hefðu verið þessir vondu menn, sem skipa stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem hefðu ráðið því, að það var þetta ákveðna skip sem var keypt. Hér er búið að lesa bréfið sem þm. kjördæmisins skrifuðu forsrh. En vegna þess hvernig menn tala um þessi mál — og ég verð nú að segja: fara frjálslega með sannleikann — þá finnst mér ástæða til að lesa kafla úr því enn og aftur.

„Ef ekki reynist mögulegt að greiða fyrir því,“ segir í þessu bréfi þingmannanna, „að Guðbjörg verði seld til Þórshafnar, þá leggjum við á það ríka áherslu, að leyfi verði veitt fyrir kaupum á skuttogara erlendis frá og gerðar verði viðhlítandi ráðstafanir af hendi ríkisstj. að gera það mögulegt.“

Svo segir síðar í þessu bréfi:

„Þó við séum þeirrar skoðunar, að nægur fjöldi sé orðinn af skuttogurum í landinu, ef dreifing þeirra væri með öðrum hætti, þá hafa mál þróast á Þórshöfn síðustu árin þannig, að við teljum að ekki verði undan því vikist að gera nú þegar ráðstafanir til að fá keyptan skuttogara fyrir byggðarlagið.“

Eins og hér hefur komið fram áður rita allir þm. kjördæmisins undir þetta bréf nema Halldór Blöndal. Ég býst við að hann hafi verið fjarverandi. (StJ: Hann er landskjörinn.) Hann er landskjörinn, segir hv. þm. Stefán Jónsson. Ég held að það hafi nú ekki verið ástæðan fyrir því, að hann skrifaði ekki undir. En nóg um það, þeir skrifuðu undir, allir þm. kjördæmisins að Halldóri Blöndal undanteknum.

En hv. þm. Eiður Guðnason sagði fleira. Hann sagði að rekstrargrundvöllur fyrir þessu skipi væri enginn, alls enginn. Um þetta má vissulega deila. En er rekstrargrundvöllur fyrir því skipi sem verið er að smíða og á að fara á einn lítinn stað í hans kjördæmi? Hvað ætli það skip kosti?

Þá erum við komnir að því atriði sem hv. þm. Lárus Jónsson, held ég, vék að áðan og er vitaskuld kjarni málsins: Er grundvöllur almennt fyrir rekstri þessara skipa? Það er kjarni málsins, en ekki að vera að draga þennan togara einan sér út.

Menn leita líka svara við því, vegna hvers hafi verið út í það farið að kaupa togara til Þórshafnar. Ég gæti ímyndað mér að það hafi verið gert m.a. vegna þess, að á Þórshöfn er gott frystihús, vel rekið hús. Það er annað frystihús á Raufarhöfn. Og þessi frystihús skortir hráefni. Vinnslugeta þessara frystihúsa mun vera svona um 10 000 tonn á ári. Og það má taka með, þegar menn eru að gæla við þessa útreikninga, hvort þetta eða hitt borgi sig, að það er hagkvæmt fyrir frystihúsin að fá aukið hráefni til vinnslu. Það að fá þennan togara á eftir að bæta verulega rekstrarafkomu þessara fyrirtækja.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði hér áðan að það hefði margt breyst frá því að hann var fóstraður á Þórshöfn eitt sumar. Jú, það er satt. Þingmaðurinn hefur breyst og plássið hefur einnig breyst. Það, sem kannske skiptir hvað mestu fyrir byggðarlagið, er að með þeim friðunaraðgerðum sem gripið hefur verið til fyrir Norðausturlandi, er ekki ofsagt að lífsbjörgin hafi verið tekin frá því fólki sem þarna vill búa. Og það er m.a. þess vegna sem heimamenn telja nauðsynlegt að fá stærra og betur búið skip heldur en voru á Þórshöfn þegar hv. þm. Kjartan Jóhannsson var þar.

Hann minntist einnig á það í sinni ræðu, og ég hef heyrt það æ ofan í æ, að menn veifi alls konar pappírum, það komi sölumenn og veifi samningum og segi: Við getum boðið skip fyrir þetta og hitt verðið. — Ég held að menn láti ekki fara svona með sig og geti ekki talað svona í fullri alvöru, þeir sem vilja skoða þessi mál raunverulega ofan í kjölinn. Það er ólíkt hvort verið er að bjóða 5 eða 6 ára gamalt skip eða árs gamalt skip, eins og hér um ræðir. Og menn verða líka að huga að búnaði þessara skipa og gera samanburð á honum ef þeir eru að bera saman verð á annað borð.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson fann einnig að því, að það væri tekið af þeim peningum sem ætlaðir hafi verið til þess að efla íslenskan skipaiðnað. Ég vil bara taka undir og undirstrika það sem menn hafa hér sagt, að þær breytingar, sem gerðar verða á þessu skipi, er ákveðið að framkvæma hjá Slippstöðinni á Akureyri. Ég vil líka benda á að þetta mun vera fyrsti togarinn sem kemur til með að kaupa fiskkassa frá nýrri verksmiðju á Akureyri sem framleiðir fiskkassa fyrir íslensk fiskiskip? Ég held því að það komi nokkuð af þessu fjármagni hingað heim. En vitaskuld má velta þessu máli lengi fyrir sér. Og ég skil vel umhyggju manna fyrir íslenskum skipaiðnaði. En hvað skyldu mörg skip hafa verið keypt, byggð eða breytt erlendis þegar hv. þm., sem hér talaði um þessi mál, var sjútvrh.? Hvað ætli það hafi verið mörg skip sem voru keypt, byggð eða breytt erlendis í hans stjórnartíð?

Hv. þm. Lárus Jónsson vék áðan í sinni ræðu aðeins að því, hvaða skip hefði orðið fyrir valinu. Menn geta velt því lengi fyrir sér og ekki óeðlilegt að athuga það. En er þetta ekki sá háttur sem verið hefur ef menn hafa viljað kaupa skip? Hafá menn ekki fengið leyfi til þess? Þeir hafa farið og ýmist látið teikna fyrir sig skip eða valið skip og komið og lagt þau gögn fram. Ég held að í þessu máli hafi ekkert skeð annað en það sem hefur viðgengist undanfarin ár. Ég veit satt að segja ekki hverjir ættu að koma til og skera úr. Í þessu tilviki veit ég ekki betur en að kunnugur og góður skipstjóri hafi farið og skoðað þetta skip og gengið úr skugga um að hér væri verið að kaupa gott fley. Ég hef spurt þennan mann út í það, og hann hefur sagt svo vera. Ég tel hann miklu dómbærari um það, hvort valið hefur verið heppilegt skip, heldur en ýmsa sem hér hafa talað í dag og undanfarið um þessi mál. Ég ber miklu meira traust til hans í þeim efnum heldur en flestra þeirra.

Menn hafa viljað varpa ábyrgðinni á Framkvæmdastofnun ríkisins, að hún hefði átt að hafa hér fingur á og stýra málinu eitthvað frekar. Byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur boðið fram aðstoð sína til að vinna að hagræðingu og aukinni samvinnu þessara aðila heima fyrir. Ég held að það sé æskilegt. Ég vona að góð samvinna takist á milli þessara staða um rekstur þessa skips ásamt Rauðanúp. Fyrirgreiðsla Framkvæmdastofnunar er bundin því skilyrði, að þessi skip verði rekin hlið við hlið.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð nú. Það væri margt hægt að segja um þessi mál, en ég veit ekki hvort það er nokkuð til að bæta. Mér skilst að málið sé ekki úr sögunni hér í þingsölum, það muni halda áfram að verða hér á dagskrá. Ég tek undir það með hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni, að ég fagna því að málið skuli vera komið á lygnari sjó, það sé farið að hilla undir að skipið komi og verði hægt að fara að gera það út til þess að bæta úr því slæma ástandi sem ríkir í atvinnumálum þarna norðaustur frá.

Það er einkennilegt hvað gert er mikið veður út af þessu máli einu sér. Það er eins og þetta sé eini togarinn sem sé að koma til landsins. Ýmislegt hefur verið gert í byggðamátum til þess að reyna að halda atvinnulífi gangandi á hinum ýmsu stöðum. Framkvæmdastofnun ríkisins hefur komið þar víða við. Ég stóð að því í vetur að rétta upp höndina með vissum aðgerðum í kjördæmi hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. (KJ: Var það í utanríkismálum?) Nei, það var í útgerðarmálum. En það hefur minna verið rætt um það í fjölmiðlum eða í sölum Alþingis. (KSG: Bjarga fyrirtæki Framkvæmdastofnunar?) Bjarga fyrirtæki Framkvæmdastofnunar, segir einn af þm. kjördæmisins og stjórnarmaður í Framkvæmdastofnun ríkisins. Það er vissulega að hluta til rétt. Það var m.a. verið að bæta rekstur Norðurstjörnunnar. En þarna var stofnað hlutafélag um rekstur Framtíðarinnar KE. (Gripið fram í: Sem stendur undir nafni.) En það hefur minna verið talað um þetta. (Gripið fram í: Algjört leyndarmál.) Þar var staðið þannig að málum, að Norðurstjarnan, sem er í eigu Framkvæmdasjóðs að meiri hluta, stofnaði hlutafélag ásamt öðrum aðilum og yfirtók rekstur togarans, m.a. til þess að tryggja atvinnuástand á Suðurnesjum. Þetta er góðra gjalda vert, og ég vona að vel fari. (Gripið fram í: Ódýr lausn.) Ég skal ekki dæma um það. Ég vona að þetta hafi verið skynsamleg lausn. Það er athyglisvert, að ákveðnir aðilar bregðast ætíð ókvæða við þegar ákveðin landssvæði þurfa að fá fyrirgreiðslu þegar þau eru að rétta úr kútnum. Það gremst mér verulega. Ég held að menn ættu að láta af öllum stráksskap í þessu máli og reyna að þjappa sér saman í von um að tekist hafi að finna farsæla lausn til að létta undir með íbúum þessa landshluta.