19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2411 í B-deild Alþingistíðinda. (2584)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef þegar gert grein fyrir því, hvers vegna skýrsla um lánsfjáráætlun er ekki samferða hér inni í þingi frv. til lánsfjárlaga. Ég tel að ekki sé hægt að draga úr hófi fram að afgreiða lánsfjárlög, vegna þess að í þeim eru ýmsar heimildir til stofnana og fyrirtækja, einkum á vegum opinberra aðila, sem þarf að nota innan tíðar. Það getur verið mjög óþægilegt að draga afgreiðslu þessa máls úr hófi fram. En reynslan er sú, vegna þess hversu þetta er margþætt mál, að nefndir þingsins þurfa alllangan tíma til að yfirfara efni þess og leita umsagna umeinstök atriði í frv. Það getur því skipt verulega miklu máli um afgreiðslutíma frv., þ.e. hvenær það verður endanlega afgreitt frá þinginu, hvort því er nú vísað til nefndar og tíminn næstu viku til 10 daga notaður til þess að kanna ýmsar hliðar málsins í nefnd, eða hvort menn bíða með málið óafgreitt þangað til lánsfjáráætlunin sjálf er lögð hér fram í þinginu.

Ég tel að það séu óhjákvæmileg vinnubrögð, að þessu máli sé nú vísað til nefndar, en eins og ég tók fram áðan er ekki ástæða til að láta 2. umr. um málið fara fram fyrr en skýrslan um lánsfjáráætlun hefur verið lögð hér fram. Hins vegar álít ég að með þeim gögnum, sem fram komu í bráðabirgðaskýrslunni sem lögð var fram fyrir jól, og með því frv., sem hér er lagt fram, sé nefndinni ekkert að vanbúnaði að taka þessi mál til meðferðar, enda þótt hún hafi ekki endanlegar greinargerðir Seðlabankans um peningamagn í umferð og annað þess háttar. Ég held að það sé ekkert annað en fyrirsláttur að nota sér það, hversu mjög hefur dregist vegna annríkis í Seðlabankanum að ganga frá þessum málum þar. Ég álít að það sé ekki stjórnarandstöðunni til sóma að vera að reyna að tefja framgang þessa máls og koma af stað vandræðum og vandamálum með því að neita að málinu sé vísað til nefndar. Ef hv. þm. stjórnarandstöðunnar óska ekki eftir að segja fleira um þetta frv. til lánsfjárlaga að svo stöddu, þá er þeim auðvitað í lófa lagið að bíða með það, sem þeir vilja segja, þangað til 2. umr. fer fram. Þeir verða auðvitað að gera það upp við sig hvað þeir vilja segja margt um þetta mál við 1. umr. og hvort þeir láta nægja það sem þeir þegar hafa sagt. Hins vegar vil ég taka það fram, að það er í sjálfu sér ekkert atriði að afgreiða þetta mál til nefndar í dag. Við getum vissulega beðið með það fram í næstu viku, því að það mun vafalaust engu breyta um vinnubrögð hvort málinu er vísað til nefndar í dag eða hvort það verður eftir helgina.

Ég hef móttekið hér nokkrar fsp. frá hv. þm. Lárusi Jónssyni og hefði kosið að svara þeim frekar á næsta fundi, þar sem ég hef ekki öll þau gögn í höndum sem hann leitaði upplýsinga um. Ég held því að eðlilegast sé að umr. verði nú frestað. En að menn láti síðan málið liggja hér um langt skeið óafgreitt til nefndar að tilmælum hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, það er auðvitað alveg af og frá og ekki til neins annars en að flækja málin og reyna að tryggja að lánsfjáráætlunin og þetta frv., sem hér er til umr., verði afgreitt sem allra seinast frá þinginu. Ég sé ekki að neinn sé bættur með því. Og ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að fjh.- og viðskn. Ed. taki málið til meðferðar. Það eru fjöldamargir þættir þessa máls, sem liggja alveg skýrt fyrir, og satt að segja ákaflega lítið sem vantar inn í myndina. Fyrst og fremst, eins og ég segi, vantar endanlegar upplýsingar frá Framkvæmdastofnun um útlán fjárfestingarsjóðanna. Ég geri ekki ráð fyrir því að erlend lántaka Framkvæmdasjóðs muni verða önnur en hér er gerð till. um. Hins vegar er ekki ólíklegt að það mætti fá þessi plögg til bráðabirgða og leggja þau fram í nefnd áður en þau koma fram í formlegu skýrslunni, vegna þess að við verðum að sjálfsögðu að hafa þar öll gögn tiltæk og þar af leiðandi geta sumir þættir verið nú þegar tilbúnir, en aðrir ekki. Eins er það auðvitað fjarstæða að ekki sé hægt að fjalla um fjöldamarga þætti þessa lánsfjárlagafrv. án þess að vita um áform Seðlabankans um peningamagn í umferð á næstu mánuðum. Það er auðvitað bara fyrirsláttur og ekkert annað.

Ég mælist því eindregið til þess, herra forseti, að þegar þar að kemur fái þetta mál eðlilega afgreiðslu hér í þinginu og þegar ekki vilja fleiri ræða málið, þá verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn. með eðlilegum hætti.