03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Sjútvn. þessar hv. d. hefur fjallað um frv. til t um tímabundið olíugjald til fiskiskipa og varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n., fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl., skilar séráliti, en minni hl. n. skilar séráliti þar sem formaður n. er frsm.

Í nál. meiri hl. segir að þetta sé þriðja frv. um tímabundið olíugjald sem lagt er fram á Alþ. á þessu ári. Fyrsta frv. var lagt fram í jan. og þar var olíugjald ákveðið 5%, en í því frv., sem núv. hæstv. sjútvrh. lagði fram í marsmánuði og afgreitt var fyrri hluta aprílmánaðar, var olíugjaldið lækkaði um 2.5%. Ein af höfuðástæðum þess, að sú lækkun var gerð á miðri vertíð á olíugjaldinu, var að ráðh. taldi að óhætt væri að lækka þetta gjald um helming þar sem skráð gasolíuverð á Rotterdammarkaði hafði þá um nokkurt skeið farið lækkandi. Við, sem stóðum að nál. á þskj. 281 um þetta mál, vöruðum við að breyta gjaldinu þann tíma sem eftir var af því fiskverðstímabili, því að við sáum engin teikn á lofti sem gáfu til kynna að olíuverð færi lækkandi á því tímabili, enda kom á daginn að breyting varð ekki á olíuverði til lækkunar þetta fiskverðlagstímabil.

Hæstv. ráðh. sagði í umr. um frv. sitt í vetur, þegar hann fylgdi því úr hlaði, orðrétt:

„Annars vil ég segja það um olíugjaldið almennt og útgerðina, að ég hef miklar efasemdir um olíugjaldið. Til þess var gripið sem eins konar nauðvarnar vegna mjög hækkandi olíuverðs. Það leggst ofan á fiskverð. Misskilningur er víða að þessu leyti. Það er greitt beint af fiskkaupendum til að standa undir hluta af hækkandi olíukostnaði fiskiskipa. En það er greitt í hlutfalli við aflamagn. Það er svo og svo mikið á hvert kg af fiski sem veiðist. Vitanlega er olíugjaldið alls ekki í réttu hlutfalli við aflamagn. Þetta hefur því valdið mjög mikilli tortryggni víða, sem kemur m.a. fram í þeirri deilu sem nú er orðin á Ísafirði, þar sem olíugjaldið er á oddinum haft.“

Hæstv. ráðh. taldi nauðsyn bera til þess að leysa deiluna á Ísafirði og undir það var tekið af varaformanni sjútvn., að með því að tefja fyrir málinu væri í raun og veru verið að koma í veg fyrir að samkomulag næðist. Varaformaður sjútvn., eins og hann var á því þingi, var og formaður þingflokks Framsfl. Nú spyr ég: Þegar olíugjald á samkv. þessu frv. að hækka um hvorki meira eða minna en 200%, telur þá hæstv. sjútvrh. að það muni verða til þess að bæta samkomulag á milli sjómanna og útvegsmanna? Telur hann þá leiðina að hækka olíugjald um 200% verða til að bæta samkomulag á milli útvegsmanna og sjómanna?

Ég er undrandi á þeirri skoðun hæstv. ráðh., en hann segir 31. mars í vetur í ræðu:

„Ég er á þeirri skoðun að finna eigi aðrar leiðir í sambandi við þennan olíukostnað. Ég vísa til viðræðna, sem eru í gangi og hófust að tilstilli fyrrv. sjútvrh., um breytingu á þessu sviði. Þar munu vera hugmyndir um að olía verði greidd af óskiptu, en þó þannig að greitt verði fyrir ákveðinn lítrafjölda svo að sveiflur í verði valdi ekki verulegri röskun á fiskverði til skipta. Sýnist mér mjög æskilegt að vinna frekar að samkomulagi eftir slíkum leiðum.“

Nýlega hefur hann látið hafa eftir sér í blöðum, og sagði raunar einnig hér í þingi, að hann væri á móti olíugjaldinu eins og það er nú byggt upp, hann væri á móti eigin frv. Þetta er að mörgu leyti torskilið.

Hins vegar vil ég minna hæstv. ráðh. á að olíugjald var til á dögum fyrri vinstri stjórnar og áfram hélt þetta olíugjald eftir að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar tók við, en það var illa séð af sjómönnum og það var einnig illa séð af útgerðarmönnum. Það var tekið visst hlutfall af útflutningsverði sjávarafurða og lagt í olíusjóð og menn fengu svo aftur niðurgreiðslu á olíu eftir því sem þeir eyddu. En samkvæmt því, sem nú er í gildi varðandi olíuverð, fá útgerðarmenn úr þessum sjóði það sama og þeir leggja í hann þar sem olíugjaldið leggst ofan á aflaverðmæti og fiskkaupandinn borgar mönnum það.

Ég hygg að það verði erfitt að stíga skref aftur til baka til þess tíma sem olíugjaldið var lagt á með fyrri aðferðinni, því að bæði sjómenn og útgerðarmenn höfnuðu alfarið þessu olíugjaldi eins og það var lagt á og það var lagt niður með öllu þegar sjóðakerfið var stokkað upp í ársbyrjun 1976. Ég segi fyrir mitt leyti að ég skil ekki heldur í ráðh., sem telur sig vera á móti því að leggja á gjald sem þetta, að hann skuli þá leggja fram frv. um það og leggja á það gífurlega áherslu á að stjórnarliðið allt samþykki þetta frv.

Við segjum í nál. okkar, að við gátum fallist á, þegar olíuverð hækkaði í byrjun, á dögum vinstri stjórnarinnar sem sálaðist fyrir ári,— þá gátum við sætt okkur við það. Sú stjórn gaf út nokkur. brbl. á árinu 1979 til hækkunar á þessu olíugjaldi. Svo varð samkomulag um það á Alþ. og hæstv. þáv. sjútvrh. hafði forgöngu í því máli að lækka olíugjaldið úr 9% í 5%. Um það náðist samkomulag bæði hér á Alþ. og eins innan sjávarútvegsins að mestu leyti. Það vakti að vísu ekki neina hrifningu hjá sjómönnum, sem varla var við að búast. Ég taldi rangt að breyta þessu gjaldi á yfirstandandi vetrarvertíð í vetur. Það hefur auðvitað gert að verkum að tapreksturinn á útgerðinni hefur orðið mun meiri en hann ella hefði orðið, þó að olíugjaldið í heild sé ekki nema lítill hluti af öllu því tapi sem útgerðin þolir nú og fiskvinnslan hefur orðið að ganga í gegnum á þessu ári.

Ég er viss um að það, sem réð úrslitum málsins í apríl hjá hæstv. sjútvrh., var í einu orði sagt hræðsla. Dráttur hafði orðið á ákvörðun fiskverðs sem gilda átti frá 1. mars. Það var liðinn rúmur mánuður. Þegar 26 dagar voru liðnir var boðað til ráðstefnu stjórna og formanna sambandsfélaga Sjómannafélags Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands þar sem ályktað var um þann drátt sem orðinn var á ákvörðun fiskverðs, sem gilda átti frá 1. mars, og stafaði af því að stjórnvöld töldu ekki grundvöll til frekari hækkana fiskverðs, sem þýðir að sjómenn fá ekki sambærilegar launahækkanir og aðrir launþegar í landinu fengu 1. mars. Ráðstefnan lýsti lögleysu hverja þá ákvörðun sem ekki tryggði sjómönnum réttmæta hækkun fiskverðs. Þegar þessi ákvörðun lá fyrir var gengið á hluta útgerðarinnar, sem var eini aðilinn sem sagði ekki upp fiskverðinu á miðri vertíð, og fyrir það að vera eini aðilinn, sem ekki gerði það, var útgerðin svipt 2.5% eða helmingi olíugjaldsins á miðri vertíð.

Þessi hringlandaháttur ráðh. sýnir ekki stöðugleika hæstv. ríkisstj. í þessu máli frekar en í flestum öðrum málum.

Í sambandi við afgreiðslu þessa máls í n. kom á fund nefndarinnar formaður L.Í.Ú., sem greiddi atkvæði með fiskverðshækkuninni, og hann var sammála því og sagði að forsenda fyrir sínu atkvæði hafi verið það loforð stjórnvalda að hækka olíugjaldið. Hins vegar voru forsvarsmenn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands á öðru máli. Þeir töldu að fella ætti þetta frv. Frv. var sent sérstaklega af formanni n. Sjómannasambandi Íslands, sem þá hélt sitt 12. þing, og 12. þing Sjómannasambands Íslands ítrekaði fyrri afstöðu sjómannasamtakana um að þann vanda, sem hækkun olíuverðs skapaði útgerðinni í landinu bæri að leysa með sameiginlegu átaki landsmanna allra, en ekki velta honum yfir á sjómenn eina, svo sem gert er ráð fyrir í frv. til l. um breyt. á lögum um tímabundið olíugjald sem nú liggur fyrir Alþ. Þingið telur að Alþ. eigi að mæta þessum vanda m.a. með því að fella niður þau innflutningsgjöld, sem nú eru á olíuvörum, og leggur áherslu á að við næstu ákvörðun fiskverðs verði þessi mál komin í það horf sem sjómenn geti við unað. Með hliðsjón af framansögðu leggur 12. þing Sjómannasambandsins til að umrætt frv. verði fellt.

Meiri hl. sjútvn. telur, að fyrst stjórnvöld hafi gefið útvegsmönnum vilyrði fyrir því að hækka olíugjaldið um 200% til að standa undir auknum útgerðarkostnaði þetta verðlagstímabil, þá beri stjórnvöldum eðlilega að standa við það. En það kemur útvegsmönnum í sama stað þó að leitað væri annarra leiða til að ná þessari sömu fjárhæð. Þeim er ekki neitt keppikefli að þetta útflutningsgjald sé tekið fram hjá skiptum. Það kemur greinilega fram alls staðar. Við þessir fjórir nm. leggjum því til að þetta frv. verði fellt, vegna þess að við teljum að óskynsamlegt sé að halda áfram, eins og gert hefur verið frá því að vinstri stjórnin tók við 1. sept. 1978, að rýra kjör sjómanna enn frekar en gert hefur verið. Við teljum að hlut útgerðarinnar vegna hækkunar á olíuverði eigi að bæta með sameiginlegum aðgerðum sem nái til allra landsmanna. Það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er alltaf að velta öllum vandamálum innan sjávarútvegsins sjálfs á sama tíma og verið er að taka ýmisleg önnur vandamál og leggja á herðar landsmanna allra. Ég tel að sjómenn eigi ekki einir launamanna í þessu landi að standa alla tíð undir þessum hækkunum á olíuverði, en öðrum komi þær ekkert við. Þar erum við reiðubúnir til samvinnu við hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstj.

Það getur líka oft verið betra, þó að menn séu í ríkisstj. og þó að þeir hafi þingmeirihl. á bak við sig, að hafa samráð og samvinnu við stjórnarandstöðu ef hægt væri þá að ná málum fram með friðsamlegum hætti og efla á þann hátt samstarf á Alþ. og samstarf í þjóðfélaginu almennt. Ég tel mig ekkert minni mann þó að ég hafi þau 4 ár, sem ég fór með sjávarútvegsmál, oft og tíðum haft samstarf og samvinnu við þáv. stjórnarandstöðuflokka, bæði Alþb. og Alþfl., um mikilsverð mál sem þá voru á döfinni. Það kom oft þannig út að menn náðu frekar saman áður en málin komu til umr. og ákvörðunar á hv. Alþingi.

Ég vil benda hæstv. sjútvrh. og í raun og veru ríkisstj., sérstaklega þá ráðh. Alþb. sem telja sig fyrst og fremst málsvara verkalýðsins, á að á því tímabili, sem íhaldsstjórnin — sem þeir kölluðu — sat, 1974–1978, ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl., — þá var Framsfl. íhaldsflokkur, nú er hann aftur orðinn blóðrauður eins og Alþb., — þá hækkuðu tekjur sjómanna um 287.6%, en kauptaxtar verkamanna almennt hækkuðu á sama tímabili um 261.6% og allra launþega um 252.7%. Lítum á breytingar fiskverðs og kauptaxta frá árinu 1974 eða sérstaklega frá árinu 1978. Þá var vísitala fiskverðs- og þá er átt við botnfiskaflann eingöngu — 331, en vísitala kauptaxta allra launþega 360 eftir ákvarðanirnar um fiskverð frá 1. okt. 1978. En lítum á næstu vísitölu á undan, frá 1977. Þá var fiskverðsvísitalan 246, en kauptaxtar allra launþega 232. M.ö.o. voru kjör sjómanna 14 stigum ofar en kauptaxtar allra launþega í landinu. Þannig var náð upp því sem sjómenn glötuðu á fyrri vinstristjórnarárunum.

Það heldur áfram að halla á sjómenn verulega, því að fiskverðið hækkar í 625 í jan. á þessu ári á móti 647 í kauptöxtum allra launþega, í mars er fiskverðið 648 á móti 690 í kauptöxtum allra launþega, í júní 724 á móti 771 og í sept. 724 á móti 837. Eftir fiskverðsbreytinguna síðustu er fiskverðsvísitalan 782, en kauptaxtar allra launþega 837. Þannig hefur hallast á í fiskverðinu. Ef við tökum þetta á þann veg að fiskverð sé kauptaxtar var vísitala þeirra 106 1977, fer niður í 92 í árslok 1978 og er komin í sept. s.l. niður í 86, en fer upp í 93 eftir fiskverðsbreytinguna.

Það verður ekki hægt að segja að þessar vinstri stjórnir hafi staðið eins vel með sjómönnum í þeirra kjarabaráttu og þm. þeirra flokka standa með sjómönnum þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Það er aðdáunarvert að heyra hvað þeir tala fallega um sjómenn þegar þeir eru í stjórnarandstöðu og vilja hag þeirra og kjör sem allra best.

Hér er tímabundið olíugjald til fiskiskipa til umr. Það er tiltölulega lítill hluti af stórum vanda. Í fyrsta lagi er vandamálið skipting á milli sjómanna og útgerðar, kjör og afkoma allra þeirra sem stunda sjávarútveg, þeirra sem beint og óbeint eiga líf sitt og lífsviðurværi komið undir því sem úr sjónum fæst, hvað úr því er unnið og hvað fyrir það fæst. Þessi atvinnuvegur ræður mestu um afkomu þjóðarheildarinnar því hann er burðarásinn í efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, þó ég ætti á engan hátt að gera lítið úr mikilvægi annarra atvinnuvega og þýðingu þeirra fyrir eðlilega framþróun sjávarútvegs og þjóðarbúsins í heild. Það er því fullkomlega eðlilegt vegna mikilvægis þessarar atvinnugreinar að gera í leiðinni litla úttekt á vandamálum hennar og þá ekki síður að rifja upp það sem gerst hefur í kjaramálum og stjórn efnahagsmála á síðustu árum og gera sér grein fyrir viðhorfum til þeirra nú og spyrja stjórnvöld hvað valdi aðgerðaleysinu og hvort þjóðin megi vænta einhvers af núv. ríkisstj. til úrbóta eða hvort sama aðgerðaleysið eigi að halda áfram.

Vanskil útgerðarinnar eða réttara sagt vanskil núna 1. okt. við Byggðasjóð einan, afborgun og vextir, nema samtals 4467 millj. kr. og eru þá dráttarvextir ekki meðtaldir. Af þessum vanskilum eru vanskil vegna fiskiskipa 2826 millj. kr. og vegna fiskvinnslunnar 874 millj. kr. Nákvæmlega eru vanskil sjávarútvegsins við Byggðasjóð 3700 millj. Vanskil útgerðarinnar við Fiskveiðasjóð voru samkv. upplýsingum frá 17. ágúst, og vafalaust hafa þau vaxið verulega síðan, 7331 millj. kr. Það eru uppreiknuð vanskil, afborganir og vextir, en án dráttarvaxta. Hjá fiskvinnslunni nema þessi vanskil á sama tíma 4093 millj. kr. Olíuskuldir útvegsins nema um 13 milljörðum kr. Og þá eru ótaldar skuldir við banka, allar skuldirnar við þjónustufyrirtækin. Staða útgerðar og fiskvinnslu er því verri nú en hún hefur verið um langt árabil.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð gaf hún mörg fögur loforð. Stefna hennar í sjávarútvegsmálum var ekki mikil að vöxtum, en hún var afskaplega falleg og vel hugsuð, eins og allt var á þeim dögum sem unnið var að myndun þeirrar ríkisstj. Þar segir um sjávarútveginn:

„Í sjávarútvegsmálum verði lögð höfuðáhersla á eftirfarandi atriði:

1) Fiskveiðar og fiskvinnsla verði samræmd eftir því sem tök eru á, þannig að hagnýting fiskiskipastóls og fiskvinnslufyrirtækja verði sem best. Í þeim efnum verði komið á samstarfi þeirra aðila, sem mestra hagsmuna hafa að gæta, um löndun afla og dreifingu milli staða með það markmið í huga að tryggja jafnan og stöðugan rekstur og atvinnuöryggi þess fólks, sem við fiskveiðar og fiskvinnslu starfar.

2) Lögð verði áhersla á að auka nýtingu hráefnis og draga úr kostnaði, jafnt við veiðar og vinnslu. Gerð verði áætlun um framleiðniaukningu í fiskiðnaði og sérstök áhersla lögð á, að fiskverkunarfyrirtæki nái almennt því marki í hagkvæmum rekstri sem nú þekkist best. Ráðstafanir verði gerðar til þess að beina fjármagni til þess verkefnis.

3) Aukin verði hagnýting þeirra fiskstofna sem nú eru lítið nýttir, samhliða því að fjölbreytni í fiskverkun og hagnýtingu sjávarfangs verði aukin.

4) Fiskveiðistefnan verði ákveðin þannig að hagsmunaaðilum sé ljóst með góðum fyrirvara, hvaða reglur eigi að gilda um nýtingu fiskimiðanna, og framkvæmd stefnunnar verði endurskoðuð með það í huga að tryggja sem víðtækust samráð.“ — Það er móðins nú á dögum að hafa sem „víðtækust samráð“ í öllum slíkum plöggum.

Mig langar til þess líka að minna á íslenska atvinnustefnu Alþb., sem það lagði fram fyrir kosningarnar 1978. Ráðh. Alþb. mega sennilega ekki vera að því að sitja þingfundi frekar en aðrir ráðh., nema hæstv. sjútvrh. sem er þó ekki nema 1/10 af ríkisstj. (Gripið fram í.) Ég hefði talið að eitthvað af þessum mönnum gæti setið þingfundi. Það er full ástæða til að ræða ítarlega um efnahagsmálin í sambandi við þetta mál. Það mætti því gjarnan minna þá á þingskyldur sínar.

Alþb. segir um sjávarútveginn, að „gerð verði áætlun um þróun sjávarútvegs og fiskiðnaðar á næstu 5–10 árum og að því stefnt, að útflutningsverðmæti sjávarafurða aukist verulega á þessu tímabili með öflugum stuðningi opinberra aðila. Efla ber markaðsleit og sölustarfsemi á framleiðslu lagmetisiðnaðarins og stuðla að því, að verðmætustu hráefni sjávarafurða, svo sem grásleppuhrogn og síld, verði í vaxandi mæli seld sem fullunnin vara úr landi. Einnig verði sérstaklega unnið að stórauknum útflutningi á niðursoðinni þorsklifur.“

Og síðan segir um veiðar og verkun aflans: „Veiðar íslenska flotans verði skipulagðar og geymslu- og vinnsluaðstaða á sjó og í landi stórlega bætt, svo að unnt verði á næstu árum að auka loðnuveiðar sem allra fyrst úr 700 þús. tonnum í 1 millj. tonna á ári“, — þeir hafa aldrei skorið við nögl, Alþb.-menn, — „að auka kolmunnaveiðar sem allra fyrst úr 20 þús. tonnum í allt að 1 millj. tonna á ári og jafnhliða, eftir því sem vöxtur fiskstofna á næstu árum leyfir, að tvöfalda botnfiskaflann, úr rúmum 400 þús. lestum í 850 þús. tonn.“ — Ég held að „gáfumannaflokkurinn“ hafi gengið frá þessari stefnuskrá í Alþb.

Síðar segir í kaflanum um sjávarútveg: „Ríkisvaldinu ber á hverjum tíma að tryggja, að þau kjör og hlunnindi bjóðist sjómönnum sem ávallt gera starf þeirra verulega eftirsóknarvert.“

Þið heyrðuð áðan hvað þeir hafa gert mikið í því að gera starf sjómanna eftirsóknarvert. Minn gamli kennari og vinur Guðmundur Hagalín sagði oft þegar honum þótti menn taka mikið upp í sig og svíkja, — þá sagði hann gjarnan: O svei attan! Ég vil gera orð hans að mínum í sambandi við framkvæmd stefnu Alþb. (Gripið fram í: Þar kom að því að þeim var svarað.) Var formaður n. eitthvað að segja? (Gripið fram í.) Jú, það stóð ekki heldur á því þegar Alþb. gekk til stjórnarmyndunarviðræðna bæði haustið 1978 og eins drengskaparviðræðnanna síðustu, þegar þessi stjórn var mynduð, að segja að það væru möguleikar á því að stórauka útflutningsverðmæti þessarar þjóðar. Töluðu þeir ekki alltaf um milli 50 og 60 milljarða í stjórnarmyndunarviðræðunum? Ég er hræddur um að hann Steingrímur fengi á baukinn ef hann ætlaði að láta veiða 850 þús. tonn af botnfiskaflanum á næsta ári eða fara upp í milljón tonn af loðnunni, miðað við þær ráðstafanir sem hann neyðist til að gera síðustu daga. En það er hægt að búa til alls konar vitleysu og blekkja fólk eins og Alþb. hefur gert á undanförnum árum. Það er ekki gaman að vera í þeim flokki. Það er ekki nema fyrir allra hraustasta fólk að standast þá raun. Hinir allir, venjulegir menn, væru komnir í rúmið. Þeir sem eru sómakærir í reyndinni.

Hæstv. sjútvrh. sagði hér í marsmánuði að athugun hefði leitt í ljós að lausaskuldir eða vanskil fiskvinnslunnar og reyndar sjávarútvegs hefðu vaxið gífurlega á undanförnum árum og mánuðum. Sagði hann í lok marsmánaðar, eða 31. mars í vetur:

„Þetta hygg ég að megi ekki síst rekja til þess, að rekstrarfjárþörf fyrirtækja hefur langt frá því verið fullnægt í samræmi við verðbólgu, og hefur það leitt til verulegra vanskila. Í raun og veru er leiðrétting á þessu með skuldaskilum fyrst og fremst staðfesting á því, að rekstrarfé hefur ekki verið aukið eins og þörf er á á slíkum verðbólgutímum, bankarnir eflaust ekki haft til þess bolmagn. Því var ákveðið á fundi ríkisstj. að settir verði menn í að kanna þessi vanskil, og ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að eins miklu og frekast er unnt með tilliti til stöðu sjóða og banka og fyrirtækja verði breytt í skil á næstu vikum og mánuðum.“

Ég tel að við þessi fyrirheit hæstv. ráðh. hafi ekki verið staðið á nokkurn hátt að öðru leyti en því, að vanskilin og tapreksturinn í sjávarútvegi hafa aukist gífurlega frá því að hann flutti þessa ræðu. Það er komið svo að mínum dómi, að það verður ekki óumflýjanlegt að ganga til allsherjarskuldabreytinga lána, sem við höfum kallað „konverteringu“ lána, í sjávarútvegi almennt, og hún fari ekki fram með neinu pukri, það séu ekki teknir einhverjir ákveðnir fyrir og lokað hurðinni þegar verið er að ákveða hvernig eigi að leysa þeirra mál, heldur fari slík skuldabreyting fram undir forustu bankanna og stofnlánasjóðanna. Þá verður auðvitað að taka tillit til þeirra fyrirtækja sem eru með miklar lausaskuldir, bæði við verslunina og við hin ýmsu þjónustufyrirtæki í landinu, sem geta auðvitað á engan hátt breytt þeim skuldum í lán til langs tíma. Verður auðvitað, eins og gert var 1975, að fá fjármagn frá Seðlabankanum til að lána þessum aðilum svo hægt sé að gera upp þjónustufyrirtækin sem mörg hver eru komin að því að stöðvast nú vegna þessarar gífurlegu skuldasöfnunar sjávarútvegsins.

Svo á myntbreytingin að koma um áramótin. Ég vil segja út af þeim 90 tonnum, sem hafa verið flutt til landsins af myntinni, að það er innflutningur sem ég held að hefði verið rétt að spara og geyma. Ef við hefðum staðið þannig að vígi í efnahagsmálum að við værum að stöðva verðbólgu væri kannske sök sér að fara út í myntbreytingu. En að fara í 60% verðbólgu út í myntbreytingu um áramótin, það er ég sannfærður um að kemur til með að valda gífurlegum misskilningi og erfiðleikum í viðskiptalífinu. Ég sé ekki nokkra skynsemi í því að halda þessu áfram, jafnvel þó að 90 tonn af mynt séu komin til landsins.

Ég furða mig á því, hvað hæstv. sjútvrh. hefur oft látið hafa eftir sér í blöðum og síðast nú 15. okt., því þá segir frá blaðamannafundi daginn áður: „Þá kom fram að unnið er að því að létta þennan vanda útgerðarinnar, lausaskuldirnar, á ýmsan hátt, m.a. með því að breyta lausaskuldum í föst lán.“ — Hvar er unnið að þessu? Hafa bankarnir fallist á þetta? Ég hef ekki heyrt það. Ég er í stjórn eins sjóðs Framkvæmdastofnunar ríkisins, Byggðasjóðs, ég hef ekki heyrt að neitt sé unnið þar að skuldabreytingu til langs tíma. Þetta verður auðvitað ekki gert nema setja á eina sameiginlega stjórn, en ekki vera að pukra með einn og einn. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að vanskilin eru ekki hjá örfáum aðilum. Ég skal aðeins nefna vanskilin í Fiskveiðasjóði: Í vanskilum eru 310 lán eða til 310 skipa, þar af 38 til skuttogara og 29 til loðnuskipa, sem er meira en helmingur af þeim flota.

Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. segir um gengismál orðrétt: „Beitt verði aðhaldi í gengismálum. Til að treysta gengi gjaldmiðilsins verði gert sérstakt átak til framleiðniaukningar.“ Og þyngdaraflið í ríkisstj., Alþb., segir í stefnu sinni fyrir kosningarnar 1978: „Stefnt skal að stöðugleika í gengisskráningu, enda er það forsenda raunhæfra rekstrar- og fjárfestingaráætlana í öllum greinum atvinnulífsins.“ Og í kaflanum um tolla- og gengismál segir orðrétt í stefnu þess sama flokks: „Stuðlað sé að sem stöðugustu gengi íslensku krónunnar og horfið af braut gengisstefnunnar sem ríkt hefur í gjaldeyrismálum Íslendinga að undanförnu.“ — Þetta eru fögur fyrirheit: að treysta gengi krónunnar! Það þarf enginn að fara í grafgötur með stefnu Framsóknar. Allir landsmenn þekkja stöðugleika þeirrar rosknu og ráðsettu maddömu.

En við skulum hyggja nokkuð betur að hvernig aðhaldi hefur verið beitt í gengismálum frá því að vinstri stjórnin tók við völdum 1. sept. 1978 og síðan frá valdatöku þeirrar sem nú situr.

Þegar vinstri stjórnin var mynduð var verð á dollarnum 260.40 kr., en þegar starfsstjórn Alþfl. fór frá, sem sat eftir að vinstri stjórnin féll, hafði verði dollarsins hækkað um 54.3%. Þegar núv. ríkisstj. tók við var verð á dollarnum 8. febr. á þessu ári 401.70 kr., en er nú 31. okt. 557 kr. Gengið á dollarnum gagnvart ísi. krónunni hefur því lækkað um hvorki meira eða minna en 38.7% á þessum tíma. En það er ekki kallað gengislækkun, svona smábreytingar á verðgildi peninganna. Nei, það heitir gengissig. Það má ekki nefna gengislækkun núna. Heildarhækkun á dollar, frá því að vinstri stjórnin var mynduð og til síðustu mánaðamóta, er því hvorki meira né minna en 113.9% og 135.3% ef við miðum við ferðamannagjaldeyri. — Svona hefur Alþb. framkvæmt stefnu sína um stöðugleika í gengisskráningu.

Stefna þeirra í þessum efnum var sú, að þeir segja hér: „Verðbólgan hefur um árabil verið helsta gróðamyndunaraðferð íslenskra fjáraflamanna og flytur stöðugt fjármuni frá allri alþýðu til verðbólgubraskara. Verðbólgan fer eldi um fjárfestingarsjóði landsmanna og hvers konar tryggingasjóði alþýðu, svo að eigið fé þeirra rýrnar verulega á ári hverju. Verðrýrnun peninganna ýtir undir fjárfestingarkapphlaup og stuðlar að óarðbærri fjárfestingu í stórum stíl, ekki síst á sviði verslunar og viðskipta.“

Þetta eru helstu sjúkdómseinkennin sem Alþb. lýsti fyrir kosningarnar 1978. Það hefur svo frá sept. það ár til dagsins í dag séð um að gengi krónunnar gagnvart dollar hefur rýrnað um 113.9% og ferðamannagjaldeyris um 135.3%. Þetta er stöðugleiki í stjórnmálum eða hitt þó heldur! Það er gaman að vera í þessum flokki og koma svo fram fyrir næstu kosningar og tala við þjóðina eftir öll þau stórkostlegu svik sem þessi flokkur hefur viðhaft á öllu þessu tímabili. — Það sést ekki einn einasti Alþb.maður,.nema einn maður sem verður skyldu sinnar vegna að vera hér inni. Nema hann ætti kannske að hætta að vera í Alþb. Þá er auðvitað enginn hérna. — Nei, er fjmrh. mættur? Það var gott. Ég var nefnilega að tala um það áðan, að hér væri ekki nema 1/10 af ríkisstj. Það hefur hækkað heldur gengi hennar í stólunum að vera komið í 1/5.

Við ákvörðun fiskverðsins fréttu þm.ríkisstj. hefði ákveðið að láta dollarann síga í 552 kr. til að bæta stöðu fiskvinnslunnar svo að hún gæti tekið á sig hærra fiskverð. Nú sjáum við að þetta er komið í 557 kr. Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðh. hver sé hin nýja ákvörðun um sigið. Hvaða ákvörðun er það? Er til of mikils mælst að Alþ. fái að vita um þessar ákvarðanir? Þurfa þm. að afla sér frétta úti í bæ um hvaða ákvarðanir eru teknar í þessum efnum? Og er þá reiknað með að eftir hina nýgerðu kjarasamninga eigi að halda gengissiginu áfram og það eitthvað verulega? Vita þeir þetta, kommarnir, sem eru að fara bráðum á alþýðusambandsþingið, og þeir aðrir, sem styðja hæstv. ríkisstj. eða er þetta einkamál ráðh. í ríkisstj.?

Það væri ekki úr vegi að minna aðeins á söluskattinn og á stefnu Alþb., þessa einarða flokks launþeganna og verkalýðsins í landinu.

Fyrst eru hér raktar tillögur um tafarlausar aðgerðir í efnahagsmálum sem kæmu til framkvæmda á næstu sex mánuðum. M.ö.o.: það átti að vera búið að ljúka þeim í febrúarlok 1979, fyrst Alþb. komst í stjórn. Þessar tillögur miða einkum að því, segir Alþb. að lækka vöruverð og draga úr áhrifum verðbólgu. Og á hvern hátt ætlaði Alþb. að gera það? Með verulegri lækkun söluskatts og annarri tekjuöflun á móti, sparnaði í ríkisrekstri og niðurfellingu útgjalda, og auðvitað lækkun verslunarálagningar til að friða hana Guðrúnu Helgadóttur og vaxta af afurða- og rekstrarlánum og svo breyttri stefnu í gjaldeyrismálum, sem ég er áður búinn að lýsa.

Það er útfært nánar. Alþb. ætlaði að lækka söluskattinn á fyrstu sex mánuðunum um 7 söluskattstig. Það var myndarlega af sér vikið. Alþb. segir: Við kláruðum það, auðvitað í harðri baráttu við kratana og Framsókn, að afnema söluskatt af matvælum. En það var aftur hækkað verulega vörugjald. Þá var verið að fara í vísitöluhringdans. En allt annað hækkaði. Allar þarfir heimilanna eru ekki étnar. Það þarf ýmislegt annað en mat.

Vextir af afurða- og rekstrarlánum, áttu að lækka um 3%, sagði Alþb. Þjónustugjald opinberra stofnana, sem greiða söluskatt, átti að lækka um 5% og koma þar á móti lækkun útgjalda með rekstrarsparnaði. Núv. hæstv. fjmrh. getur kannske sagt okkur síðar í þessum umr. hvernig honum tókst til að lækka útgjöld t.d. stofnana eins og Pósts og síma meðan hann var samgrh.

Eigum við ekki að líta svo á efndirnar í sambandi við söluskattinn? Jú, 1974 þegar ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. tók við hækkaði söluskatturinn úr 17% í 19%, enda var þá mikið óunnið og ógert til að afla fjár vegna þeirra loforða og skuldbindinga sem fráfarandi vinstri stjórn gerði það sumar. Þetta söluskattstig hélst til 1. mars 1975 að skatturinn var hækkaður um eitt stig vegna hækkunar á viðlagasjóðsgjaldi. Síðan er þetta óbreytt þangað til vinstri stjórnin er komin eða til ársins 1979, þá er söluskatturinn hækkaður um tvö söluskattstig eða upp í 22%. Þegar þessi stjórn tók við var söluskattur aftur hækkaður um 1.5 stig og kallað orkujöfnunargjald, þannig að söluskatturinn er nú 23.5%. — Þetta eru loforð Alþb. í sambandi við lækkun söluskattsins.

Ég minnist þess þau ár sem ég hef verið hér á Alþ., að þeir þreyttust aldrei á því, Alþb.-menn, að tala um hvað óbeinu skattarnir kæmu hart niður á launþegunum í landinu þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. En nú eru þeir orðnir fínir menn í stjórn og þá varðar þá ekkert um skatta á þennan verkalýð sem þeir voru einu sinni að tala um.

Hefur samdráttur orðið á öðrum sviðum í þjóðfélaginu hjá mönnunum sem allt gátu 1978? Hefur aðhaldi verið beitt við fjárlagagerð? Gjaldahlið fjárlaga var á árinu 1977 89 milljarðar 153 millj., 1978 fergjaldahliðin upp í 138.5 milljarða tæpa og 1979 er hún komin upp í 202.3 milljarða. 1980 fer gjaldahliðin upp í u.þ.b. 343.2 milljarða og í nýframlögðu fjárlagafrv. núv. fjmrh. og núv. ríkisstj. er gjaldahliðin áætluð 526.5 milljarðar. Ekki er um mikinn samdrátt þar að ræða sýnist mér.

Íslenska þjóðin bjó við stöðuga stjórn í tólf ár, frá árinu 1959 til 1971. Áratugurinn á undan var 5stöðugur, ekki fyrir það að oft væri skipt um ríkisstj., heldur hitt, að stjórnarsamstarfið var ekki byggt á heilindum og gagnkvæmu trausti á að leysa vandamál þjóðarinnar á sem skynsamlegastan hátt hverju sinni. Ríkisstj., sem sat 1959–1971, — ég segi ríkisstj. þó að það séu vitaskuld fleiri en ein ríkisstj. sem sátu á því tímabili, en þá á ég við að það voru sömu flokkar og að mörgu leyti sömu menn sem sátu í þeim ríkisstj.,— gerði margt gott og stjórnaði meira af viti en sýndarmennsku. Hún var þó ekki alfullkomin frekar en þær ríkisstj. sem voru á undan henni eða þær sem komu síðar.

Þjóðin fékk nýja stjórn þriggja flokka á árinu 1971. Sú stjórn sat við völd til 1974. Það var stjórn mikilla loforða sem kunni sér ekki hóf. Hún var dæmigerð auglýsingastjórn þar sem alvörustjórnmálamenn náðu aldrei þeim tökum sem nauðsynlegt er að ná til að geta stjórnað landinu.

Ríkisstj., sem tók við í ágústlok 1974, varð að fást við fjárútvegun til að standa við margvísleg óframkvæmd loforð fyrrv. stjórnar samfara því að halda atvinnutækjunum gangandi, en verðfall var orðið frá því snemma á því ári á flestum okkar útflutningsafurðum. Það verðfall hélt áfram út það ár og næsta ár einnig. Verðbólgan var í byrjun valdatímabils þeirrar stjórnar u.þ.b. 54% og það tókst að koma henni niður í 26%, þegar sundurgerðarmenn í þjóðfélaginu hófu baráttu sína til að losna við þá stjórn. Það óheiðarlegasta við þá baráttu var að hún var háð undir því yfirskini að rétta hlut verkalýðsins, eins og það var kallað, en það, sem á bak við stóð, var að koma þeirri ríkisstj. frá, sem hafði sterkan meirihl., með því að þvinga fram svo mikla krónutöluhækkun kaups að atvinnuvegirnir þoldu það ekki, eins og gert var með samningunum frá 1977.

Ríkisstj., sem þá sat, lagði fram í febrúar árið 1978 frv. til l. til að hamla gegn verðbólgu og stuðla að betra jafnvægi í efnahagsmálum. Til þess að ná tökum á verðbólguvextinum á árinu 1978 yrði að draga úr víxlgengi verðlags og launa með því að takmarka nokkuð þær kauphækkanir sem leiddi af þeim óraunhæfu kjarasamningum sem gerðir voru sumarið 1977 og voru nefndir því fallega nafni „sólstöðusamningar.“ Í þessu frv. var ákveðið að verðbætur á laun skyldu nema helmingi þeirrar hækkunar á verðbótavísitölu og verðbótaauka, sem kaupgjaldsnefnd reiknaði samkv. ákvæðum kjarasamninga, og samhliða þessari 50% lækkun verðbóta var þessi niðurskurður mildaður á lægstu launin.

Með brbl. í maí það ár var sett þak á þessar verðbætur á laun, þannig að launþegar undir ákveðnu launamarki fengu fullar verðbætur, en hinir, sem fyrir ofan voru, fengu krónutöluhækkun, en ekki hlutfallslega launahækkun.

Launþegasamtökin snerust harkalega við þessum lögum undir forustu Alþb. og nokkurra Alþfl.-manna. Verkalýðshreyfingin efndi til mótmæla og það var gripið til margvíslegra ofbeldisverka, eins og að stöðva útflutning á framleiðsluvörum landsmanna, sem varð til þess að þjóðin skaðaðist gífurlega á þessum tiltektum ofbeldisfullra verkalýðsleiðtoga sem voru fyrst og fremst undir stjórn Alþb. Þeir urðu sammála um kjörorð í þessari baráttu: Samningana í gildi.

Ég þarf ekki að fara nánar út í það sem gerst hefur, ég hef þegar gert það, hvernig kauprýrnun hefur átt sér stað, hvernig verðbólgan hefur ætt áfram, en mig langar aðeins til að minna á grein í Þjóðviljanum frá 22. júní 1978. Ég veit ekki hvort hún er runnin frá núv. hæstv. félmrh. eða meðritstjóra hans, en þar segir:

„Alþb. er eini flokkurinn sem berst heill við hlið verkalýðshreyfingarinnar. Alþb. mun því aðeins ljá máls á stjórnarmyndun eftir kosningar að kaupránslögin verði felld úr gildi.“

Já, hann segir: Kaupránslögin eða ákvæði þeirra verði felld úr gildi. — En þá kom bara annað sem var miklu verra. Og ég er sannfærður um að ef þessi lög hefðu ekki verið brotin niður væri ástandið í efnahagsmálum þessarar þjóðar nú ólíkt betra en það er.

Vinstri stjórnin setti lög um stjórn efnahagsmála o.fl. — lög sem hafa verið kölluð Ólafslög og voru samþykkt 13. apríl 1979. Þar var farið inn á nýja braut við skerðingu verðbóta á laun með því að taka mið af rýrnun viðskiptakjara. Þó var skerðingin milduð nokkuð á lægri launin, en frá des. á s.l. ári hefur skerðingin gengið jafnt yfir öll laun. Það er ómaksins vert að minna núv. stjórnarflokka og aðstoðarmenn þeirra á samræmið í verðbótum á laun og framfærsluvísitölu:

1. sept. 1979, meðan vinstri stjórnin var við völd, hækkaði framfærsluvísitalan um 13.57%, en launaverðbætur um 9.17%. 1. des. 1979 hækkaði framfærsluvísitalan um 15.86%, en launaverðbætur um 13.21%. 1. mars á þessu ári hækkaði framfærsluvísitalan um 9.13%, en launaverðbætur um 6.67%. 1. júní hækkaði framfærsluvísitalan um 13.23%, en launaverðbætur um 11.70%. 1. sept. s.l. hækkaði framfærsluvísitalan um 10.12%, en verðbætur á laun um 8.57%.

Það er líka nauðsynlegt og gagnlegt í leiðinni að líta á þróun út- og innflutningsverðs og viðskiptakjörin. Út og innflutningsverð er sett árið 1972 í 100. Á fyrsta ársfjórðungi 1980 er útflutningsverðið komið í 229.1 og innflutningsverð í 251.0. En við skulum lita á viðskiptakjörin. 1978 og 1977 eru þau hin sömu eða 108.5, en 1979 lækka viðskiptakjörin niður í 97.3. Nú lítum við á 1979. Á fyrsta ársfjórðungi 1980 eru viðskiptakjörin 91.2. Ekki er það nú burðugt! Þarna er heldur betur rýrnun sem tekin er á launþega í landinu. Þetta heitir sennilega á máli Alþb. „samningana í gildi“. [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var, þegar fundi var frestað, að gera samanburð á út- og innflutningsverði og viðskiptakjörum. Það er eftirtektarvert við þær breytingar, sem verða á viðskiptakjörum í prósentum miðað við næsta ár á undan, að 1974 eru viðskiptakjör óhagstæð um 9.8% og 1975 heldur áfram á sömu braut, 14.6%, en síðan verður á þeim veruleg bót þannig að viðskiptakjörin verða hagstæð um 12.7% 1976 og 1977 nokkru lakari eða 8.4%. 1978 gerbreytir aftur um. Þá eru þau á núlli, en 1979 fara viðskiptakjörin hríðversnandi, eru óhagstæð um 10.3%. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er talið að þau séu óhagstæð um 6.3%, og áætluð rýrnun viðskiptakjara á þessu ári er talin munu verða um 5%.

Skerðing verðbóta á laun 1. des. 1978 var 8%, gerð í eitt skipti fyrir öll. Miðað við hækkun framfærsluvísitölu hefðu verðbætur átt að hækka um 14.12% frá 1. des. 1978, en launin hækkuðu aðeins um 6.12. 8%, sem á vantaði, átti að bæta launþegum með skattalækkunum, niðurgreiðslum á vöruverði og félagslegum aðgerðum eða félagsmálapakka, eins og það heitir hjá þessum hugmyndasmiðum. Hvar er þessi félagsmálapakki? Sumar stéttir hafa ekki fengið hann enn þá og hafa kvartað undan því, að hann muni hafa eitthvað misfarist. Hann hefur verið fyrst og fremst loforð um þessar og hinar svokölluðu félagslegu umbætur. En þegar verið er að lofa þessum og hinum félagslegu umbótum hefur það gerst, bæði á árinu 1979 og 1980, að dregið er úr öðrum félagslegum umbótum sem þó eru ákveðnar sumar hverjar með lögum frá hv. Alþ. — Til þess að hressa upp á minni manna vil ég gjarnan minna á hvað hefur verið gert t.d. í framlögum til framkvæmda á sviði heilbrigðismála. Þar hefur verið dregið verulega úr umbótum samkv. þeirri stefnu sem Alþ. hefur markað.

Aftur skulum við nefna muninn á framfærsluvísitölunni og verðbótavísitölunni, sem sýnir glöggt hvað allt hefur hækkað meira á þessu tímabili, eða frá 1. febr. 1979 til 1. sept. Framfærsluvísitalan hefur hækkað á þessu sama tímabili um 101.3% á meðan verðbótavísitalan á laun hækkar um 74.6%. Þannig hefur verið staðið að þessum málum. Þannig hefur verið staðið við fyrirheitið um samningana í gildi, og hef ég þó sleppt mörgu sem hefði verið hægt að ræða nánar um í sambandi við þau mál öll.

Verslunarráð Íslands hefur gert nokkrum sinnum mat á því, hvernig verðlagsþróunin muni verða á næsta ári, og miðar þá við ákveðnar forsendur. Verslunarráðið hefur jafnaðarlega fylgst með þróun verðlags, launa og gengis og birt athuganir sínar á viðskiptamálum í fréttabréfi Verslunarráðsins. Nú hefur Verslunarráðið gert spá sem er miðuð við þær forsendur að ekkert verði gert til að sporna við verðbólgunni. — Það er líkt og verið hefur undanfarna mánuði frá hendi hæstv. ríkisstj. Hún hefur ætlað að gera margt og lofað mörgu og það hefur verið töluverður órói í sumum í þessum efnum. — Verslunarráðið segir að forsendurnar séu þær, að það sé gert ráð fyrir að ekki verði gripið til markvissra aðgerða til að draga úr verðþenslu og eyða víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags, þótt það sé e.t.v. ósennilegt í ljósi þess, hve ör verðbólgan verður á næsta ári. Þess er hins vegar að gæta, að engar aðgerðir liggja fyrir af hálfu stjórnvalda þannig að ekki verður reiknað með þeim í þessu dæmi. Forsendurnar að þessari spá eru einnig þær, að gert er ráð fyrir óbreyttum viðskiptakjörum og svipaðri skattheimtu og var á s.l. ári. Reiknað er með að heildarlaunahækkun af völdum nýgerðra kjarasamninga og verðbóta 1. des. n.k. verði 20,5% og eru þá nýlega auknar niðurgreiðslur teknar inn í dæmið. Skerðing verðbóta á laun og verðbætur miðast við lögin um stjórn efnahagsmála eða Ólafslögin svonefndu. Það er miðað við að fiskverð hækki í samræmi við laun, og gert er ráð fyrir að gengisbreytingar miðist við að tryggja hallalausan rekstur fiskvinnslu og sjávarútvegs. Þá eru útreikningar þeir, að verðbólga frá upphafi til loka árs 1981 verði rúmlega 80%, og þá er gert ráð fyrir að nokkuð fari að draga úr verðbólgu í lok ársins, en 12 mánaða hækkun framfærsluvísitölu muni verða um 84% í nóv. samkv. þessu. Og þá er gert ráð fyrir að gengi dollarans verði sem næst 1000 kr. um áramótin 1981–1982. Það þykir fjarstæðukennt núna að halda slíku fram, en við getum líka, eins og ég gerði í dag, tekið þá þróun mála, hvernig gengisbreytingarnar hafa verið á undanförnum árum. Ef — sem maður vonar — gripið verður til einhverra aðgerða breytist meginforsenda þessara útreikninga. Þetta er því, eins og ég sagði áðan, spá sem er miðuð við engar aðgerðir til þess að halda í við verðbólguna og miðuð við svipaða skattheimtu og er á þessu ári.

Það fer ekki milli mála, að í hvaða stétt sem menn eru ræða menn fram og aftur um verðbólguna, og það stendur ekki á ríkisstj. að skipa nefndir, en álit þeirra nefnda virðast vera leyndarmál. Ég held að það hafi verið á árinu 1976 sem þáv. ríkisstj. skipaði verðbólgunefnd, sem vann mikið starf, og í þeirri nefnd voru fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum á Alþ. Þessi nefnd komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu. Fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. voru þar með sitt álit, en fulltrúar hinna stjórnmálaflokkanna, Alþfl. og Alþb., tóku ekki nógu ábyrga afstöðu. En þá var stjórnarandstöðunni sýndur fullur trúnaður. Hún fékk allt í sínar hendur. Hún gat rætt þessi mál og hafði öll gögn í höndunum. Nú er skipuð einhver efnahagsnefnd undir forustu unglings sem auðvitað hefur mikið sjálfstraust, það fer ekki á milli mála, og það eru í þessari nefnd ýmsir spekingar sem ríkisstj. treystir mikið á, en ég held að það sé enginn maður í þessari nefnd sem hefur verulega reynslu í atvinnurekstri eða atvinnulífinu. Ég man ekki eftir því, þó hef ég það ekki alveg í höfðinu, hverjir eru í nefndinni, en þeir, sem helst hafa látið ljós sitt skína af nm. með því að tala um efnahagsvandann almennt, en koma ekki beint inn á starf nefndarinnar,— ég man ekki eftir að þeir hafi mikið komið nálægt atvinnurekstri eða viðskiptalífi og viti mikið í sinn haus í þeim efnum.

Það er kannske ekki von að það komi mikið út úr slíkri nefnd. En ég spyr: Hverju er ríkisstj. að halda leyndu fyrir Alþ. og fyrir þjóðinni? Er þetta ekki nefnd sem þjóðin borgar laun, og er ekki full ástæða til þess, að eitthvað heyrist um hverjar till. hennar eru, — eða eru tillögur þessarar nefndar með þeim hætti að þær hafi skapað einhvern stórkostlegan ágreining innan ríkisstj. á þann veg að hún þori ekki að taka á þessum málum og ekkert að gera? Telur ríkisstj. að nýgerðir samningar um kaup og kjör fái staðist án þess að skerða verðbætur á laun? Er ríkisstj. staðráðin í því að það verði greiddar fullar verðbætur á laun? Það væri gott og fróðlegt að fá svar við þessu. Er samstaða í ríkisstj. um að greiða fullar verðbætur á laun eða eru einhverjir aðilar í ríkisstj. sem vilja takmarka þessar verðbætur?

Ég heyrði fyrir örfáum dögum í einum þm. úr stjórnarliðinu sem talaði hér í Sþ. varðandi þáltill., ég held að það hafi verið þáltill. um rafbíla eða eitthvað slíkt. Þá sagði hann ákaflega athyglisverða setningu. Hún var eitthvað á þá leið, að hann teldi að innlend orka ætti ekki að fara inn í verðbætur. Þessi þm. er í Framsfl., Guðmundur G. Þórarinsson. Mér fannst þetta mjög athyglisverð skoðun og athyglisverðar upplýsingar. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh., hv. formann Framsfl., hvort hann sé sammála þessum þingbróður sinum úr Framsfl. og hvort það sé skoðun formanns Framsfl. og þá vonandi þingflokks Framsfl. að það eigi að skerða verðbætur á laun til að halda niðri þeirri öru verðbólgu sem nú veður áfram í þjóðfélaginu. Við fáumst ekki til að trúa því, að á sama tíma og verið er að draga úr framleiðslu á landbúnaðarafurðum vegna markaðserfiðleika, verið er að draga úr fiskveiðum vegna þess að talið er að það sé of mikil sókn í ákveðna fiskstofna, þá sé um leið hægt að segja að hægt sé að stórbæta lífskjörin. Ég fæ ekki skilið að slíkt sé hægt. Það er hægt að bæta lífskjörin ef við getum stóraukið þjóðarframleiðsluna og verðmæti hennar. Það er skiljanlegt. Nú er nóvembermánuður kominn og ef ekkert kemur fram frá ríkisstj. um hvað hún ætlar að gera, þá spyr ég: Ætlar hún þá að sitja? Treystir hún sér til að sitja mánuðum saman þegar hún virðist ekki hafa neina samræmda skoðun á því sem gera þarf til að koma í veg fyrir óðaverðbólgu í þessu landi?

Það kemur líka í minn hug á hvern hátt á að greiða þennan félagsmálapakka sem lofað hefur verið. Er ætlunin að standa við lög og fyrirheit um framlög til félagslegrar uppbyggingar, sem ekki eru í þessum félagsmálapakka, en eru í hinum ýmsu lögum? Á að draga úr því? Ég spyr einnig: Hver er stefna ríkisstj. í sambandi við ákvörðun fiskverðs 1. jan. n.k.? Þá er lengsta og dýrasta verðlagstímabilið, því að um eða yfir 50% af heildarbotnfiskafla landsmanna eru veidd á því tímabili, svo að það er miklu stærri ákvörðun en ákvörðunin um fiskverðið frá 1. okt. Er stefna ríkisstj. sú, að það eigi að greiða uppbætur á laun öllum stéttum í þjóðfélaginu nema sjómönnum, það eigi að klípa af þeim einum — eða ætlar ríkisstj. að breyta nú um stefnu og láta sjómenn hafa eins og aðra? Hvað á að gera til að styrkja stöðu útgerðarinnar og gera henni kleift að reka skip sín á næsta ári eftir milljarðatuga skuldasöfnun á þessu ári? Ég endurtek spurningu mína til hæstv. sjútvrh. í þeim efnum, hvort hann telji að það sé óumflýjanlegt að ganga til allsherjarskuldabreytingar fyrir útgerð og fiskvinnslu í landinu.

Ef á að halda áfram á braut verðbólgunnar hlýtur að verða haldið áfram þessu svokallaða gengissigi, sem er auðvitað gengisfellingar, eins og allir skilja. Því var lofað við fiskverðsákvörðunina að dollarinn færi í 552 ísl. kr., en eins og ég sagði í dag er hann kominn í 557 kr., eða 5 kr. meira sem við þurfum að greiða fyrir dollarann en ríkisstj. hafði áður tekið ákvörðun um. Hvernig ber að skilja að gengissig er nú komið 5 kr. fram yfir það sem ríkisstj. hafði tekið ákvörðun um í sambandi við fiskverð? Ber að skilja það gengissig á þann veg, að ríkisstj. telji að nýgerðir kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins fái ekki staðist og því verði til þess að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi eða a.m.k. koma í veg fyrir að þeir stöðvist nú á stundinni að halda þessu gengissigi áfram? Hver er ákvörðun ríkisstj. um gengissig? Hún hlýtur að hafa tekið nýja ákvörðun, fyrst gengið hefur farið fram úr 552 kr. fyrir dollarinn. Og þá leikur mér forvitni á að heyra: Hver er ákvörðun hæstv. ríkisstj. í þessum efnum?

Hver er stefna ríkisstj. um fiskiskipastólinn? Hvenær telur hæstv. sjútvrh. að fiskiskipastóllinn sé orðinn nógu stór til að mæta þeim samdráttaraðgerðum sem af honum er krafist að gera og hann hefur verið að gera? Alþb., þyngdaraflið í núv. ríkisstj., telur að það eigi að stórauka smiði fiskiskipa í landinu og það eigi að margfalda afköstin frá því sem verið hefur og það eigi að taka upp raðsmíði skipa. Hefur ríkisstj. fallist á stefnu Alþb. í þessum efnum? Ráðh. þess flokks hljóta að hafa haldið einhverju af stefnu sinni fram innan ríkisstj. Ég veit að þeir eru afskaplega hæglátir menn sem vilja ekki gera of miklar kröfur á samstarfsmenn sína því að þeir vilja gjarnan fá að sitja áfram í ríkisstj., það er alveg sjáanlegt, — en hver er stefna ríkisstj.? Á að halda áfram á þessari braut? Á að bæta við flotann enn þá og auka bönnin hjá skipunum, sem fyrir eru, og binda þau lengur en gert hefur verið? Það er talið að með hverjum nýjum togara sem kemur séu hinir, sem fyrir eru, bundnir við bryggju 6 dögum lengur á hverju ári. Hvar stöndum við þá í sambandi við heilbrigðan atvinnurekstur? Erum við þá ekki um leið að stefna að því að hvert fyrirtæki, hver útgerð sé rekin með bullandi tapi? Ég held að það sé ekki leiðin til að draga úr fjárfestingu að halda fram þessari stefnu eins og Alþb. hefur gert í myndaseríunni sinni frá 1978.

Einn af þm. Framsfl. skrifaði fyrir nokkru grein í flokksblað sitt. Þetta er Stefán Valgeirsson. Hann skrifaði þessa grein í blaðið Dag og hann segir: „Á þessu sést að undirstaðan undir þessu stjórnarsamstarfi er sú stefnumörkun sem við framsóknarmenn boðuðum fyrir kosningar.“ Og hann lætur þessa grein heita „Hvað er fram undan?“ Það er auðvitað ósköp eðlilegt að trúaður framsóknarmaður eins og hann spyrji hvað sé fram undan þegar hann segir að Framsfl. ráði stefnumörkun þessarar ríkisstj. Þetta er saklaus maður sem talar og skrifar frá hjartanu, en er ekki eins útsmoginn og út undan sér og sumir aðrir í þessum sama flokki. Hann spyr sem sagt á mjög saklausan hátt hvað sé fram undan, en Framsfl. ræður ferðinni.

Ég hef sagt að Alþb. væri þyngdaraflið í þessari ríkisstj. Þá á ég ekki við líkamsþunga ráðh., heldur öllu heldur að það hefur þó talið sig hafa eitthvað á bak við sig sem það gæti stjórnað með góðum hætti. Þá á ég auðvitað við ýmsa forystumenn í verkalýðshreyfingunni sem hafa verið afskaplega taumliprir við Alþb.-ráðh. á þessu ári.

Framsfl. á hvorki meira né minna en sex ráðh. í þessari ríkisstj., fjóra í flokknum og tvo utan flokksins, sem eru skráðir annars staðar, og hann ætti því auðvitað að vera hið ráðandi afl í þessari ríkisstj. En Alþb., þó að það eigi ekki nema tvo ráðh. í flokknum — (Gripið fram í:) Já, tvo í flokknum og hefur fengið þann þriðja til liðs við sig. (Gripið fram í: Ertu búinn að reka einn úr flokknum?) Þetta eru framsóknarmenn þarna, þessir tveir. Þá gengur dæmið upp, Guðmundur, er það ekki? — Þeir eru þarna helmingi færri en framsóknarmennirnir. Svo situr þarna einn sjálfstæðismaður sem lítið lætur á sér bera, og væri nú best fyrir hann að fara að hrista af sér slenið og standa upp og bjóða þeim góða nótt sem fyrir eru.

Það þótti mikill hvalreki á fjörur framsóknarmanna og Alþb. þegar þeim tókst sú stjórnarmyndun sem leiddi til sköpunar þeirrar ríkisstj. sem segist vera við völd í þessu landi, en fer ákaflega lítið fyrir. Það var mikið gleðiefni nokkurra hrekkjastráka í Alþb. og Framsfl. að hafa tekist að kljúfa Sjálfstfl. Það þótti alveg óskaplega gaman og það var hoppað og dansað af kæti fyrstu dagana á eftir og þeir töldu að ríkisstj. ætti næstum því eins mikið af þjóðinni á bak við sig og Kosygin sem var vanalega kjörinn í sínu kjördæmi í Sovétríkjunum, með 98% atkvæða, — Stalín fékk 100%. Hún gat ekki talið sig hafa 100%, en taldi sig lukkustjórnina. En það liðu ekki margir dagar eða margar vikur að hún er kölluð „lukkan“ eða „uppákoman“ af öllum hugsandi mönnum í þessu þjóðfélagi. Ég held að það hafi verið of snemmt að fagna klofningi í Sjálfstfl., þó að gamall maður, sem sá ekkert annað en að verða forsrh., hafi fengið metnaði sinum fullnægt og ekki hikað við að gerast liðhlaupi úr sínum flokki.

Ég tel það ekkert gleðiefni þó að við heyrum að það séu deilur eða jafnvel klofningur í öðrum flokkum þó að þeir séu andstæðir mér í skoðunum. Ég tel ekkert gleðiefni upphlaup og læti í Alþfl. En ég verð að segja Framsfl. eitt til hróss. Það var stór dagur í Framsfl. þegar fyrrv. formaður hans losaði sig við Möðruvellingana. Þeir drápu Samtökin á örstuttum tíma. Lengst af stóð Karvel einn. Að vísu var Magnús Torfi eitthvað, en hann var orðinn hallur undir Framsókn. Svo fóru þeir í Alþb. og ég er alveg viss um að gamlir og rótgrónir Alþb.-menn horfa með allmiklum kvíða til framtíðarinnar. Það var ekki af neinni elsku sem Framsfl. losaði sig við upphlaupsmenn.

Eftir því sem meiri sundrung verður í stjórnmálaflokkum sem eru í landinu, þeim mun meiri er órói meðal þjóðarinnar. Samheldni stjórnmálaflokka á að vera, og ef menn ekki geta verið í sínum flokki, eiga ekki samleið með þeim sem fyrir eru, þá er auðvitað ekkert við því að segja þó menn yfirgefi flokkinn, eins og t.d. gjaldkeri Alþfl. gerði fyrir nokkrum dögum. Hann skilaði af sér starfi sínu og gerði það heiðarlega. Hann var ekkert fyrir öðrum. Hann taldi sig ekki eiga samleið með þeirri stefnu sem hafði verið ríkjandi í Alþfl. Það hefur verið innleidd með myndun „Lukku“, sem nú er „ólukkan“ eða „uppákoman“, tortryggni á milli stjórnmálaflokka. Það hefur verið fótum troðin sú hefð, sem hefur verið ríkjandi, og trúnaður á milli flokka og flokksforingja að treysta hver öðrum í samtölum og samningum þó að þeir hafi ekki átt leiðir saman við myndun ríkisstj. eða í hinum einstöku málum. (Fjmrh.: Hvernig tengist þetta olíugjaldinu?) Það tengist olíugjaldinu, fjmrh., allt sem lýtur að efnahagsmálum og stjórnmálum. Olíugjaldið er aðeins lítill hluti af því sem þarf að gera í þessu landi. Fjárl. eru meira að segja ekki allt, þó að það sé stór og myndarleg bók hjá hæstv. fjmrh. Atvinnulífið í landinu er enn meira virði, og það er það sem ég hef áhyggjur af. Ég vona að hæstv. fjmrh. hafi einnig áhyggjur af því, hvernig komið er fyrir atvinnulífinu í landinu og hvað atvinnuöryggið hangir nú á veikum þræði. (Gripið fram í: Heldurðu að hann geti skilið það?) Jú, jú, þetta er greindur maður og gegn. Ef hann opnar fyrir móttakarann á hann að skilja það.

Ég hef verið nokkuð langorður og ég sé að hæstv. fjmrh., sem hefur sýnt mér þá miklu virðingu að koma hér öðru hvoru inn, er orðinn dálítið órór undir þessari ræðu og hefur sennilega talið að ég mætti ekki nefna neitt annað en olíugjald í ræðunni. Ég hef farið mjög út fyrir það vegna þess, sem ég sagði áðan, að olíugjaldið er aðeins lítill vandi af stórum vanda. Og það er þetta, sem Alþ. er farið að lengja eftir, að vita hvort ríkisstj. ætlar eitthvað að gera í baráttunni við verðbólguna og þá hvað hún ætlar að gera. Það er kominn tími til að ríkisstj. fari að vita það. Hún er búin að sitja síðan 8. febr. og nú er ætlast til þess að hún hafi skoðun. Ef hún hefur enga skoðun, ef hún hefur ekki afl eða kjark til að gera neitt, þá held ég að hún hljóti að verða að fara frá.