18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannson:

Herra forseti. Ég ætla ekki á þessari stundu að rifja upp allan aðdraganda eða sögu þessa máls, það hefur verið gert og hv. þm. er flest ljóst í því sambandi, þótt ýmislegt hafi verið missagt í þessum fræðum. En ég sé ástæðu til að rifja upp gang málsins frá því að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins fjallaði um það á fimmtudaginn í síðustu viku.

Niðurstaða þess fundar varð sú, að stjórn Framkvæmdastofnunar ákvað að halda fast við lánveitingu til togarakaupanna sem næmi 20% af 21 millj. norskra kr., eins og upphaflegur kaupsamningur hljóðaði upp á. Mér var falið að greina norðanmönnum, kaupendunum, frá þessari niðurstöðu og enn fremur að sjá um að stjórnvöldum yrði gert viðvart um þessa niðurstöðu. Á föstudagsmorgun gerði ég fulltrúum Útgerðarfélags Norður-Þingeyinga hf. grein fyrir málinu og boðaði enn fremur til fundar þm. kjördæmisins til að þeir fengju að fylgjast með þessari niðurstöðu, sem ég skildi ekki þá á annan veg en þann, að stjórn Framkvæmdastofnunar vildi stöðva þetta mál af því að fjárhagslegt bil myndaðist sem þeir norðanmenn voru ekki í neinum færum um að brúa.

S.l. mánudag um þrjúleytið átti ég fund með hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. um þetta mál hér niðri í Alþingishúsi. Hæstv. sjútvrh. gat þess, að það væri hið mesta ólán að þetta mál héldi áfram að hrekjast á milli aðila og menn að kenna hver öðrum um. Hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. inntu enn eftir því, hvaða fjármunir væru að veði og mundu tapast, renna í glatkistuna ef ekki yrði úr kaupunum og samningum rift. Ég svaraði því sem ég hafði áður gert, að við gætum ekki kveðið upp neinn úrskurð um það, en við þættumst nokkurn veginn fullvissir um að hlutafé félagsins fyrir norðan — 100 millj. kr.— mundi tapast. Vafi léki á hvort ábyrgð, sem sett var og gefin út af Framkvæmdastofnuninni í okt. s.l., mundi verða kræf af hálfu seljenda, hinna norsku aðila, en ef svo yrði gæti fjárhagstjón af þessum sökum numið yfir 300 millj. gkr.

Hæstv. fjmrh. taldi lítt bærilegt við það að una að þessi mistök, eins og hann orðaði það, leiddu til svo mikils fjárhagslegs taps sem hér væri um að tefla. Hann varpaði fram þeirri hugmynd þá, hvort sú leið væri fær að lánveitingum Byggðasjóðs yrði skipt í tvennt, þannig að Byggðasjóðsfé yrði reitt fram 10%, en önnur 10% þ.e. upp í 20%, yrðu tekin af þeim sjóði 1500 millj. gkr., sem ríkisstj. hefur ákveðið að leggja til á lánsfjáráætlun að Byggðasjóði verði fenginn til ráðstöfunar, með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs. Þar með sleit þessum fundi með okkur þremenningunum.

Í gærmorgun kl. ellefu hófst fundur í Framkvæmdastofnuninni. Hann var einnig tímasettur með það í huga að vitað var að ríkisstjórnarfundur yrði haldinn hálfellefu þar sem fjallað yrði um þetta mál. Ég gaf þá stjórninni skýrslu um stöðu málsins og enn fremur gat ég hugmyndar fjmrh. og lýsti fyrir stjórninni að talið væri að endar næðust ekki saman nema miðað yrði við 28 millj. norskra kr. kaupverð og endurbótaverð og þá búið að skera aðeins frá um endurbætur sem nam undirbúningi undir niðursetningu fiskvinnsluvéla. Þegar ég hafði gefið þessa skýrslu og umræður voru hafnar í stjórninni komu símaboð til mín og var ég kallaður á tal við hæstv. sjútvrh. Hann tjáði mér að togaramálið hefði verið til umræðu á ríkisstjórnarfundi er stæði yfir. Hann kvað ríkisstj. ekki hafa gert nýja samþykkt í málinu, hins vegar væri viðhorf manna að það væri að fara úr öskunni í eldinn að hætta við togarakaupin nú. Lagði ráðh. á það áherslu að reynt yrði að lækka endurbótakostnað sem unnt væri. Ráðh. sagði það skoðun ríkisstj., að lánveiting Byggðasjóðs yrði með þeim hætti sem hefði verið hugmynd hæstv. fjmrh. deginum áður, að helmingur lánafyrirgreiðslunnar, 10%, yrði tekinn af hinum margumræddu 1500 millj. gkr. með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs. Hæstv. sjútvrh. ítrekaði í lok samtalsins að hér væri ekki um neina nýja samþykkt af hálfu ríkisstj. að ræða. Þetta flutti ég stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins nákvæmlega eins og það hér er flutt nú og útlistaði þetta ekkert á einn né annan veg, hvorki sem ósk, tilmæli né fyrirskipun. Þetta var flutt eins og ég nú hef rakið eftir minni bestu vitund um öll málsatvik.