19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. lauk orðum sínum á því, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar ríkisstj. fyrir 1981 væri ekki að vænta fyrr en eftir 2–3 vikur. Í Ólafslögum er það alveg skýrt, eins og margoft hefur komið hér fram, að frv. að lánsfjáráætlun fyrir næsta ár skal lagt fram með fjárlagafrv. Hæstv. ráðh. afsakaði að nokkru að hann gerði þetta ekki — sem er lagaskylda — í grg. með fjárlagafrv. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 verður lögð fyrir Alþingi í nóvemberbyrjun.“ Síðan gerðist það, að hæstv. ráðh. kom hér með örstutta skýrslu sem einungis fjallar um lítinn hluta af því verki sem er fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981.

Það er skýrt kveðið á um það í Ólafslögum hvað í því plaggi skuli vera. Þar segir að fram skuli koma í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun:

1) Heildaráætlun um opinberar framkvæmdir og fjármögnun þeirra með framlögum á fjárlögum, eigin fjármögnun opinberra fyrirtækja og lánsfé, enn fremur um framkvæmdir annarra aðila.

2) Framlög til framkvæmda atvinnuvega og einstaklinga.

3) Framlög til fjárfestingarlánasjóða.

4) Útlánaáætlanir fjárfestingarlánasjóða og fjármögnun þeirra.

5) Útlánareglur og lánskjör fjárfestingarlánasjóða.

6) Áætlun um erlendar lántökur opinberra aðila. Það er því alveg ljóst, að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að gera það endasleppt með vinnubrögð í sambandi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981. Nú er það sagt, mörgum mánuðum eftir að samkv. lagaskyldu bar að leggja fram þessa áætlun, að hún komi ekki fyrr en eftir 2–3 vikur, eftir að 1. umr. um heimild til handa ríkisstj. að framkvæma þessa áætlun fer fram og ætlast er til að þm. geti rætt þessi heimildarlög af einhverju viti.

Ég held að það sé að vísu til mikils mælst af núv. hæstv. ríkisstj. að hún virði Alþingi einhvers yfirleitt, en ég held að sjaldan hafi Alþingi verið gerð jafnmikil óvirðing og þegar slíkur umfangsmikill lagabálkur er lagður fyrir þingið og ætlast er til þess að við 1. umr. málsins sé það bara rætt blindandi að ríkisstj. sé heimilað að framkvæma áætlun sem kemur ekki fyrr en eftir 2–3 vikur, þó að lagaskylda sé að hún eigi að liggja fyrir þinginu mörgum mánuðum fyrr.

Ég geri því þá kröfu, herra forseti, fyrir hönd þingflokks Sjálfstfl., að umr. um þetta mál verði í rauninni hætt. Þó skal ég fallast á að umr. verði haldið áfram eitthvað ef hæstv. ráðh. getur upplýst þingheim um ýmis atriði sem eru óljós í sambandi við þetta mál, en að umr. verði ekki lokið fyrr en þessi áætlun liggur fyrir. (Forseti: Óskar þm. þá eftir því að umr. verði frestað nú?) Ég óska ekki sérstaklega eftir því, en ég óska eftir að umr. verði frestað þegar á eftir ræðu næsta hv. þm. og svörum ráðh. ef svo vill verkast. (Forseti: Ég skal taka það til athugunar og bera mig saman við 1. varaforseta deildarinnar og ráðh. um málið.)

Ég skal þá fara örfáum orðum um þetta mál eins og það kemur fyrir og eins og hægt er að átta sig á því miðað við þau gögn sem liggja fyrir.

Hæstv. ráðh. fer fram á það og hæstv. ríkisstj. með frv. þessu, að Alþingi veiti heimild til stórfelldrar aukinnar lántöku erlendra lána frá því sem verið hefur. Sem dæmi má nefna að í 1. gr. felst heimild til þess að taka 154% hærra erlent lán heldur en fólst í 1. gr. lánsfjárlaga fyrir s.l. ár. Hæstv. ríkisstj. er því iðin við kolann, að halda áfram að spenna bogann að þessu leyti. Og enn er líka áformað að taka stóraukin lán á innlendum lánamarkaði. Þar er hækkunin þó ekki nema 77.6%, en ljóst er að þar er farið langt fram yfir verðbreytingar. Vonandi verða þær ekki svo miklar á milli áranna 1980 og 1981.

Það er mjög athyglisvert, að erlend lántaka til opinberra framkvæmda átti að aukast um hvorki meira né minna en 95% samkv. því brotabroti af fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem þingheimur fékk við afgreiðslu fjárlaga í desember. Hím á að hækka upp í 97 milljarða gkr. úr 49, eða um 95%.

Ég vil í þessu sambandi beina spurningu til hæstv. ráðh. Í fyrra voru lánsfjárlög afgreidd seint og um síðir. Það var mikill höfuðverkur hjá hæstv. ríkisstj. að koma þeim saman. Og að síðustu var gripið til þess ráðs að lækka ýmis framkvæmdaframlög um 10% og lækka lántökur að sama skapi. Með þessu náðist fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980 saman á pappírnum. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig tókst framkvæmd á

þessu, — ef hann vill láta svo lítið að hlusta aðeins á mig, — hvernig tókst framkvæmd á lánsfjáráætlun 1981 að því leyti er áformað var, að fresta 10% framlaganna og þar með lántöku til ýmissa framkvæmda? Í 29. gr. gildandi lánsfjárlaga fyrir árið 1980 segir svo: „Fjmrh. er heimilt að lækka áformuð lánsfjármögnuð útgjöld fyrirtækja og stofnana í B-hluta“ — og enn fremur var svipuð heimild, að mig minnir, um A-hluta. Hvernig tókst að framkvæma þetta, hver varð erlend lántaka í raun? Ef ég man rétt þá átti hún að vera eitthvað í kringum 80 milljarðar gkr. Hvað varð erlend lántaka mikil í raun á árinu 1980?

Enn fremur er annað athyglisvert. Magnbreyting fjármunamyndunar milli ára er sýnd í þeirri skýrslu sem ég minntist á áðan. Þar er gert ráð fyrir stórfelldum samdrætti í fjárfestingu atvinnuveganna og stórfelldum samdrætti eða kyrrstöðu í fjárfestingu íbúðarhúsa, en hins vegar verulegri, alla vega ef tekin eru tvö ár saman, verulegri aukningu í opinberri fjárfestingu. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Á hverju byggist þetta? Er það stefna hæstv. ríkisstj. að halda þannig áfram, að atvinnuvegirnir fái sem minnst svigrúm til að fjárfesta til þess að hið opinbera geti haldið áfram útþenslustefnu sinni á þessu sviði?

Þá vil ég gera nokkrar athugasemdir við frv. sjálft. Þær verða fáar af því að ég tel í raun ókleift að ræða þetta mál af nokkurri nákvæmni eða nokkurri heildaryfirsýn nema umrædd fjárfestingar- og lánsfjáráætlun liggi fyrir. Ég vil í fyrsta lagi gera þessa athugasemd: Hæstv. ráðh. sagði, þegar hann var að tala um 12. gr., að með 12. gr. væri Byggðasjóði heimilt að taka lán allt að 1500 millj. nýkr. til að endurlána til smíði og kaupa fiskiskipa. Í greininni stendur „smíði fiskiskipa“, hæstv. ráðh. (Gripið fram í.) Hefur þskj. verið prentað upp? (Gripið fram í.) Það er þá undarleg prentvilla sem hefur orðið í þessu þskj., að það skuli allt í einu núna þurfa að bæta inn þessu orði. En ég ætla ekki að gera efnislega athugasemd við þetta mál. Ég hygg að alveg geti komið til greina að nýta þetta á þann hátt sem hæstv. ráðh. var að tala um, en þetta er einhver hluti af þeim draugagangi sem hefur verið í kringum Þórshafnarmálið af hálfu hæstv. ríkisstj., að þskj. skuli allt í einu núna vera komið inn, prentað upp, og þessu orði bætt inn í þessa grein.

Þá vil ég enn og einu sinni gera athugasemd við þá stefnu sem fram kemur í þessu frv. Í fyrsta lagi finnst mér þessar „þrátt-fyrir-ákvæði“ greinar lánsfjárlaga hálfgerð háðung fyrir Alþingi. Mér finnst miklu eðlilegra — ef menn hugsa sér t.d. að skerða framlög til Fiskveiðasjóðs — að breyta þá lögum um Fiskveiðasjóð, en ekki vera með þessi „þrátt-fyrir-ákvæði“ æ ofan í æ. Það þarf stundum að nota þessa lagatæknilegu leið, ef svo má orða það, en í svo stórum stíl sem gert hefur verið í þessu frv. að lánsfjárlögum tel ég það algera óhæfu.

Þá er annað atriði í þessu efni sem varðar stefnu. Það er að fara eins með ýmsa sjóði, skerða framlög til ýmissa sjóða, sem eiga að annast ýmsar félagslegar framkvæmdir, eins og framlög til venjulegra fjárfestingarsjóða. Ég er samþykkur þeirri stefnu að ekki sé þörf á því að ríkissjóður styðji almenna fjárfestingarsjóði eins og verið hefur, eftir að búið er að taka upp verðtryggingu á inn- og útlánum þessara sjóða. En ég tek það skýrt fram, að lækkun á ríkisútgjöldum sem stafar af slíku, á að sjálfsögðu að nota til skattalækkunar, en ekki til þess að þenja út ríkisútgjöldin að öðru leyti eins og gert hefur verið. Hér er t.d. núna verið að óska eftir því að það sé fest í lög, að þrátt fyrir ákvæði laga um erfðafjárskatt skuli framlög til Erfðafjársjóðs skert. Þetta er sjóður sem annast ýmiss konar félagslegar framkvæmdir, lánar m.a. og styður endurhæfingarstöðvar öryrkja. Þá er hæstv. ríkisstj. svo óheppin að vera núna að leita heimildar Alþingis til þess að skerða framlög ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs sem einmitt þessa dagana — það hefur margoft komið fram í fréttum — skortir sárlega fé til þess að sjá fyrir þeim verkefnum, sem honum eru ætluð af löggjafanum, og enn bætist við verkefni Bjargráðasjóðs. Hér hefur verið flutt brtt. um þetta atriði. Ég geri ráð fyrir að 1. flm. þeirrar brtt. geri grein fyrir henni, en hún er einfaldlega í því fólgin að gera Bjargráðasjóði kleift að taka að láni fé til þess að aðstoða vegna þeirra miklu tjóna, sem orðið hafa vegna óveðurs sem gengið hefur yfir landið nú að undanförnu, eins og menn vita. En það sýnir bara hvað það er fráleitur hugsunarháttur hjá hæstv. ríkisstj. að líta á þessa sjóði, Erfðasjóð og Bjargráðasjóð, eins og einhverja fjárfestingarlánasjóði sem sjálfsagt sé að skera niður á alla enda og kanta. Til viðbótar þessu er farið fram á að skerða framlög ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs þroskaheftra og þar fram eftir götunum, þannig að þetta er dæmalaus stefna.

Þá vil ég víkja spurningu að hæstv. ráðh. út af ákvæðum 9. gr. Þar er gert ráð fyrir að Framkvæmdasjóði sé heimilað að hafa meðalgöngu um útvegun 1.7 milljarða gkr. til Framleiðsluráðs landbúnaðarins vegna greiðslu útflutningsbóta verðlagsársins 1979–1980. Hér er að sjálfsögðu um útflutningsbætur að ræða sem eru til viðbótar 10% útflutningsbótunum sem eru á fjárlögum. Spurning mín í sambandi við þetta er: Er þetta fullnaðargreiðsla þannig að bændur fái verðlagsgrundvallarverð fyrir allar útfluttar landbúnaðarvörur? Eða ef svo er ekki, hversu mikið greiða bændur í raun með útflutningi þessara búvara, ef þeir ættu að fá fullt verðlagsgrundvallarverð? Sem sagt, hvernig er þetta dæmi?

Þá vil ég vekja athygli á því í sambandi við 27. gr., að þar viðurkennir hæstv. ráðh. — með því að leggja fram þetta frv. — það sem ég sagði hér við umr. um afgreiðslu fjárlaga í hv. deild fyrir jól, að það voru reikningskúnstir þegar strikuð voru út lán til þess að borga af lánum sem voru tekin vegna Kröfluvirkjunar og vegna byggðalína. Hér er óskað eftir heimildum til þess að taka lán til að greiða þessar afborganir. Að sjálfsögðu hefði átt að hafa þessi lán, sem tekin eru þarna, inni í heildaryfirliti um lántöku 1981, þannig að þar sæist rétt og eðlileg lántaka og hægt væri að bera lántökuna í ár saman við lántökur fyrri ára.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta frv. að sinni, enda ókleift að ræða það í heild sinni, eins og ég sagði áðan, vegna þess að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun liggur enn ekki fyrir. Ég ítreka þær óskir mínar að umr. verði frestað þegar fulltrúar þingflokka hafa tjáð sig um þetta mál og hæstv. ráðh. svarað.