19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2389 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

12. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum um Kennaraháskóla Íslands. Á fund nefndarinnar kom Baldur Jónsson rektor Kennaraháskólans og enn fremur fulltrúar frá menntmrn., Árni Gunnarsson og Sigríður Thorlacius, og gáfu upplýsingar um málið. Í frv. felast þrjár breytingar frá gildandi lögum um Kennaraháskóla Íslands.

Í 1. gr. er sú breyting, að inn í 4. gr. laganna skuli koma nýr liður, 4. liður, um það að árlega skuli fara fram skrásetning nemenda og þeir greiða skrásetningargjöld. Er sú breyting samkv. ósk nemenda Kennaraháskólans og er í samræmi við lög um Háskóla Íslands.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir að hætta að skilja nám handavinnukennara frá almennu kennaranámi og verður þá jafnframt sú breyting á handavinnukennaranámi, að nám þeirra í uppeldis- og kennslufræðum skuli jafngilda 30 námseiningum. Yrði þar með fullnægt ákvæðum laga um embættisgengi kennara sem sett voru fyrir tveimur árum. Jafnframt fullnægja kennarar, sem stunda nám í list- og verkgreinum, ákvæðum um að eigi færri en 30 einingar í sérgrein þeirra séu innifaldar í námi þeirra. Enn fremur er í 1. gr. frv. sagt að nánari ákvæði megi setja í reglugerð um inntöku nemenda í skólann og þá þar með að krefjast skuli einhverrar kunnáttu í list- og verkgreinum.

Í 3. gr. frv. er ákvæði, sem er í samræmi við lög um Háskóla Íslands, um að heimilt sé að flytja lektor úr lektorsstöðu í dósentsstöðu.

Menntmn. mælir með því, að frv. verði samþykkt óbreytt. Davíð Aðalsteinsson, Karl Steinar Guðnason og Gunnar Thoroddsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.