18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það hafa margar yfirlýsingar verið gefnar í þessu máli og nauðsynlegt að viss atriði í aðdraganda þess komi fram.

Það er rétt, sem fram kom í ræðu hæstv. sjútvrh., það voru einungis sex af þm. Norðurl. e. sem skrifuðu undir bréf í maímánuði s.l. þar sem beðið var um að ríkisstj. greiddi fyrir því, að togari yrði keyptur til Raufarhafnar og Þórshafnar. Þegar þetta bréf var skrifað lá það fyrir milli mín og fulltrúa útgerðarfélags bæði á Raufarhöfn og Þórshöfn, að ég vildi heldur fara þá leið að kaupa báta til að bæta úr hráefnisskortinum þarna fyrir norðan og benti m.a. á það í því sambandi að vegna umfangsmikilla friðunaraðgerða þar hefur fiskur aukist á grunnslóð og mikil bjartsýni ríkir nú norður frá um að bátaútvegur sé arðbærari en áður. Það er harðar sótt en áður og lengra farið og einmitt núna hafa mér borist fréttir um það, eins og raunar áður, að ýmsir útgerðarmenn þar hyggja á að stækka sína báta. Ég vil að þetta komi alveg skýrt fram og eins hitt, sem ég gerði grein fyrir á þeim tíma, að ég tel að opinberir sjóðir og stofnanir eigi ekki að veita 100% lánsfjárfyrirgreiðslu til skipakaupa erlendis frá. Ég vil að þetta komi alveg skýrt fram. Í því sambandi gat ég þess m.a., að það væri varla hægt að hugsa sér að betri lánsfjárfyrirgreiðsla yrði veitt til kaupa á togara erlendis frá en togara sem smíðaðir væru innanlands.

Ég hef ekki breytt um skoðun varðandi það, að happadrýgra yrði að stækka bátaflotann þar fyrir norðan en ráðast í togarakaupin. Eigi að síður tel ég sjálfsagt að standa með öðrum þm. Norðurl. e. fast á því, að ríkisstj. standi við þau fyrirheit sem hún hefur gefið varðandi togarakaupin norður þangað. Eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan hafði ríkisstj. falið Framkvæmdastofnun að greiða fyrir þessu máli og ráða fram úr því. Fyrirheitið til Norðlendinganna var þess vegna skýlaust, afdráttarlaust. Þeir höfðu kröfu á ríkissjóð um það, að fyrir þessum togarakaupum yrði greitt. Þm. kjördæmisins hljóta að standa allir sem einn maður að baki þeim norðanmönnum um það, að við þau fyrirheit verði staðið.

Ég hlýt að gagnrýna það í þessu sambandi, að ekki hafa fengist upplýsingar um það frá ríkisstj., hvernig hún hyggst standa að þeirri ríkisábyrgð sem talað er um, 80% og nú 90%. Samkv. lögum um ríkisábyrgðasjóð er ekki heimilt að ábyrgjast nema 80% af lánum af þessu tagi og þurfa sérstök lög til að koma að mínu viti til þess að 90% ríkisábyrgð sé heimil vegna þessara togarakaupa. Ég vil beina því til hæstv. sjútvrh., hvort ríkisstj. hafi í hyggju að leggja fram í þessari viku frv. um að þessarar viðbótarheimildar verði aflað til þess að ábyrgjast þessar fjárskuldbindingar.

Ég vil í öðru lagi varpa þeirri fsp. til hæstv. sjútvrh., hvað í ríkisstj. hafi talast til um það, hvað farið hafi á milli hans, fjmrh. og ríkisábyrgðasjóðs um það, hversu mikið af brúttóafla þeir muni krefjast til að standa undir ríkisábyrgðunum. Eins og við vitum um togaraútgerðarfélag Norður-Þingeyinga standa þar engar fasteignir á bak við. Það er þess vegna nauðsynlegt að trygging ríkisábyrgðasjóðs sé einungis í skipinu sjálfu, auk þess sem sjóðurinn hlýtur að gera kröfu til að fá tiltekinn hundraðshluta af brúttóaflaverðmæti skipsins. Ég hafði heyrt talað um að ríkisábyrgðasjóður mundi a.m.k. ætla sér 20% af brúttóaflaverðmæti, áður en 10% viðbótarábyrgðin kom til. Ég hef hins vegar ekki getað fengið þetta staðfest. En það kom einnig fram á þeim tíma, að Byggðasjóður ætlaði sér líka hlut af brúttóverðmæti aflans.

Hæstv. sjútvrh. talaði um það áðan, að hann hefði fyrir tíu dögum farið fram á að gerð yrði rekstraráætlun fyrir skipið. Honum er jafnljóst og mér að rekstraráætlun er ekki hægt að gera fyrr en fyrir liggur hvað útgerðin getur reiknað með að fá mikið af aflaverðmætunum. Þess vegna beini ég fsp. til hans í sambandi við beiðni hans um rekstraráætlun togarans: Út frá hvaða tölum gekk fjmrh. eða sjútvrh. eftir atvikum eða kannske hæstv. forsrh. þegar beðið var um þessa rekstraráætlun? Hvað var búist við að gerð yrði há krafa í stofnfjársjóð af brúttóverðmæti aflans? (Forseti hringir.) Já, herra forseti, það er rétt að liðnar eru 5 mínútur.

Ég vil vekja athygli á því, að þetta mál hefur mjög verið til umræðu í fjölmiðlum, ekki síst ríkisfjölmiðlum. Það hafa komið fram alls konar fullyrðingar um skoðanir einstakra þm. á þessu máli, þ. á m. um mínar skoðanir, og ekki verið farið rétt með. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum yfir því, að mér skuli ekki vera ætlaður tími til að tala litlu lengur en þetta. Umr. hafa staðið í hálfan annan tíma og ekki verið séð ástæða til að stytta umr. fyrr en nú. Á hinn bóginn hefur hæstv. forseti deildarinnar riðið á vaðið með því að tala lengur en hann ætlar öðrum dm. nú að tala.