18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að ræða togarakaupamál Útgerðarfélags Norður-Þingeyinga og þá einkum til að gera grein fyrir afstöðu minni til málsins, en af því hef ég haft nokkur skipti vegna þátttöku minnar í stjórnarstörfum Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þar á ég sæti sem varamaður og það hefur hist svo á, að málið hefur verið rætt á fundum sem ég hef setið sem slíkur, þ. á m. á tveimur fundum í gær svo og á fundi í síðustu viku þar sem þessi mál voru sérstaklega til umræðu og afgreiðslu. Vegna fréttaflutnings af úrslitum málsins í gær, viðtals við stjórnarformann Framkvæmdastofnunar ríkisins í sjónvarpi í gærkvöld, greinargerðar okkar hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar við afgreiðslu málsins, yfirlýsingar hæstv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar í viðtali við Morgunblaðið í morgun, svo og vegna viðtals við sjútvrh. í dagblaðinu Vísi í dag þykir mér nauðsynlegt að taka málið upp hér í hv. þd. þar sem hér virðist ýmislegt stangast á.

Það má segja að þetta mál ætli að reynast ýmsum notadrjúgt umræðuefni. Satt að segja átti ég ekki von á að ég þyrfti að taka málið upp hér á hv. Alþingi en hjá því kemst ég ekki.

Það er ekki ástæða til að rekja aðdraganda þessa máls ítarlega, enda mun það hafa verið gert hér áður. Ég minni aðeins á þá samþykkt ríkisstj. frá 1. ágúst 1980 þar sem heimiluð eru kaup á notuðum togara erlendis frá. En eins og öllum er kunnugt voru slík kaup ekki heimiluð nema með sérstökum skilyrðum. Frá því var vikið með þessari samþykkt ríkisstj. 1. ágúst og það er hið raunverulega upphaf þessa máls.

Ég get þó minnt á bókun, sem gerð var á stjórnarfundi Framkvæmdastofnunar ríkisins 4. sept. 1980, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með vísun til niðurstaðna af athugun Framkvæmdastofnunar ríkisins á atvinnuástandi á Þórshöfn hefur ríkisstj. samþykkt að keyptur verði togari erlendis frá og hann rekinn af útgerðaraðilum á Þórshöfn og Raufarhöfn og er það gert með tilliti til byggðavanda svæðisins. Með vísun til þess verði Framkvæmdastofnun ríkisins falið að sjá um útvegun fjármagns og gera ráð fyrir því á lánsumsókn sinni á lánsfjáráætlun árið 1981.“

Þessi var bókunin, en auk þess er hér greint frá að forstjórinn hafi skýrt frá því, að framangreint mál væri á þessum fundi aðeins til kynningar og mundi koma til umfjöllunar síðar, skilningur hans á samþykkt ríkisstj. væri að það væru eindregin tilmæli hennar að Byggðasjóður gerði undantekningu í þessu máli frá reglum sjóðsins um að neita öllum lánveitingum til togarakaupa erlendis. — Þetta var úr bókun frá 4. sept.

Ég minni einnig á bókun frá 14. okt. þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með vísun til samþykktar ríkisstj. frá 1. ágúst s.l. um leyfi til handa útgerðaraðilum á Raufarhöfn og Þórshöfn að kaupa notað skuttogskip erlendis frá lítur stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins svo á, að Byggðasjóði sé gert að greiða 20% kaupverðsins og verði þess fjár aflað með sérstökum hætti. Á hinn bóginn beinir stjórn stofnunarinnar þeim tilmælum til ríkisstj., að hún veiti sjálfskuldarábyrgð á 80% láni erlendis vegna skipakaupanna samkv. lögum um heimild fyrir ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum frá 3. maí 1972.“

Þannig er þessi bókun. Auk þess er í þessari fundargerð bókað, að forstjóri hafi rakið málið frá byrjun og lagt áherslu á að bókunin yrði samþykkt á þessum fundi. Svo var gert með 6 atkv., en einn stjórnarmanna, Karl Steinar Guðnason, greiddi atkv. gegn bókuninni. Um þetta urðu miklar umræður þar sem allir stjórnarmenn tóku til máls. Matthías Bjarnason las upp afrit af samþykkt ríkisstj. og kvaðst ekki kannast við, að stofnunin hefði átt frumkvæði í þessu máli, og óskaði eftir að fram kæmi í fundargerð að hann hefði aldrei tekið þátt í því að leggja til við ríkisstj. að leyfa kaup á togara erlendis frá og valda þannig því, að aðrir togarar yrðu bundnir eða þyrftu að stunda óarðbærar veiðar í fleiri daga. — Þessi var bókunin frá 14. okt.

Ég rek þetta til að sýna frumkvæði ríkisstj. að því að veita undanþáguna og að ríkisstj. leggur beinlínis fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins að annast fyrirgreiðslu þessa máls.

Aðdragandann þarf ég ekki að rekja frekar, en nefni hér bókun frá fundinum 12. febr., í síðustu viku. Þar er bókað að samþykkt hafi verið að fela forstjóra að ræða við kaupendur og stjórnvöld og ítreka fyrri samþykkt stjórnarinnar um að Byggðasjóður sjái sér ekki fært að lána til þessara kaupa meira en 20% af erlendu kaupverði, þ.e. 21 millj. norskra kr.

Fundur stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar var svo haldinn í gær í tveimur hlutum, fyrst frá ellefu til hálfeitt og síðan milli hálfþrjú og hálffjögur. Var upplýst á þeim fundi að málið væri strandað ef stjórnin héldi við fyrri samþykkt sína, þ.e. 20% lán af 21 millj. kr. kaupverði, sem vitað var þá að var komið langt upp fyrir þá upphæð. Á þessum fundi kom strax fram hjá formanni stjórnarinnar að best væri að hætta við þetta allt saman og afturkalla jafnframt fyrri samþykktina um 20% lánið úr Byggðasjóði, 20% af 21 millj. norskum.

Meðan á fundinum stóð var forstjórinn kallaður í símann. Það var hæstv. sjútvrh. sem þurfti að eiga við hann viðtal. Forstjórinn kom síðan inn á fundinn og flutti þau tilmæli frá sjútvrh., að það væri álit ráðh. og, að því er ætla mátti af skilaboðum, að það væri álit ríkisstj., að það væri að fara úr öskunni í eldinn að stöðva málið nú, það væri tímabært að menn hættu að kasta þessu máli á milli sín. Jafnframt var lýst hugmynd að lausn á málinu og hún var að miða skyldi við að kaupverð yrði 28 millj., en breytingin var sú, að Byggðasjóður skyldi lána 10% af þessari upphæð beint, en 10% af sérstöku fé sem ríkisstj. hefur ákveðið að fá Byggðasjóði til ráðstöfunar.

Ég geri ráð fyrir að öllum hv. þm. sé kunnugt um hvaða sérstaka fé er að ræða. Það fékkst í Byggðasjóð fyrir dugnað og harðfylgi stjórnarformanns við afgreiðslu á tilteknu máli rétt fyrir jólin og ég þarf ekki að rifja það upp. Það voru 1500 millj. gkr. Stjórnarformaðurinn þurfti að vísu að greiða fyrir þetta nokkuð háu verði og vissi ekki þá, og ég veit ekki hvort hann veit það nú, hvort hann gæti fyrirgefið sér að hafa gert það. En það er hans mál.

Frammi fyrir þessu stóð þá stjórnin, hvort halda ætti við óbreytta samþykkt og málið væri þar með strandað, samkv. þeim upplýsingum sem fyrir lágu á fundinum. Það þýddi að yfirvofandi væru skaðabótakröfur á hendur Byggðasjóði sem numið gætu nokkrum hundruðum millj. kr. Það þýddi að atvinnumál Þórshafnar væru óleyst áfram. Og það þýddi að hlutafé Útgerðarfélagsins var tapað. Hins vegar stóð þá stjórnin frammi fyrir því að samþykkja fram komna hugmynd ríkisstj. eða ráðh., eins eða fleiri. Um það veit ég ekki, hvort er, en það upplýsist væntanlega á þessum fundi. — Ef gengið yrði að þessari hugmynd var þar með tryggt að engar skaðabótakröfur kæmu upp, áhætta Byggðasjóðs væri minnkuð, þ.e. yrði 10% af 28 millj. í stað 20% af 21 millj. norskra kr. Þetta þýddi lækkun á áhættu úr 4.2 millj. norskra kr. í 2.8 vegna þess að ríkissjóður ábyrgist 90% kaupverðsins í stað 80% áður.

Ég leit svo á, að það væri skylda stjórnarmanna að gæta hagsmuna Byggðasjóðs eins og þeir best gætu og það gætu þeir betur gert með þessu móti en halda við fyrri samþykkt. Auk þessa var málið með þessu leyst eins og óskað var eftir, bæði af heimamönnum og þm. kjördæmisins, og síðast en ekki síst mundi stjórn Framkvæmdasjóðs standa við gefin fyrirheit — nokkurra mánaða gömul fyrirheit — og það þykir mér ekki veigaminnst í þessu máli, en það virðist ekki þvælast fyrir sumum a.m.k. að rjúfa þannig gefin fyrirheit eða jafnvel loforð. Ég taldi þessa leið skynsamlegri en hina fyrri og studdi því tillögu þessa efnis. Við hv. þm. Matthías Bjarnason gerðum svofellda grein fyrir atkv. okkar, með leyfi hæstv. forseta:

„Með réttu eða röngu ákvað stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins á sínum tíma að verða við þeim tilmælum ríkisstj. að lána fé úr Byggðasjóði vegna kaupa á togara til Þórshafnar til þess að bæta úr bágbornu atvinnuástandi þar. Það var skilningur stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins að 20% yrðu lánuð af kaupverði skipsins, 21 millj. norskra kr., enda sæi ríkisstj. um útvegun fjármagnsins.

Nú er upplýst að verð skipsins mun nema 28 millj. norskra króna, og forstjóri flytur þau tilmæli ríkisstj. inn á fundinn, að Byggðasjóður miði lán sitt við þá upphæð: 10% láni Byggðasjóður beint, en 10% komi af hinu sérstaka framlagi sem ríkisstj. hefur ákveðið að fá Byggðasjóði til ráðstöfunar, 1500 millj. gkr. Með þessu móti hækkar ábyrgð ríkissjóðs úr 80% í 90%.

Með hliðsjón af því, að áhætta Byggðasjóðs er minni með þessum hætti en væri ef haldið yrði við fyrri samþykkt, getum við fallist á þessa tillögu, sem er í samræmi við tilmæli ríkisstj.

Jafnframt lýsum við þeirri skoðun okkar, að ekki komi til greina að láta sem engin skylda hvíli á stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins í þessu máli, eins og virðist koma fram í bókun formanns.“

Þetta var grg. okkar Matthíasar Bjarnasonar. Hún skýrir afstöðu okkar.

Ég þyrfti í sjálfu sér ekki miklu við að bæta þennan þátt ef ekki kæmi til fleira, sem ég nefndi hér í upphafi, m.a. viðtalið við hæstv. iðnrh., sem birtist í Morgunblaðinu í morgun, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„„Það er rangt, að ríkisstj. hafi samþykkt einhver tilmæli til stjórnar Framkvæmdastofnunar varðandi lán í sambandi við kaup á togara til Raufarhafnar og Þórshafnar. Þvert á móti varð það niðurstaðan eftir allnokkrar umræður um málið, að ríkisstj. hvorki ályktaði um það né beindi einum eða neinum tilmælum til einhvers,“ sagði Hjörleifur Guttormsson iðnrh. í samtali við Morgunblaðið í gær.“

Jafnframt segir hæstv. iðnrh. síðar í viðtalinu, að tal um tilmæli frá ríkisstj. væri „síðasta undrið í þessu furðulega máli.“ „Þetta er alveg yfirgengilegt,“ sagði Hjörleifur, „og jafnfjarstæðukennt er það að mínu mati að ætla að sækja fé til þessara kaupa í fjárveitingu sem ríkisstj. hugsar sem stuðning við innlenda skipasmíði. Hér er greinilega tvísýnt mál á ferðinni.“

Við þetta hefur svo bæst viðtal við hæstv. sjútvrh. í dagblaðinu Vísi í dag, sem ég var rétt í þessu að rekast á, og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er alrangt að ég hafi flutt nokkur tilmæli. Ég tilkynnti Sverri að það væri ekki von á neinni samþykkt til viðbótar frá ríkisstj. Málið væri í þeirra höndum og við teldum eðlilegast að þeir leystu það eins og þeir sæju réttast.“

Svo mörg voru þau orð. — Hann bætir við síðar: „Ég verð að segja að ég fagna því að þeir afgreiddu málið og firrtu sjálfa sig því að þurfa að punga út með 100% ábyrgð, sem þeir voru búnir að opna.“

Ráðh. lætur þarna liggja að því, að það hafi verið skynsamlegast fyrir stjórn Framkvæmdastofnunarinnar að bjarga sér út úr málinu sem hún hafi sjálf komið sér í. Ég er búinn að rekja hér áður aðdraganda þessa máls, allt frumkvæði ríkisstj. og hvernig hún hefur ráðið ferðinni frá upphafi málsins, og held að sé best að hún ráði ferðinni líka til loka.

Af þessu tilefni verð ég að spyrja hvað raunverulega hafi gerst á fundi ríkisstj. í gær. Mér er alveg ljóst, og það kom skýrt fram á fundi stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar í gær, að það var engin samþykkt gerð í ríkisstj. En að því var látið liggja, að það væru tilmæli ríkisstj. sem samþykkt voru. Mig langar þess vegna til að vita hvað raunverulega gerðist. Voru ráðherrarnir á móti þessari lausn, sem þarna var valin, eða voru þeir með henni? Það skiptir máli. Fór Sverrir Hermannsson með einhver önnur skilaboð inn á fundinn en hæstv. sjútvrh., Steingrímur Hermannsson, fól honum? — Mér er alveg sama hvaða ráðh. svarar þessu, en ég teldi heppilegast að það gerði hæstv. sjútvrh.

Og svo er enn eitt. Það var viðtal við formann stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar í gærkvöld. Þar leggur hann áherslu á að stöðva beri málið. Það gerði hann líka á fundinum í gær þannig að hann er samkvæmur sjálfum sér allan þann dag. Hann vonar sem sagt enn að málið verði stöðvað og ríkisstj. geti gert það. Ég vil taka það skýrt fram, að ég er hv. þm. Eggert Haukdal alveg sammála um að ríkisstj. getur gert þetta. Hún getur stöðvað málið vegna þess að hún hefur ráðið ferðinni í málinu frá upphafi, eins og ég sagði. En ég spyr: Ætlar ríkisstj. að gera það? Ætlar ríkisstj. að stöðva málið? Það væri forvitnilegt fyrir okkur, sem stóðum að þessari samþykkt, að fá að vita það og það helst strax. Ég endurtek að ríkisstj. hefur allt þetta mál í hendi sér, en ég vil hins vegar láta hæstv. ríkisstj. vita að hún notar ekki neinn meiri hluta í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins til óþrifaverka fyrir sig.

Um leið og ég segi þetta vil ég gera aths. við þann fréttaflutning sem viðhafður var í gær í ríkisfjölmiðlum, þ.e. að Framkvæmdastofnun ríkisins hefði á fundi sínum í gær heimilað þessi margnefndu togarakaup. Það var upphaflega ríkisstj. sem heimilaði kaupin og hún má því hafa lokaorðið líka.

Það er auðvelt fyrir ýmsa að slá sig til riddara nú með því að vera á móti því að kaup þessi nái fram að ganga. E.t.v. er freistingin mest fyrir stjórnarandstæðinga. Þeir bera ekki ábyrgð á upphafi þessa máls eða framgangi þess. En við Matthías Bjarnason tókum þá sjálfsögðu afstöðu að standa við það sem áður var ákveðið í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, og verð ég þó að bæta því við, að ég átti engan þátt í þeirri samþykkt, ég sat ekki þann fund, og svo þegar betri kostur bauðst fyrir þann sjóð, sem okkur er að nokkru trúað fyrir, tókum við þann kostinn. Þeir, sem átt hafa fulla aðild að ákvörðun í þessu máli frá upphafi og haft hafa þar meira að segja nokkra forustu, hlaupa ekki frá þessum vanda nú nema þá með skömm. Ég get svo sem látið mér í léttu rúmi liggja hvort þeir gera svo, en það hvítþvær sig enginn með slíkum athöfnum.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa orð mín fleiri. Ég þakka fyrir að fá að koma þessu að hér utan dagskrár í hv. þd. Mér þótti það nauðsynlegt til að skýra mína afstöðu. Jafnframt vona ég að afstaða annarra, sem óskýrð kann að vera, komi hér fram á eftir.

Að lokum vil ég segja það, að ef samþykkt stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins í gær er byggð á röngum forsendum eða röngum upplýsingum mun ég gera kröfu til þess, að málið verði tekið upp að nýju.