19.02.1981
Neðri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna óskar forseta um að ræðumenn stytti mál sitt vil ég taka það fram að ég talaði um þetta mál í fimm mínútur í gær. Ég vil líka benda á það, sem mér finnst heldur óviðurkvæmilegt og þurfa að breytast í þingsköpum, að hæstv. ráðh. geta skotið sér inn á mælendaskrá hvenær sem er. Þeir eru búnir að tala hér lengi og margir í dag og hafa kannske dregið þessa umr. meira á langinn er flestir aðrir.

Það verður að segjast eins og er, að auðvitað er þessi umr. búin að taka allt of langan tíma. Hún er búin að taka lungann úr tveimur vinnudögum á Alþingi, utandagskrárumræðan um kaup á togara til Þórshafnar á Langanesi.

Þessi ræðustóll hefur minnt mig talsvert þessa tvo daga á skriftastól í kaþólskri kirkju og skriftafaðirinn er þjóðin öll. Þingmenn hafa gengið hér upp í stólinn og verið að afsaka gjörðir sínar, og síðan hafa aðrir komið sem þóst hafa fengið höggstað á einhverjum öðrum þm. En líklega eru ferðirnar í skriftastólinn af þeim toga spunnar að þm. hafi svona ríka réttlætiskennd. Varla eru það kjördæmissjónarmiðin sem ráða göngu þeirra hér upp í stólinn. Alla vega ekki hv. þm. Vestf.

Ég heyrði einu sinni málshátt, afrískan, sem var í þá veru, að þegar fílarnir berðust væru það maurarnir sem meiddust. Menn geta lagt hvaða líkingu sem þeir vilja í þennan málshátt, en ansi er ég smeykur um að skilningur þeirra manna, sem hæst hafa haft um þessi togarakaup, á högum fólksins í þessu landi sé ekki ýkjamikill.

Það hefur oft verið sagt um Þórshöfn og Raufarhöfn að þau byggðarlög væru á mörkum hins byggilega heims. Þetta er að mörgu leyti rétt, bæði af veðurfarslegum og landfræðilegum ástæðum. Hins vegar hafa þessi byggðarlög á undanförnum árum og áratugum lagt óhemjufjárhæðir í þjóðarbúið. Er þess skemmst að minnast þegar spekúlantar úr Reykjavík komu til Raufarhafnar.á síldarárum og hirtu þar milljónir á milljónir ofan og fluttu brott úr byggðarlaginu, sem sat síðan eftir og var nánast gjaldþrota og hefur ekki borið þess bætur enn í dag.

Menn hafa rætt um að það ætti að flytja alla íbúa þessara byggðarlaga á brott. Sumir hafa talað um það í fyllstu alvöru. Það hafa verið gerðir útreikningar á því, hvað það kostar að flytja íbúa Þórshafnar og Raufarhafnar á brott og koma þeim fyrir annars staðar. Það mundi kosta þjóðarbúið býsna miklar fjárhæðir ef til slíkra ráða yrði gripið og miklu hærri fjárhæðir en við erum að tala um þegar við erum að ræða um endurnýjun á báta- eða togaraflota þessa fólks.

Ég held að fólkið, sem býr við allan þann lúxus sem þéttbýlið sunnan- og suðvestanlands og víða á Norðurlandi og Vestfjörðum veitir, hafi ákaflega litla hugmynd um þá lífsbaráttu sem á sér stað á þessum slóðum. Ég vil minna á það, að ekki óvitlausari menn en Norðmenn hafa lagt mikið upp úr svokallaðri Norður-Noregsáætlun til að halda við byggðum. Þeir hafa ekki talið eftir sér að greiða umtalsverðar fjárhæðir af almannafé til að halda byggðunum uppi, til að halda uppi mannlífi á stöðum þar sem erfitt er að búa og þar sem ekki er hægt að sækja fiskinn í fjarðarkjaftinn, eins og gert er t.d. á Vestfjörðum.

Það skal hins vegar ekki rengt, að í þessu máli hafa verið gerð mörg mistök. Ég er búinn að rifja þau upp og reifa þau eins og þau hafa lítið út frá mínum sjónarhóli. Ég hef nefnt þrjár óútfylltar ávísanir og ég hef nefnt sambandsleysi. Ég er alfarið þeirrar skoðunar, að vilji menn leita upphafs mistakanna eru þau falin í því þegar ríkisstj. gefur út heimildina til togarakaupanna 1. ágúst án nokkurra skilyrða.

Ég er alveg staðfastlega þeirrar skoðunar einnig, að það sé nauðsynlegt að gera nákvæma og glögga skýrslu um allan gang þessa máls, þó ekki væri til annars en læra af því.

En ég vil vegna þessarar umr. minna menn á það, hvað fram undan er í togarakaupamálum hér á Íslandi. Ég vona þessarar stofnunar vegna að það fari ekki jafnmikill tími í umr. um þau togarakaup og farið hefur í umr. um kaup á togara til Þórshafnar. Skyldi einhver af þm. annarra kjördæma standa upp hér á Alþingi og gera einhverjar aths. við togarasmíð sem er hafin fyrir Hólmavík, þar sem hvorki er mannafli, frystihús né hafnaraðstaða? Það er byrjað að smíða togara sem mun kosta um 6 milljarða gkr. þegar upp er staðið. Hefur þessu verið mótmælt? O, sussu nei. Hvað um togara til Skagastrandar sem fyrirhugaður er eða togara til Ísafjarðar? Það er auðveldara að gera út togara á Ísafirði, það dregur enginn í efa, og þeir hafa meiri fjármuni til að borga sína togara, enda er byggð ekki að fara á hausinn þar. Þar rísa núna stærstu byggingar á Íslandi. (MB: Þau eru öll í skilum þessi lán.) Þau eru ekki öll í skilum. Því var lýst hér úr ræðustól í dag, að jafnvel á Vestfjörðum væru togaralán í vanskilum. (MB: Það er annað mál.)

Við getum líka spurt sjálfa okkur að því, hve margir togarar voru keyptir hingað til landsins á síðasta ári. Getur einhver svarað því? Urðu einhverjar umræður um þau kaup? Ég minnist þess ekki.

Hins vegar vil ég segja það, að því hefur enn ekki verið svarað, sem ég talaði um í gær, hvenær sú breyting verður á þessum togarakaupum fyrir Þórshafnarmenn að það er hætt við að kaupa það skip sem þm. kjördæmisins lögðu til að yrði keypt upphaflega með bréfi sínu, þ.e. skip sem átti að kosta röskan 1 milljarð kr. og um 11/2 milljarð með nauðsynlegum breytingum. Það liggur ljóst fyrir að 4. sept. er þessi skilningur enn á ferðinni hjá kaupendum togarans og þeim sem eru aðstandendur málsins því þá er gerður bráðabirgðasamningur um kaup á slíkum togara úti í Frakklandi, systurskip Hólmatinds á Eskifirði sem ágætur útgerðarmaður þar taldi nægilega gott skip fyrir sig. Sams konar skip hefur Einar Guðfinnsson á Bolungarvík áhuga á að kaupa núna og Valdimar Indriðason á Akranesi, og hafa þeir ekki verið taldir lakir útgerðarmenn. Svar við þessari spurningu hefur ekki fengist. Menn hafa hætt við þetta og farið út í ævintýri sem kostar 3.5 milljarða kr. og á að mínu mati eftir að kosta meira. — Ég ætla einhvern tíma að fá svar við þessari spurningu. Ég er harður á því.

Það kemur líka fram í gögnum, sem ég hef í mínum höndum, að í þennan togara, sem um ræðir, er gert ráð fyrir tækjabúnaði á teikningum, sem þó hefur ekki verið keyptur, sem gerir hann að fullkomnu verksmiðjuskipi. Eins og ég sagði við umr. í gær er þá auðvitað grundvöllurinn dottinn undan togarakaupunum, einfaldlega vegna þess að þá er ekki um að ræða neina atvinnuaukningu í landi — ekki nokkra. Þar er gert ráð fyrir því, að um borð í skipið fari samkvæmt þessum teikningum tvö stykki rækjuflokkunarvélar, færibönd fyrir rækjuna, fiskvinnsluvélar af gerðinni Baader-410 og Baader-189. Vonandi verður ekkert af þessu.

Ég harma það eins og margir hversu mörg mistök hafa verið gerð í þessu máli. En ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni, að þrátt fyrir allt ruglið í ýmsum mönnum, sem hér hafa komið upp og lýst yfir þessu hörmulega óláni, þessari þjóðarógæfu sem nú er að ganga yfir okkur, sé rétt og sanngjarnt að þetta fólk fái atvinnutæki til að bæta atvinnuástandið þar sem er árstíðabundið atvinnuleysi, þar sem fólk á í erfiðleikum með að sækja sjó vegna þess að það er langt á miðin og þarna eru veður býsna válynd. Ég held að menn ættu að draga úr þeim skömmum og yfirlýsingum, sem hér hafa flogið í allar áttir, og m.a. hæstv. forseti hefur orðið grimmilega fyrir og fleiri ágætir menn, sem raunverulega eigi ekki nokkra minnstu sök í þessu máli — ekki nokkra. Það er algjör fjarstæða. Þessir menn bera ekki nokkra sök í þessu máli. Sökun felst í mistökum og sambandsleysi. Þar er sökin í þessu máli. Og verði það okkur til lærdóms í sambandi við næstu togarakaup, sem ég hef m.a. nefnt núna, er þó nokkrum árangri náð.