19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

Umræður utan dagskrár

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er kannske ekki mikil ástæða til að fara að deila við hæstv. forsrh., enda ætla ég ekki að gera það. Ég vil aðeins þakka honum fyrir undirtektir hans í þessu máli. Ég var ekki að gagnrýna hæstv. ríkisstj., heldur var ég aðeins að nefna það, að mér hefði fundist þessi viðbrögð vera mjög ánægjuleg og jákvæð eftir að hafa hlustað á það sem mér fannst koma fram hjá hæstv. félmrh. áður og hæstv. forsrh. var hér að svara fyrir.

Það var fyrst og fremst það sem ég vildi láta koma fram, að það er ekki hægt að sýna fyrirhyggju í tilfellum eins og áttu sér stað í þessu veðri. Það eru auðvitað alltaf einhver atriði sem má segja að hefði verið hægt að koma í veg fyrir, ég get tekið undir það, eins og varðandi fok bárujárns af þökum eða þess háttar atvik sem hafa endurtekið sig nú eins og gerðist 1973. Þetta er alveg rétt. Það merkilega við þetta er það, að þar virðist vera einhver nýtískutækni í hönnun þaka á húsum á Íslandi, að þau skuli fjúka nú af þessum nýju, dýru og íburðarmiklu húsum, en hins vegar sitja gömlu bárujárnsþökin, sem tíðkuðust hér áður fyrr, sem fastast á sínum stað og haggast ekki. Þetta er kannske mál fyrir sérfræðinga sem hanna þök húsa hér á Íslandi að taka til athugunar, ég get alveg tekið undir það. En þarna er áreiðanlega frekar um að kenna einhverri tæknilegri nýjung sem ekki virðist standast íslenskt veðurfar, a.m.k. ekki þegar það gerist verst. Ég vildi aðeins láta það koma fram, að ég var hreint ekki að gagnrýna það að menn væru hvattir til fyrirhyggju, heldur einungis að benda á það, að í mörgum þessum tilvikum og kannske fyrst og fremst hjá þeim sem eiga um sárast að binda eftir þessar hamfarir í veðrinu, þá eru það einmitt þeir sem hafa ekki haft möguleika á því að koma í veg fyrir þann skaða sem orðið hefur. Ég vildi aðeins ítreka þetta.