19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (2585)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Sem formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar vildi ég láta koma fram þá ósk, að æskilegt væri að nefndin gæti fengið þetta frv. fljótlega til meðferðar. Reynslan hefur sýnt að meðferð fjh.- og viðskn. beggja deilda þingsins á frumvörpum af þessu tagi er mikið vandaverk og tekur ætíð þó nokkurn tíma. Þar fer fram mjög ítarleg skoðun á þeim gögnum sem liggja að baki frv., og kallaðir eru til viðræðna þeir sérfræðingar og fulltrúar stofnana eða annarra aðila sem hlut eiga að máli varðandi frv. til lánsfjárlaga. Ég mun beita mér fyrir því sem formaður nefndarinnar, að í meðferð hennar verði aflað allra þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegt er að hafa fyrir endanlega afgreiðslu málsins, og stuðla þannig að því að málið fái fullgilda meðferð hér í þinginu. Ég held að reynslan sýni okkur það, að við almenna 1. umr. um málið í fyrri deild hafi menn ekki við höndina öll þau gögn eða þá vitneskju sem nauðsynleg er til þess að ítarleg umfjöllun geti farið fram um málið. Venjan er sú, að við störf nefndanna afla menn sér þeirra gagna. Það er því oftast nær 2. umr. málsins sem er sú sem mestu máli skiptir. Ég vildi þess vegna beina því til hv. þm. þessarar deildar og hæstv. forseta, að að loknum umr. um málið, t.d. n.k. mánudag eða svo, fái nefndin málið til meðferðar svo að hún geti lagt drög að því að það fái fullgilda efnislega meðferð í deildinni.