18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2382 í B-deild Alþingistíðinda. (2560)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Undanfarna daga hafa skattborgarar í þessu landi getað fylgst með einhverju furðulegasta máli og furðulegasta eyðsluklóarmáli sem hér hefur komið fram í langan tíma. Það er þó ljóst af þessari umr., — það kom fram í máli hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og auðvitað hlýtur svo að vera, — að sá aðili, sem fyrst og síðast ber ábyrgð á þessu máli, er hæstv. ríkisstj. Hins vegar þykir mér að eitt atriði hafi ekki nægilega verið upplýst. Mig langar til að bera fram fsp. þar að lútandi til hæstv. sjútvrh.

Í upphafi þessa máls, þegar þingmenn úr Norðurl. e. eru að fara fram á skip, er verið að tala um franskt skip, og nam kaupverð þá um það bil þriðjungi þeirrar upphæðar sem nú er verið að tala um. Síðan virðist það gerast að einhvers staðar á þessum ferli er snúið frá hinu franska skipi, sem auðvitað er bæði eldra og miklum mun ódýrara, og tekin ákvörðun um að panta þetta þrisvar sinnum dýrara norska skip, sem auk þess þarf að breyta mjög verulega. Breytingarnar hækka kaupverðið mjög mikið. Stöndum við nú uppi með á hálfan fjórða milljarð umfram áætlanir. Nú er spurning mín þessi: Hvenær á ferlinum gerist það, að tekin er ákvörðun um þetta nýrra og miklu dýrara skip? Hver er það, sem tekur þá ákvörðun, og hver heimilar að þessi ákvörðun sé tekin? Gerist þetta fyrir þrýsting frá einstökum þm. og þá hverjum? Með hvaða hætti var þetta leyft? Eða á að trúa því, að þessi ákvörðun hafi verið tekin gersamlega stjórnlaust og án þess að nokkur maður hafi um hana vitað fyrr en ákvörðunin var tekin og féð þurfti að reiða af hendi? Ég endurtek því spurninguna: Hvenær er tekin ákvörðun um þetta dýrara skip? Vegna þrýstings frá hverjum er það gert? Hver er það sem heimilar það?

Hér í hv. deild er forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins. Það var tekið sjónvarpsviðtal við hann og birt í fréttum sjónvarpsins á laugardagskvöld. Þar kemur í ljós að hann er mjög andsnúinn þessu máli. Í viðtalinu segir hann að þetta mál verði til þess að leyst verði niður um einhverja þá sem að því hafa staðið. Þetta er auðvitað kjarnyrt, eins og forstjórans og hv. þm. er von og vísa, en þá er eðlilegt, að spurt sé hér, og eðlilegt að þeir, sem á þetta viðtal horfðu, vilji fá svör við því: Við hverja átti hv. þm.? Hverjir eru það sem þarf að leysa niður um í sambandi við þetta mál? Þegar menn leysa niður um hver annan koma líkamshlutar í ljós sem væntanlega hafa ekki sést fyrr, en menn gera sér þó einhverjar hugmyndir um hvað þar muni koma í ljós. Ég mundi halda að það væri eins farið að þessu sinni, m.ö.o. að hv. þm. geri sér nokkrar hugmyndir um hvað það sé sem komi í ljós þegar leyst hefur verið niður um. Það er eðlilegt að sjónvarpsáhorfendur spyrji um þetta og það er eðlilegt að þm. hér spyrji: Við hverja átti hv. þm.? Á hann við ráðh. í ríkisstj., á hann við aðila í stjórn Framkvæmdastofnunar, á hann við þm. Norðurl. e., á hann við skipakaupmenn — eða við hverja er átt? Með orðum af þessu tagi, og ég er ekki að draga í efa að hv. þm. hafi haft rétt fyrir sér, er verið að gefa í skyn að einhver skuggaviðskipti hafi átt sér stað í sambandi við þetta mál. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að héðan úr ræðustól á Alþingi sé gengið á um að fá skýr svör við því, ef slík skuggaviðskipti hafa átt sér stað, hverjir framkvæmdu þau. Við hverja átti hv. þm. þegar þessi orð voru látin falla? Skattgreiðendur, sem auðvitað, eins og síðasti hv. ræðumaður gat um, munu á endanum borga þennan brúsa, horfa upp á að ábyrgðaraðilar í þessu máli kenna hverjir öðrum um, þeir bera það á torg jafnvel að skuggaviðskipti hafi átt sér stað. Ef svo er, hverjir eru það? Þessum spurningum verður að svara og þessum spurningum eiga skattgreiðendur, þeir sem þetta skip fyrst og síðast koma til með að borga, heimtingu á að fá svar við.