19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég bar fram fsp. til forsrh. hér í upphafi. Ég tók það fram í seinni ræðu minni, að ég þakkaði þau svör sem fengist hefðu, en ítrekaði hins vegar nokkrar spurningar. Ég trúi því ekki, að hæstv. forsrh. ætli að sitja hér undir þeim umræðum, sem hafa átt sér stað, án þess að svara þeim meginspurningum sem hér hafa verið bornar fram, en ýmsum þeirra hefur hann látið ósvarað, en í staðinn valið — eins og reyndar hæstv. forsrh. velur oft — að rekja þá sögu málsins sem allir þekkja og geta ekki talist svör við þeim spurningum sem á brenna.

Ég spurði t.d. og ítreka það enn, hvernig eigi að standa undir rekstri þessa skips. Er hugmyndin sú, að það verði styrkt af almannafé eða er hugmyndin sú, að íbúarnir þarna norður frá eigi að standa undir þessum geigvænlega hallarekstri? Við þessu verða vitaskuld að fást svör.

Ég hef líka spurt hvort það sé ekki rétt skilið af ræðu forsrh., að engin takmörkun hafi verið sett af hálfu ríkisstj. á þá upphæð, sem ríkisábyrgðin næði til, að ríkisstj. hafi ekki í samþykkt sinni verið með neina takmörkun af þessu tagi. Og ég vil fá það staðfest, hvort þetta sé ekki réttur skilningur, því að þarna liggur þá í raun og sannteika hundurinn að verulegu leyti grafinn.

Í öðru lagi spurði ég hvort nokkuð hefði verið um það í bréfinu til Framkvæmdastofnunar, að hún aðstoðaði við val og kaup á skipinu. Ég hef skilið svör forsrh. þannig, að það hafi ekki verið. Ég vil gjarnan fá það staðfest og trúi ekki öðru en forsrh. svari þessu ef hér er rangt með farið.

Ég hef líka leitað eftir svörum við því, hvað komi til þess, að ríkisstj. velji nú að hafa sjónarmið eins helsta guðföður síns, stjórnarformannsins í Framkvæmdastofnun, Eggerts Haukdals, að engu. Hvaða rök liggja til þess hjá ríkisstj. að hafa rök hans og afstöðu nú að engu? Og hver er rökstuðningurinn fyrir því, að fé, sem ætlað er til innlendrar skipasmíði, skuli varið til þess að kaupa skip til landsins?

En að lokum þetta: Það hefur upplýsist síðan í gær, að ráðh. hefur sagt að hér sé um alvarleg mistök að ræða. Sverrir Hermannsson, forstjóri Framkvæmdastofnunar, hafði áður sagt að þetta væri ógott mál, sem heitir á venjulegu máli að þetta sé slæmt mál eða mjög vont mál. Það er nú eiginlega komið svo, að þetta mál er farið að ganga fyrir misskilningi. Það er ekki bara um mistök að ræða, heldur er málið farið að ganga fyrir misskilningi. Í dag og síðdegis í gær hafa ýmsir ráðherrar hlakkað yfir því, að Framkvæmdastofnunin skyldi taka ákvörðun í fyrradag á grundvelli misskilnings, á grundvelli þess, að Sverrir Hermannsson hafi misskilið Steingrím Hermannsson. Mér þykir það nú orðið nokkuð hart, ef það á að margefla þau mistök, sem gerð hafa verið, með því að byggja lokaákvörðunina á misskilningi og hlakka svo yfir því. Ég trúi ekki öðru en hæstv. forsrh. grípi hér í taumana og leiðrétti þau mistök sem hér hafa verið gerð, að hann taki þá menn á beinið sem hlakka yfir því, að mistökin séu staðfest og gerð endanleg á grundvelli misskilnings. Þetta er hörmulegasta dæmi úr stjórnarfari, sem hægt er að hugsa sér, er svo á fram að ganga. Sumir hafa sagt að þetta þýddi að það yrðu greiddar skaðabætur. Sverrir Hermannsson hefur lýst því yfir, að hann og hans stofnun hlyti að vera reiðubúin til að greiða skaðabæturnar. En þessar skaðabætur eru áreiðanlega ekki há upphæð í samanburði við þau feiknaútgjöld, sem verið er að taka á sig. Og í sambandi við mistök og í sambandi við skaðabætur og það að snúa við úr mistökum vil ég aðeins minna á það, að einu sinni varð eldgos í Kröflu þegar var verið að hefjast handa um framkvæmdir. Þá horfðu menn í, að mig minnir, 40 eða 60 millj., sem búið væri að spandera, og héldu áfram og hafa með þessu bakað sér stórfellt tjón. Það er stundum betra að taka bakslagið strax. (Gripið fram í.) Þetta heitir Kröflugígur og er megineldstöðin á þessu svæði, þó að það gjósi upp annars staðar, en ég legg ekki mikið upp úr því. Þetta er nægilega nálægt og nægilega miklar hörmungar sem hafa af hlotist, þannig að ég trúi ekki öðru en meira að segja hv. þm. á Norðurlandi skilji hvert verið er að fara.