18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég tel hv. Alþingi réttan vettvang til að ræða þetta mjög umtalaða mál, þó að best hefði mér fundist að ræða það í Sþ. þar sem allir þm. hefðu getað samtímis tekið þátt í umræðum.

Ég hygg að sé full ástæða til þess, þó að nokkurn tíma taki, að skýra þetta undarlega mál frá byrjun til enda. Hæstv. sjútvrh. las upp úr bréfi forstjóra stofnunarinnar og vitnaði í fundargerð frá 4. júlí. Í lok bókunarinnar frá 4. júlí segir, en það kom ekki fram hjá hæstv. sjútvrh.:

„Í umræðum, sem fram fóru um þetta mál áður en álitsgerðin var samþykkt, kom fram hjá forstjóra stofnunarinnar að með þessari samþykkt væri ekki verið að samþykkja neina fjármögnun á þessari lausn fyrir kauptúnið.“

M.ö.o.: Framkvæmdastofnunin eða réttara sagt byggðadeildin gerir að beiðni forsrh. úttekt á atvinnumálum Þórshafnar og úr því vinnur svo forstjóri og leggur fyrir þennan stjórnarfund.

Stjórnin bendir á nauðsyn þess að æskilegt sé að leysa mál með þessum hætti, fer á engan hátt inn á það, hvort fara eigi út í að kaupa togara erlendis frá. Það verður einnig að minna á í því sambandi að í um það bil tvö ár hafði Byggðasjóður ekki afgreitt lánbeiðni um kaup á skipum frá útlöndum. M.ö.o.: það er búið að taka fyrir þau lán með öllu í um það bil tvö ár. Þetta skiptir töluverðu máli þegar um þessi mál er rætt.

Síðan eru haldnir fundir af og til, — 4. sept., að mig minnir, 19. sept., — en engin ályktun gerð í þessu máli. Það er ekki fyrr en 14. okt. sem ályktun er gerð um þetta mál í Framkvæmdastofnuninni. Þá liggur fyrir og hafði áður verið kunngert í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar að ríkisstj. hefði 1. ágúst samþykkt ákveðna tillögu vegna þessara kaupa. Sú tillaga barst okkur í Framkvæmdastofnuninni í hendur með þeim undarlega hætti, að við fengum ljósrit af bréfi sem er með stimpli sjútvrh., en ekki ráðuneytis. Þetta bréf er dags. 25. sept. 1980 og er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvísun til viðtals staðfestist hér með, að á fundi ríkisstj. 1. ágúst s.l. var eftirgreind tillaga samþykkt: „Ríkisstj. fellst á tillögu Framkvæmdastofnunar ríkisins um lausn á því atvinnuleysi, sem verið hefur á Þórshöfn, og þeim byggðavanda, sem skapast hefur á svæðinu. Því samþykkir ríkisstj., að heimiluð verði kaup erlendis á notuðum togara sem rekinn verði sameiginlega af útgerðaraðilum á Þórshöfn og Raufarhöfn. Með tilliti til þess, að hér er um að ræða undantekningu frá gildandi reglum um innflutning fiskiskipa og sérstakt byggðamál, telur ríkisstj. rétt að fjármögnun verði tryggð með sérstakri fjáröflun til Framkvæmdastofnunar ríkisins á lánsfjáráætlun 1981.“

Virðingarfyllst,

Steingrímur Hermannsson.“

M.ö.o.: ríkisstj. telur að það eigi að tryggja kaup á þessum togara, sem hún tekur ákvörðun um að leyfa að kaupa erlendis frá, en ekki Framkvæmdastofnun ríkisins. Hún tekur hér fram, að þetta verði tryggt með sérstakri fjáröflun til Framkvæmdastofnunar ríkisins á lánsfjáráætlun 1981. Það frv. sá dagsins ljós hér í gær.

En hver haldið þið, hv. þdm., að hafi fengið þetta bréf?

Var það Framkvæmdastofnunin eða var það Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga? Nei, ekki aldeilis. Bréfið er stílað á „Hr. alþm. Stefán Valgeirsson“. Það er búið að flytja hér margar ræður án þess að minnst sé á höfuðsmanninn í þessu máli. (Gripið fram í: Var það ekki botnvörpungurinn Stefán Valgeirsson?) Ja, ég veit ekki hvað skipið verður látið heita. Það er ekki ósennilegt að þá verði þetta orðið að botnvörpung.

Þegar samþykktin var gerð 14. okt. liggur fyrir bréfbirt sem fskj. með þeirri fundargerð — frá fjmrh. sem vissi svo sorglega lítið áðan þegar hann talaði. Það bréf er þó skrifað réttum aðila, er til Framkvæmdasjóðs Íslands, c/o Framkvæmdastofnun ríkisins, Rauðarárstíg 31, og er dags. 6. okt. 1980. Það er svo hljóðandi:

„Hér með er staðfest, að ráðuneytið mun nýta heimild í lögum nr. 28/1972 til að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogara, er Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga hf. hefur samið um kaup á í Noregi. Ákvörðun þessi er þó með þeim fyrirvara, að veð og skilmálar af lánum, er tekin verða í sambandi við kaupin, séu í samræmi við reglur ríkisábyrgðasjóðs.“

Undir bréfið skrifa Ragnar Arnalds og Höskuldur Jónsson.

Þarf þá frekar vitnanna við? Hér er um að ræða 80% ríkisábyrgð.

Þegar þetta hvort tveggja lá fyrir: samþykkt ríkisstj. 1 ágúst og ríkisábyrgðin 6. okt., þá fyrst samþykkir stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins að lána 20% af kaupverði skipsins með því að fjármagnað verði með sérstökum hætti. Það réð afstöðu minni til þessa máls, að ég greiddi atkv. þeirri bókun, en hv. þm. Ólafur G. Einarsson las hana upp, því að ég tók fram að ég kannaðist ekki við að Framkvæmdastofnun hefði átt frumkvæðið að því að kaupa togara erlendis frá til að valda því að þeir togarar, sem fyrir eru í landinu, yrðu bundnir lengur eða látnir stunda óarðbærari veiðar fyrir það að alltaf sé verið að bæta við skipum. Ég taldi rétt, þar sem loforð lá fyrir í samþykkt ríkisstj. frá 1. ágúst og ríkisábyrgðin frá fjmrh., að greiða atkv. með félögum mínum í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. En einn stjórnarmanna, Karl Steinar Guðnason, greiddi atkv. gegn þessari bókun. Við þessa samþykkt vil ég standa og gat því ekki í gær fallist á það þegar formaður stjórnarinnar vildi afturkalla þessa samþykkt eftir fjóra mánuði. Ég get ekki ímyndað mér það, ef ég skrifaði á víxil fyrir hæstv. sjútvrh., að þegar komið væri að því að víxillinn félli á gjalddaga gæti ég farið í banka og sagt að nú ætlaði ég að strika nafnið mitt út af víxlinum. Ég vil vera sjálfum mér samkvæmur og standa við fyrri gerðir og bið engan afsökunar á því.

Ég hef lítið svo á mín störf sem stjórnarmanns í Framkvæmdastofnun ríkisins, að ég hafi ekki tekið þar þátt í neinum hrekkjabrögðum, og þó að ég sé andstæðingur núv. ríkisstj. tel ég að það sé nauðsynlegt að hafa samstarf við ríkisstj. á hverjum tíma um fjölmörg mál. En það breytir ekki því valdi sem við höfum, að við heyrum ekki undir ríkisstj. Við erum kjörnir af Alþingi og þá eigum við að gera það sem við teljum að sé réttast að gera. Við eigum ekki að fara eftir einhverjum pólitískum þrýstingi hverju sinni, heldur því, sem við álítum að sé heiðarlegast og best, og líta á okkur meira sem bankaráð að verulegu leyti. Þó verðum við einnig að fara út fyrir það þegar við eigum að fjalla um vandamál hinna ýmsu byggða og ýmis byggðavandamál, sem okkur ber að taka ákvörðun um eftir því sem við álítum sannast og réttast hverju sinni.

Ég skal nefna það hér, að eitt mál var samþykkt í stjórninni sem mér var mjög á móti skapi og ég taldi brjóta allar reglur. Ég var ekki á þeim stjórnarfundi en ágreiningur var um það. Síðar kom í ljós að samþykkt hafði verið heldur rífleg lánveiting og rúmaðist hún ekki innan þess ramma sem stofnunin starfar eftir. Starfsmenn drógu úr henni með tilliti til þess. En áður hafði verið gefið út bréf í samræmi við þessa samþykkt og ákveðna upphæð. Það er ekki fyrr en undir haust að bréf liggur aftur fyrir um að fyrrnefnda bréfið hafi verið lagt inn í lánastofnun og fengið lán út á það. Ég greiddi atkv. með þessu máli, sem ég hafði verið á móti, vegna þess að ég vildi ekki standa að því að Framkvæmdastofnun ríkisins væri ekki tekin gild eða hennar bréf í lánastofnunum landsins. Ég tel því algerlega út í hött þegar formaður stjórnar stofnunarinnar ætlast til þess í gær að samþykktin sé dregin til baka.

Þegar boð komu frá sjútvrh., sem allir héldu að væru frá ríkisstj., vildi ég á seinni fundi stofnunarinnar í gær gjarnan að formaður stjórnarinnar sannprófaði, en það var ekki gert, að þetta væri samhljóða álit ríkisstj. Hér er alltaf talað um einhvern misskilning og einhverja feimni. Þessi vill koma þessu á hinn. Ég tel að Framkvæmdastofnun eigi auðvitað að taka á sig það sem hún hefur gert, en ekkert umfram það. Ég skildi ekki hæstv. fjmrh. og talaði hann þó hægt og rólega. Ég skildi alls ekki hvernig málið stendur eftir allt saman. Í gær var okkur sagt að það lægi svo mikið við að síðasti frestur væri útrunninn kl. 14 í gær, — ég vissi aldrei hvort það var eftir norskum eða íslenskum tíma, en það er klukkutíma munur. (Gripið fram í: Það er tveggja.) Nei, það er tveggja tíma munur á sumrinu, það er klukkutíma munur enn þá. Það getur alveg eins verið tveggja tíma munur í Eyjum. Sagt var að afgreiða þyrfti þetta mál, það væru síðustu forvöð. Ég var svo barnalegur í mér að trúa að þessi skilaboð væru samhljóða álit ríkisstj. sem hefur auðvitað haft forustu í þessu máli.

Nú komum við aftur að því, sem er nauðsynlegt að ræða einnig: Af hverju er farið í allar þessar breytingar? Af hverju verður þetta skip svona dýrt? Hver átti að fylgjast með því? Þegar Byggðasjóður lánar út á skip, sem koma erlendis frá eða skip sem eru byggð innanlands, fer hann alfarið eftir þeirri upphæð sem Fiskveiðasjóður leggur til grundvallar. Það er Fiskveiðasjóður sem fylgist með sem stóri lánasjóðurinn, en það geta allir séð að auðvitað er ríkissjóður stóri ábyrgðarmaðurinn, þar sem hann ábyrgist þá í upphafi 80%, og því auðvitað eðlilegt að hann hefði látið fylgjast með. En þar munu hafa átt sér stað einhver mistök. Ég kannast ekki við og hef ekki heyrt að fjmrh. eða forsrh. hafi falið Framkvæmdastofnuninni slíkt eftirlit. Það virðist því ekki hafa verið fyrir hendi vegna þess að það er aðeins þetta eina skip sem fer algerlega fram hjá Fiskveiðasjóði.

Hæstv. sjútvrh. sagði að það væri tími til kominn að koma þessu skipi í höfn. Þá hefur hann sennilega átt við að það kæmist til íslenskrar hafnar. Ég get að mörgu leyti tekið undir það. En eftir ræður beggja ráðh. er mér ekki ljóst hvort það sé tryggt að ríkissjóður hafi aðstoðað Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga í sambandi við þessi kaup og tryggt því allt að 90% af 28 millj. Ég tel að með skilaboðunum í gær hafi stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins ekki getað gert annað en að samþykkja að minnka sína ábyrgð úr 4.2 millj. norskra kr. í 2.8 millj. norskra kr. og þannig lækka sína ábyrgð um 1.4 millj. norskra kr. Ég skal ekki, enda á maður ekki að gera slíkt fyrr en vitað er hvernig þetta mál fer, tíunda það neitt hvernig farið hefði ef kaupin hefðu farið út um þúfur. Ef þeim verður riftað verður hér um málaferli að ræða og þá á ekki að tala neitt um það fyrir fram. En að afturkalla fyrri samþykkt er siðleysi í viðskiptum og siðleysi hjá opinberri stofnun að gera það.

Það hefur verið talað nokkuð um 1500 millj. sem áttu að koma til Framkvæmdastofnunarinnar vegna innlendrar skipasmíði og nú var talað um að taka af henni vegna þessa máls. Það væri fróðlegt fyrir okkur, sem erum í stjórn þessarar stofnunar, og raunar alla alþm. að fá að vita um það, með hvaða hætti þessar 1500 millj. verða reiddar fram og með hvaða lánakjörum ef það er ætlun ríkisstj. að Byggðasjóður taki þessar 1500 millj. kr. að láni með þeim kjörum sem eru á öllum slíkum lánum nú, með vaxtagreiðslum og verðtryggingu. Eigi svo að lána það fé til innlendrar skipasmíði á eftir Fiskveiðasjóði og öllum öðrum og hafa enga tryggingu fyrir að fá það nokkurn tíma greitt aftur held ég að það verði fleiri en ég í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins sem hugsa sig vandlega um áður en þeir þiggja slíkt lán. Það eru þegar farin að hrúgast upp í milljörðum vanskilin og óvissan um endurgreiðslu af slíkum lánum vegna innlendrar skipasmíði á liðnum árum.

Á sama tíma og ríkisstj. og stjórnarliðið skera niður og brjóta lögin um framlag til Byggðasjóðs og pína á þann hátt Byggðasjóð til að taka erlend lán og verðtryggð lán er ekki hægt að búast við að hægt sé að lána aftur út með þessum hætti. Það hlýtur hver maður að skilja sem eitthvað hefur komið nálægt viðskiptum og lánastarfsemi. Ég vildi því mjög gjarnan fá upplýsingar um það, hvernig þetta er hugsað frá hendi ríkisstj. Og enn fremur: Hefur þá ríkisstj. endanlega gengið frá þessu máli? Er þá tryggt að þetta skip komi samkv. síðustu tilkynningu eða er allt í lausu lofti eða er það allt saman misskilningur að ríkisstj. ætli að hækka ríkisframlagið frá því sem var? Hefur hún ekki tekið formlega ákvörðun? Við viljum sannprófa framburð hæstv. ráðh. í ríkisstj. — ég held að það sé kominn tími til þess — og láta þá ekki leika lausum hala eins og þeir hafa gert í þessu máli frá byrjun til enda. Er hér verið að friða þá sem mestan áhuga hafa haft á því að þetta skip væri keypt, þm. stjórnarliðsins, sérstaklega í Norðurl. e., og leika sér að þessu máli og vonast til þess að Framkvæmdastofnunin muni þá á síðustu stundu neita? Var kannske til þess ætlast þegar formaður stjórnarinnar, stjórnarþm., segir: Ég vil taka aftur fyrri samþykkt — að við stjórnarandstæðingar í stofnuninni, þrír að tölu, greiddum atkv. með formanni stjórnarinnar og þar með væri sagt: Nú er búið að taka þennan kaleik frá ríkisstj. og það er stjórnarandstaðan ásamt einum stjórnarþm. sem hafa stöðvað málið með þessum hætti? Þið fyrirgefið, hæstv. ráðh., þó að þessi grunur hafi læðst að mér strax í gær, en eins og ég sagði áðan vildi ég ekki — og ekki heldur Ólafur G. Einarsson — standa að því að breyta frá fyrri samþykkt. Við töldum það báðir ódrengileg vinnubrögð. Það er einnig í fullu samræmi við skoðun Karls Steinars Guðnasonar í sumar að hann greiðir ekki atkv. um tillöguna í gær. Hann greiðir ekki atkv. gegn henni, vegna þess að hún er betri fyrir þá stofnun, sem hann á sæti í stjórn í, heldur en tillagan frá 14. okt. Það er því alveg rökrétt stefna sem hann hefur tekið.

Ég held að það sé nauðsynlegt að fá hreinni og ákveðnari svör. Er ríkisstj. sammála í þessu máli og er örugglega tryggt að þetta skip komi? Hefur hún sannfært sig, og væntanlega eigendur þess, um að það sé öruggt, með því að Byggðasjóður láni 2.8 milljarða norskra kr., að skipið komi í höfn? Þessu ætti að vera auðvelt að svara annaðhvort játandi eða neitandi hér í dag. Ef þessu er ekki svarað ákveðið játandi hygg ég að við munum gera kröfu ti1 þess, að fundur verði haldinn þegar í stað í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar til að fá nánari skýringar á þessu máli. Ég held að það sé nóg komið og að hrekkjalómar og víxlgengismenn hafi látið of mikið bera á sér í þessu máli. Það er kominn tími til að ráðsettir og fullorðnir menn ljúki afgreiðslu þessa máls með skaplegum hætti.