19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umr. Ég hef ásamt fleiri þm. óskað eftir skýrslu hæstv. forsrh. um kaupin á togaranum til Útgerðarfélags Norður-Þingeyinga og býst við að tækifæri gefist til að ræða þetta mál með sem fyllstum upplýsingum í Sþ. þegar sú skýrsla liggur fyrir.

Vegna ummæla hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar áðan, þegar hann fer að taka inn í umræðurnar þann sorgaratburð sem varð við suðurströndina nú í vikunni, vil ég ekki láta hjá líða að koma hér upp og gera nokkra athugasemd. Ég vil harma það viðtal sem sjónvarpið hafði við skipherra varðskips í gærkvöld þar sem ýmislegt er gefið í skyn sem aldrei verður sannað. Ég vil eins harma það, hvernig fjölmiðlar hafa yfirleitt velt sér upp úr þessum sorgaratburði og ýft upp sár syrgjenda. Það er svo, að í hvert skipti sem sjóslys verður er sjóréttur rétti aðilinn til að upplýsa mál og rekja atburðakeðju sem þeim veldur. Oftast er það svo, þegar slíkir atburðir verða, að enginn mannlegur máttur getur orðið til að koma í veg fyrir slysin.

Ég vil láta það koma fram hér, að ég treysti þeim Þórði Rafni Sigurðssyni, skipstjóra á Ölduljóni, og Helga Ágústssyni, skipstjóra á Sindra, fullvel og ég veit að þeir hafa gert allt sem í mannlegu valdi stóð til að koma í veg fyrir að þessi atburður yrði. Ég treysti Helga Ágústssyni, sem ég þekki persónulega mjög vel, til þess að hafa gert allt það sem nokkrum manni var mögulegt til þess að bjarga skipinu, enda held ég að hann hafi gert það, því að hann var kominn inn í grunnbrotin þegar hann loksins hverfur af vettvangi.

Ég ætla að vona að alþm. taki ekki þátt í því að velta sér upp úr þessum sorgaratburði fyrr en sjópróf hafa farið fram og orsakakeðjan er upplýst. Ég sé ekki neinn tilgang í því að taka slíkt upp fyrr hér á Alþingi. Ef þá gefst tilefni til skulum við ræða þetta og þá með þeim upplýsingum sem eru réttar og fyrir liggja þá.