03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

Umræður utan dagskrár

Albert (Guðmundsson:

Herra forseti. Hefði ég vitað hvað beið mín þegar ég kom hingað, þá hefði ég lagt hart að forseta að hleypa þessum umr. alls ekki af stað. Ósmekklegri og meira óviðeigandi umr. og meiri lágkúru hef ég aldrei heyrt í málflutningi eins eða neins á neinum fundum þar sem ég hef setið, hvorki í borgarstjórn ná á Alþingi né í neinum öðrum félagsskap, og er ég þó búinn að starfa í ýmsum félögum svo lengi sem ég man eftir mér, fyrst sem byrjandi í yngstu íþróttaflokkum hér í borg. Og þetta kemur frá borgarfulltrúa og þm. Reykv. af því tilefni, að einn af mestu velgerðarmönnum þess borgarsamfélags, sem við erum búsett í og erum þm. fyrir, er nýlátinn og sýnir samfélaginu, bæði landi og þjóð og ekki síst borgarsamfélaginu, þá virðingu sem hann hefur með ráðstöfun eigna að sér látnum sýnt þeim sem eftir lifa.

Ég tek undir það með forseta að þessar umr. hefðu átt að vera miklu styttri og helst alls ekki fara af stað. Það vill svo til, að ég þekkti persónulega bæði Sigurliða Kristjánsson og Helgu konu hans. Duglegra og útsjónarsamara og betra fólki var tæplega hægt að kynnast. Og ég vil upplýsa að Silli & Valdi höfðu í sínu stóra fyrirtæki aðeins einn skrifstofumann síðustu árin. Þegar frú Helga gat ekki lengur fært allar bækur, skrifað alla reikninga, séð um allar innheimtur og allar pantanir á eldhúsborðinu eða stofuborðinu heima hjá sér, þá fengu þeir aðstoðarmann í fyrirtækinu sjálfu. Sá málflutningur, að afrakstur þessa fólks skuli vera gerður á tortryggilegan hátt að umræðuefni á Alþingi Íslendinga, er högg fyrir neðan það belti sem lægst er gyrt.

Ég vil líka minna á það, að sem ungir menn, hugsjónamenn, samvinnumenn, gengu þessir tveir piltar, Silli og Valdi, í Samvinnuskólann og gerðust síðan starfsmenn samvinnuhreyfingarinnar hér í Reykjavík. Þegar samvinnuhreyfingin ákvað á erfiðum tíma að loka þeirri verslun sem þeir unnu saman í, hlið við hlið og dag og nótt, eins og þá var gert, var þeim boðið sem duglegum starfsmönnum að yfirtaka fyrirtækið. Þeir þáðu það. Og á þessu gjaldþrotafyrirtæki samvinnuhreyfingarinnar, á þeim grunni byggðu þeir þann auð, sem nú er hér til umræðu.

Hvernig gengur verslun Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis t.d.? Er kaupfélagsfyrirkomulagið með aðra álagningu, með aðra starfsmöguleika, með skerta getu í samkeppni við frjálsa aðila eins og Silla og Valda? Ég segi nei. Ég er ekki að gera kaupfélögin að umræðuefni nema af því að kaupfélagsverslunin og menntunin innan samvinnuhreyfingarinnar kom þessum ungu mönnum á þá lífsbraut sem þeir helguðu ævistarf sitt.

Ég var samstarfsmaður Sigurliða Kristjánssonar í mörg ár. Vegna þess að Sigurliði var einn þekktasti íþróttamaður hér á yngri árum, síðan íþróttaleiðtogi, formaður Íþróttafélags Reykjavíkur um langt skeið og velgerðarmaður ungra manna í borginni, þá fékk ég það sem kallað var aðstoðarsendisveinsstarf hjá honum og þótti mikið til koma. Það varð upphaf að ævilangri vináttu og samstarfi á mörgum sviðum, sem leiddi okkur saman, og að lokum var ég við dánarbeð hans þegar hann kvaddi. Því er mér sárt að þurfa að sitja undir slíku hér á Alþingi Íslendinga. Það liggur við, þegar svona kemur upp,. að ég óski þess, að ég hefði aldrei verið kjörinn á Alþingi Íslendinga. Slík lágkúra hvílir í dag yfir þessari stofnun.

Sigurliði Kristjánsson hjálpaði fjölmörgum ungum mönnum á fyrstu skrefum þeirra að undirbúningi ævistarfs, og þeir eru til enn í dag sem hugsa með öðru hugarfari til þeirra hjóna en hér hefur komið fram í ræðu frummælanda. (GH: Ég hef ekki sagt misjafnt orð um þessi hjón.) Ég er að tala um það sem sagt var hér um arf þeirra og tilkomu hans. Ég vil með leyfi rekja það, að sú auðsöfnun, sem hér er á dagskrá, er ekki til komin af verslunarviðskiptum eða smásölu einni saman. Það kom fram hjá ráðh., að fyrirtækið Silli og Valdi hafði keypt eignir um 50 ára skeið, í hálfa öld, en seldi aldrei, og það er verðbólgan sem hefur að vísu aukið krónutöluna. Ég skal ekkert segja um það, hvort eða hvaða annað mat er hægt að setja á þessar eignir sem nú eru til umr. sem verslunarálagning eða gróði af smásölunni.

Á þessum 50 ára starfsferli hefur Sigurliði hjálpað mörgum, þ. á m. listamönnum. Hann hefur hjálpað listamönnum allan tímann sem hann hefur haft efni á. Hann hefur greitt götu þeirra og hann hefur keypt verk eftir þá til þess að aðstoða þá. Hvað skeður nú? Það er ekki aðeins sú lágkúra sem hér kemur fram, heldur er það Listasafn ríkisins líka sem neitar að taka við því sem að því er rétt samkv. erfðaskrá. Ekki peningunum, þeir neita ekki peningunum. Þeir neita listaverkunum. Þetta er Listasafn ríkisins. Hvað segja listamennirnir sem Sigurliði Kristjánsson og hans ágæta eiginkona, frú Helga, voru að hjálpa allan þennan tíma? Sumir hverjir urðu þekktir, landsþekktir, þjóðkunnir. Meðal annars eru þarna Kjarvalsmálverk. Þetta kom ekki út af verslunargróða einum.

Ég vil gera hér fsp., með leyfi forseta. Ég hafði hugsað mér að taka til máls utan dagskrár á morgun, ef enginn annar gerði það, og bera upp fsp. til menntmrh.: Er það rétt, er það bókstaflega rétt, sem fólkið í landinu spyr sig nú, getur það verið, að Listasafn ríkisins — og kannske einn aðili í Listasafni ríkisins, sem er starfsmaður þar, geti neitað að taka við 600 málverkum, eins og segir í fréttum í blöðunum, og þá á hvaða forsendum, með hvaða leyfi, og að málverkin skuli vera nú til sölu hjá uppboðshaldara listaverka í borginni? Hvað er að ske? Ætlar Listasafnið kannske að taka við peningunum frá uppboðshaldaranum fyrir þessi málverk og kaupa einhver önnur málverk, en ekki taka við þeim málverkum sem gefendurnir töldu að Listasafni ríkisins væri hagur að eiga? Það er ómögulegt að segja hver eða hvenær listamaður verður góður listamaður í augum almennings. Ég vil bera upp þessa fsp. hér og nú og bið hæstv. menntmrh. eða þann ráðh. sem gegnir störfum hans, ef hann er ekki við, að svara þeirri spurningu strax á morgun í Sþ.,ekki í dag í Nd., því að málverkin, sem um er rætt, eru komin í sölu á hinum almenna markaði og það er blettur, það er skömm fyrir íslensku þjóðina að taka svona á móti slíkri gjöf sem hér um ræðir.

Það er enn þá meiri skömm, að sá, sem hefur þessar umr., er líka borgarfulltrúi í Reykjavík. Fyrir það skammast ég mín persónulega. Ég tel það blett á borgarstjórn Reykjavíkur, að hann skuli sitja þar. Verslunarálagning verður til þess að umr. um það dánarbú, sem hér um ræðir, kemur á dagskrá Alþingis Íslendinga. Hvað lágt getum við lotið, hve lágt er hægt að lúta? Hvar eru takmörk lágkúrunnar? Ég ætla að bíða eftir að frummælandi taki aftur til máls. Það getur verið að hún komist lægra.