03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða stöðu verslunar. Ég held að síðar gefist tækifæri til þess.

Þó að ég sé ekki mikill stuðningsmaður þeirrar ríkisstj. sem nú situr, þá bjóst ég við að viðskrh., sem svaraði á mjög kurteisan og huggulegan hátt þessu frumhlaupi Guðrúnar Helgadóttur, mundi í leiðinni láta í ljós andúð sína á slíkum málflutningi sem hún viðhafði. En ég bjóst þó frekar við því, að hæstv. forsrh. stæði upp, af því að hann er fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík, þm. Reykv. og var náinn samstarfsmaður Sigurliða heitins Kristjánssonar, og gæfi þessum frummælanda ákúrur. En hann fór af þingfundi og sést ekki í salnum. Hann er sennilega smeykur við frú Guðrúnu Helgadóttur. Það þarf enginn að segja mér það, að honum hafi ekki mislíkað þessi ummæli.

Ég hélt að Þjóðviljinn hefði svívirt Silla og Valda nóg á meðan þeir ráku sína starfsemi, og ég held að Sigurliði heitinn Kristjánsson hafi fengið nóg í því blaði á meðan hann lifði. En eftir að hann gefur samfélaginu allar eigur sínar, þá er haldið áfram að níða hann látinn. Ég tek undir orð Alberts Guðmundssonar, og ég get vel skilið að nánum vini Sigurliða heitins Kristjánssonar, eins og Albert Guðmundsson er og var, hafi orðið heitt í hamsi þegar inn í fsp. um stöðu verslunar og verslunarálagningar er blandað á svona ósmekklegan hátt einhverri mestu rausnargjöf sem nokkru sinni hefur verið gefin, ekki á Íslandi, heldur víðar um heim. Ef sá maður, sem hér er um að ræða, hefði verið amlóði og letingi og ekki nennt að vinna sjálfur, ef hann hefði keypt vinnuaflið, ef hann hefði eytt og sóað og drukkið og drabbað, þá væru þessar eigur ekki til. Ég keypti hús fyrir fimm árum á 24 millj. Það er fimmfaldað í dag. Ég tel mig ekki vera neinn verðbólgubraskara þó að ég eigi íbúðarhús, og ég er alveg jafnnær og ég var fyrir fimm árum. Það er eftir sem áður sama húsið að öðru leyti en því, að það er fimm árum eldra. Þetta er þróun peningamálanna, og það er sú flónska, sem hv. frummælandi gerir sig sekan um, að taka ekkert tillit til þeirra gífurlegu breytinga sem verða á verðgildi peninga frá því að þessi menn byrja verslun.

Ég tek líka undir það sem Albert Guðmundsson sagði varðandi Listasafn ríkisins, og ég tel að menntmrn. eigi að gefa Alþ. skýrslu um það, hvernig á því stendur að þessari gjöf er hafnað. Mér finnst lítilmannlegt af Listasafninu að þiggja aftur peningana. Ég held að það hefði þá átt að hafna öllu.

Ég ætla ekki að gera þessi mál frekar að umræðuefni. Ég vona að frú Guðrún Helgadóttir, hv. 8. landsk. þm., komi hér upp á eftir og sjái eftir þeim ummælum sem hún lét frá sér fara í sambandi við þessa fsp. sína. Það var allt í stakasta lagi að flytja slíka fsp., en að blanda þessum málum saman var ósmekklegt. Á þeim 19 þingum, sem ég hef áður setið, hef ég ekki heyrt jafnlágkúrulegt hér í þingsölum og að fara á þennan hátt með slíkt umræðuefni utan dagskrár.