19.02.1981
Neðri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég hóf þessa umr. í gær vegna þess að mér þótti nauðsynlegt að gera grein fyrir afstöðu minni í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins og svo hins vegar til að beina ákveðnum fyrirspurnum til ráðh. um afstöðu hæstv. ríkisstj. til málsins. Umr. hafa hins vegar teygst í allar áttir, án þess að ég gæfi nokkurt tilefni til þess, og nú síðast setur hæstv. iðnrh. á langa ræðu um innlendan skipasmíðaiðnað. Í sjálfu sér er það gagnlegt mál og nauðsynlegt að ræða það hér á hv. Alþingi, en ég get ekki séð að það eigi sérstaklega heima við þessa umr.

Hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni að hann teldi nauðsynlegt að upplýsa hvort gengið yrði á fjárframlög til innlends skipasmíðaiðnaðar með fyrirhugaðri ráðstöfun á margnefndum 1500 millj. Mér dettur í hug að spyrja hvort þeir gætu ekki ræðst við í rólegheitum, hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh., vita hvort þeir gætu ekki sameiginlega komist að niðurstöðu um það, hvort svo muni verða.

Hæstv. fjmrh. lýsti því hér afdráttarlaust yfir í ræðu sinni áðan að það yrði ekki gengið á fjárframlög til innlends skipasmíðaiðnaðar með þessu móti.

Þar sem ég hóf þessa umr. í gær má ekki minna vera en ég þakki fyrir upplýsingar sem komið hafa hér fram, þótt magrar séu og engan veginn fullnægjandi. En um leið tangar mig til að draga saman það sem mér sýnist hafa komið fram í umr., en það er í hnotskurn þetta:

Ríkisstj. telur sig engin tilmæli hafa sent inn á fund Framkvæmdastofnunar ríkisins í fyrradag, málin hafi aðeins verið rædd í ríkisstj. Þar virðist mér því vera á ferðinni misskilningur á milli stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar og ríkisstj. Forstjóri stofnunarinnar, hv. þm. Sverrir Hermannsson, greindi í gær í ræðu sinni frá samtali sínu við hæstv. sjútvrh. og hvernig hann hefði flutt boð ráðh. inn á fund stjórnar stofnunarinnar. Hæstv. ráðh. staðfesti allt sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði, nema hvað hann telur að þm. hafi lagt fulldjúpan skilning í orð sín, hvað sem það kann að merkja. Ég átta mig ekki alveg á því.

Stjórn stofnunarinnar taldi sig fá tilmæli frá ríkisstj. inn á fundinn og á því byggjum við hv. þm. Matthías Bjarnason grg. með atkv. okkar, en þá grg. las ég hér upp í gær. Þessu er nú mótmælt. Ég ætla ekki að gera neitt mál úr þessu ef ég fæ þær upplýsingar sem ég hef beðið um. Þær eru einfaldlega þessar: Hver er afstaða hæstv. ríkisstj. til þeirrar lausnar sem ákveðin var á fundi Framkvæmdastofnunarinnar í fyrradag?

Nú vil ég taka það skýrt fram, þó að ég ætti ekki að þurfa þess, að ég er lítið fyrir að taka við tilmætum frá hæstv. ríkisstj. En í þessu tilviki vil ég fá það alveg skýrt fram, hvort ríkisstj. styður þá lausn málsins, sem samþykkt var í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar í fyrradag, eða hvort hún er henni andvíg. Þetta vil ég fá fram vegna þess að ríkisstj. verður að bera sína fullu ábyrgð á þessu vandræðamáli öllu. Eftir að allt það er komið í ljós, sem dregið hefur verið fram í þessu máli, getur hún ekki varpað endanlegri afgreiðstu þess yfir á Framkvæmdastofnun ríkisins og kennt henni svo um mistökin á eftir. Þess vegna spyr ég enn og aftur: Hver er afstaða ráðh.? Hæstv. sjútvrh. og fjmrh. hafa tjáð sig og virðast styðja þessa lausn. Hæstv. iðnrh. vill hins vegar endurmeta málið. Hvað með afstöðu hinna? Hæstv. forsrh. mun hafa sagt í umr. í hv. Ed í gær að hér hafi átt sér stað alvarleg mistök. Hver er hans afstaða? Ég vil gjarnan fá að heyra hana.

Fleira hefur komið fram í þessum umr. Hæstv. fjmrh. lýsti þeirri skoðun sinni, sem ég drap reyndar á áðan, að af margnefndum 1500 millj., sem Byggðasjóði hefur verið faldar til ráðstöfunar, sé eðlilegt að ráðstafa til þessara kaupa jafnvirði 2.8 millj. norskra kr., 10% af kaupverði togarans. Og ég spyr: Er þetta afstaða hæstv. ríkisstj. í heild eða er þetta einhver einkaskoðun hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. Mér þykir mjög mikilvægt að fá þetta hér fram.

Hæstv. fjmrh. lýsti því líka yfir hér í gær, væntanlega fyrir hönd ríkisstj., þó veit ég það ekki, að ríkisstj. ógildi ekki það sem stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur ákveðið. Ég spyr og þá hv. þm. Eggert Haukdal, formann stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar: Eru þar með vonir stjórnarformannsins brostnar um að ríkisstj. stöðvi þetta mál? Þýðir þessi yfirlýsing hæstv. fjmrh. að málinu verði ekki breytt? Það má kannske segja að ég hafi fengið svar við spurningu minni með yfirlýsingu ráðh. Þó efast ég um að nokkuð sé að marka það. En það kemur í ljós.

Um frumkvæði í málinu, hver hafi átt frumkvæðið, fæst í sjálfu sér engin niðurstaða og skiptir kannske ekki meginmáli úr því sem komið er. En hæstv. sjútvrh. sýnist vilja halda því opnu hver hafi átt þarna stærstan hlut. Kannske væri hægt að nota það síðar ef vel skyldi greiðast úr þessu öllu saman, þá er gott að hafa ekki fullyrt of mikið um að hafa ekki átt neinn hlut að máli. (Sjútvrh.: Sagði ég að ég hafi ekki átt neinn hlut að máli?) Nei, ég var ekki að segja það. Ég var að segja að hæstv. sjútvrh. virtist vilja halda því opnu hver hefði átt stærstan hlutinn.

Stjórnarformaður Framkvæmdastofnunarinnar segir í viðtali við Morgunblaðið í fyrradag að málið sé í sínum augum mjög stórt mál, alla vega milljónfalt Gervasonimál. Það er nú ekkert annað. Milljónfalt Gervasoni-mál! Út frá þessum ummætum geta menn reynt að áætla þungann. Ég hef á tilfinningunni, að hann sé gífurlegur, og miða þá við hvað stuðningur við ríkisstj. vegur mikið nú á tímum. En ég veit ekki hver mælieiningin á að vera eða þá hvort atkv. einstakra stjórnarliða hafi yfirleitt sama vægi. Atkv. hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur vó t.d. einn Gervasoni hér um áramótin, — kannske einn kaffibolla í viðbót, ég veit það ekki. (Gripið fram í: Hún hefur neitað því.) Hún hefur neitað því, já. En samkv. mínum skilningi á orðum hv. þm. Eggerts Haukdals vegur hans atkv. t.d. eina milljón slíkra. En eins og ég segi: Þetta er bara svo slæm mælieining og þess vegna spurningin hvort ekki sé hægt að færa það til peningaverðs, t.d. hvort einn liðhlaupi samsvari 1 millj. gkr. Það gæti út af fyrir sig kannske auðveldað hæstv. ríkisstj. að meta hversu langt hún getur gengið til þess að kaupa stjórnarliða til fylgis við einstök mál.

Menn halda sjálfsagt áfram að deila um feril og framgang þessa máls. Eins og ég sagði áðan var tilgangur minn með því að hefja umr. um málið að fá hér fram hver væri skoðun ríkisstj. Ég hef ekki fengið ákveðin svör. Ráðh. virðast ekki á sama máli og meira að segja hv. þm. Norðurl. e. tala ekki alveg sömu tungu allir, en þeir ætla þó að standa við sína undirskrift og það er meira en aðrir tel~a sig þurfa að gera nú á þessum síðustu dögum.

Í umr. í gær komu tvö atriði mér sérstaklega á óvart. Í fyrsta lagi þær upplýsingar hv. þm. Eggerts Haukdals, stjórnarformanns Framkvæmdastofnunarinnar, að kaupsamningur hefði ekki verið gerður. Hann sagði mér eftir umr. að hann hefði átt við að kaupsamningur hefði ekki verið undirritaður. Ég geri engan mun á því, óundirritaður samningur er auðvitað enginn samningur, þannig að það er alveg sama hvort heldur hann meinti. Mér er spurn: Hvaða þýðingu hefur þetta í málinu, ef það er rétt hjá hv. stjórnarformanni, að enginn samningur hafi verið undirritaður? Og hvernig í ósköpunum stendur á því, að starfsmenn Framkvæmdastofnunarinnar, framkvæmdastjóri lánadeildar og einhver sem skrifar svo vel að ég get ekki lesið nafnið hans, skrifa undir yfirlýsingu sem er byggð á samningi frá 19. sept. sem ég hef hér líka í höndunum, en hann er að vísu óundirritaður, þetta ljósrit sem ég er með, — hvernig stendur á því, að þeir gefa yfirlýsingu slíka sem þessa um að þeir muni greiða 10% af kaupverðinu eða „deponera“ því? Hvernig stendur á því, að svona yfirlýsing er gefin út ef ekki er til undirritaður samningur? Hvar var stjórnarformaðurinn þegar þetta var gert? Mér finnst mjög mikilvægt að fá upplýst hvort þetta er virkilega svona, að ekki sé til undirritaður kaupsamningur, vegna þess m.a. að það hlýtur að hafa áhrif á skaðabótaskylduna ef kaupunum yrði rift. Það er alveg útilokað annað.

Hitt atriðið, sem kom mér líka á óvart, var sú fullyrðing sem ég held að hafi fyrst komið fram í ræðu hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að engin lagaheimild væri fyrir því að ríkisábyrgðasjóður tæki á sig 90% ábyrgð. Mér finnst að fsp. hv. þm. Halldórs Blöndals um þetta atriði hafi ekki verið svarað á fullnægjandi hátt, hvort frv. verði lagt fyrir þingið. Hæstv. fjmrh. ræddi þetta mál að vísu lítillega áðan og greindi frá bréfi þar sem væri beinlínis tekið fram að ábyrgðin yrði 90%, en hann bætir svo við að þetta sé háð samþykki Alþingis. Ég skil það svo, að það sé skoðun hæstv. fjmrh. að heimild sé ekki fyrir þessu í lögum, það verði að leita hennar á hv. Alþingi. Og ég spyr þá enn: Hvernig í ósköpunum stendur á því, að það er ekki búið að þessu? Málið er komið alveg á lokastig og reyndar fram yfir það. Mér skilst að lokafrestur hafi verið í gær um það, hvort skipið kæmi til landsins eða ekki. Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. er ekki búin að kanna hér á Alþingi hvort vilji sé fyrir þessu? Þetta er ein af forsendunum fyrir samþykktinni sem gerð er í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar í fyrradag. Nú vita menn ekkert hvort meiri hluti er fyrir þessari leið hér á hv. Alþingi.

Þessar umr. hafa sem sagt ekki leitt til niðurstöðu í þessu máli enn sem komið er. Og ég ítreka það, að ef ekkert kemur frekar fram við þessar umr. mun ég halda mér við þá kröfu mína að það verði kallaður saman fundur að nýju í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins þar sem þetta mál verði tekið upp. Ég hef kannske vafasaman rétt til að gera slíka kröfu þar sem ég er varamaður í stjórn stofnunarinnar, en mér er kunnugt um að þessi krafa hefur einnig verið sett fram við umr. í hv. Ed. í dag.

Ég vísa aftur til grg. okkar hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Þar koma fram ákveðnar forsendur fyrir afstöðu okkar. Eins og þetta mál lítur út núna eru þessar forsendur brostnar. Þær eru brostnar ef það er óvíst hvort meiri hluti er fyrir því á hv. Alþingi að ríkisábyrgðasjóður taki á sig 90% ábyrgðarinnar. Þær eru líka brostnar ef í ríkisstj. er ekki stuðningur við málið nema þá hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. Hinir ráðh. geta ekki haft frjálsar hendur í þessu máli, það kemur ekki til greina. Síðast en ekki síst sýnist mér að forsendur fyrir okkar atkvæði séu líka brostnar ef aldrei hefur verið gerður neinn kaupsamningur. Svona einfalt er þetta.Ég mun ítreka þá kröfu mína, að mál þetta verði tekið upp að nýju í stjórn stofnunarinnar, og ég veit að til þess hef ég a.m.k. stuðning hæstv. iðnrh.