19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. þm. Lárus Jónsson spurðist fyrir um það, hvort ríkisstj. hefði gert ályktun um það mál, sem hér er til umr., á fundi sínum s.l. þriðjudag og í því sambandi varðandi skilaboð sem forstjóri Framkvæmdastofnunarinnar flutti stjórn hennar. Ég vil taka það fram hér, sem hefur komið fram einnig áður, að ég ætla, að ríkisstj. gerði ekki ályktun um þetta mál á fundi sínum s.l. þriðjudag og sendi stjórn Framkvæmdastofnunar engin tilmæli.

Á þskj. 434 hafa nokkrir þm. borið fram beiðni til forsrh. um skýrslu um kaup á togara fyrir Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga á Þórshöfn. Að sjálfsögðu verður sú beiðni samþykkt á fundi Sþ. í dag, þar sem hún er á dagskrá. Ég vil taka það fram, að undanfarna daga hefur verið í undirbúningi í forsrn. samantekt skýrslu um málið, og mér finnst alveg sjálfsagt að eins fljótt og verða má verði Alþingi flutt skýrsla um málið þar sem saga þess og gögn verða rakin sem nákvæmast. Þar koma væntanlega svör við öllum þeim spurningum sem menn hafa borið hér fram. Hins vegar getur það ekki farið saman, að hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur borið fram ásamt fleiri þm. þessa beiðni um skýrslu mína í þinginu, þegar gagna hefur verið aflað og sú skýrsla er tilbúin, en svo þylur hann upp hér utan dagskrár fjölda spurninga sem hann ætlast til að sé svarað þegar á stundinni, en mörgum hverjum er auðvitað ekki unnt að svara fyrr en þessi skýrsla hefur verið tekin saman. Mér sýnist að hv. þm., sem stendur að þessari beiðni, ætti að una við það, að þessum spurningum hans verði svarað þegar skýrslan kemur til meðferðar. Ég ætla einnig að þá komi fram svar við seinni spurningu hv. þm. Lárusar Jónssonar.