18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það fara fram hér einstakar umr. Það mál, sem rætt er um, er líka einstætt í sinni röð. Það er verið að kaupa til landsins dýran togara. Eftir þeim umr., sem hér hafa farið fram, virðist enginn vita hver hafi ákveðið að þessi togari skyldi keyptur. Eftir þessum umr., sem hér hafa farið fram virðist vera mikill misskilningur á milli manna. Og eftir þessum umr., sem hér hafa farið fram, virðast menn ekki vita með hvaða hætti þetta mál hefur gengið fram, hvorki upphaf þess né endi, því að áðan sagði einn ráðh. að hann vonaðist til að þessu máli færi að ljúka, annar ráðh. vildi líta svo á að þessu máli væri lokið. En það er engu að síður furðulegast við þetta, að þegar hér eru umræður utan dagskrár um þetta mál koma yfirlýsingar frá ráðherrum, stjórnarmönnum Framkvæmdastofnunar og forstjóra og það er ekki nokkur leið að átta sig á því, hvernig samskipti eiga sér stað á milli þessara stjórnvalda, þ.e. ríkisstj. og Framkvæmdastofnunar.

Sá, sem vakti þetta mál hér, gerði grein fyrir atkvgr. sem fram fór í stjórn Framkvæmdastofnunar í gær, og hann las upp forsendur fyrir atkv. sínu. Forsendur þess, hvernig hann greiðir atkv., eru m.a. að honum eru flutt inn á fund Framkvæmdastofnunarstjórnar tilmæli ríkisstj. og þau eru flutt af hæstv. sjútvrh. Við lesum svo í Vísi í dag, og það endurtók hæstv. sjútvrh. áðan, að hann hafi ekki flutt stjórn Framkvæmdastofnunar nein skilaboð frá ríkisstj. Í Dagblaðinu má lesa yfirlýsingu hæstv. iðnrh. um að ekkert hafi verið samþykkt í þessu máli á ríkisstjórnarfundinum í gær. Svo kom hæstv. fjmrh. áðan og sagði að vera mætti að það hefði verið einhver misskilningur í ríkisstj. um fjármögnun þessara framkvæmda. — Það má vel vera að einhver misskilningur hafi verið í stjórn Framkvæmdastofnunar, en ég veit ekkert um það. — Upprunalega var ætlað að 20% af 21 millj. norskra kr. mundi Byggðasjóður útvega, en í gær er fjármögnunarleiðinni breytt af stjórn Framkvæmdastofnunar og hæstv. fjmrh. kemur hér og segir: Ég hef ekkert við það að athuga. Ég hafði alltaf álitið persónulega að svona gæti þetta verið. — En við lesum sama dag að hæstv. iðnrh. er alls ekki á sama máli.

Ég held að það, sem hér hefur verið sagt í dag, sé í hnotskurn það sem ég nú var að reyna að lýsa.

Það kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykn., að ef þær upplýsingar sem honum höfðu borist inn á stjórnarfund Framkvæmdastofnunar í gær, væru rangar mundi hann óska eftir að haldinn yrði nýr fundur til að fjalla um málið. Það er ljóst af því, sem hér hefur farið fram, að það hefur eitthvað skolast til, það hefur eitthvað farið á milli mála. Það hefur verið svo í þessu máli frá upphafi og sýnist ekki ætla að verða nokkur endir á því.

Hér eru átján alþm. að fjalla um mál, ríkisstjórn Íslands, stjórn Framkvæmdastofnunar og forstjóri hennar. Það eru fjörutíu og tveir alþm. aðrir til — og reyndar öll þjóðin — sem gera kröfu til að fá upplýsingar í þessu máli og þær hinar réttu. (Gripið fram í: Gleymdu ekki 2. þm. Norðurl. e.) Hann er í hópi hinna fjörutíu og tveggja. Hann situr ekki í stjórn Framkvæmdastofnunar né ríkisstj. Hvort sem mönnum finnst áhrifa hans gæta of mikið eða ekki er hann ekki í stjórnunum tveimur, sem ég nefndi, og hlýtur að vilja fá réttar upplýsingar eins og við hinir og reyndar þjóðin öll. Þess vegna hafa tíu alþm. flutt hér á þskj. 434 beiðni um skýrslu frá forsrh. um kaup á togara fyrir Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga á Þórshöfn, en þar segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til 31. gr. laga um þingsköp Alþingis óskum við undirritaðir alþm. eftir því, að forsrh. flytji Alþingi skýrslu vegna kaupa á togara fyrir Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga á Þórshöfn.

Alþingi, 18. febr. 1981.“ Undir þetta rita þeir tíu þm. sem biðja um skýrsluna. Grg. með þessu er svohljóðandi, og er þetta stílað til forseta Sþ., en til hans skal beina slíkri beiðni samkv. þingsköpum:

„Það er ljóst öllum þeim, sem fylgst hafa með kaupum á togara fyrir Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga, að skiptar skoðanir eru á forsendum, upphafi og meðferð þess máls. Fram hefur komið að ráðherrar segja sitt hvað um samþykktir ríkisstj. og ekki er með öllu sami skilningur á samskiptum ríkisstj. og stjórnar Framkvæmdastofnunar.

Því er þess óskað, að forsrh. gefi Alþingi skýrslu um mál þetta hið fyrsta, þar sem birtar verði samþykktir ríkisstj., stjórnar Framkvæmdastofnunar, bréf sem rituð hafa verið af þessum aðilum, svo og gerð grein fyrir munnlegum skilaboðum, sem farið hafa á milli þessara aðila.“

Ég undirstrika það sem hér er verið að gera. Það er verið að útdeila fjármagni. Það fjármagn er komið frá skattborgurunum. Þeir eiga skýlausan rétt á að vita með hvaða hætti slík mál eru afgreidd og hverjir bera ábyrgð á þeirri afgreiðslu.