18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að ég legg nokkra áherslu á að þeir, sem þegar hafa beðið um orðið, nái því til þess a.m.k. að fá öndinni frá sér hrundið. Það gefast nægjanleg tækifæri til að ræða þetta mál síðar. Ég hef jafnan haldið fast við þingflokksfundatíma og þess vegna er nú þessi niðurskurður af minni hálfu til kominn, enda vandséð að forseti verði gagnrýndur fyrir það þegar hann fellst á að verja öllum fundartíma á þessum degi til þessa máls. En þess er einnig að geta, að menn mega jafnan utan dagskrár tala tvisvar. Hér hefur verið farið kurteislega að.