19.02.1981
Neðri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hef tvær fsp. að flytja til hæstv. forsrh. og hafði gert honum viðvart um það í morgun, en hæstv. ráðh. er nú sennilega í Ed. og vil ég biðja hæstv. forseta að athuga hvort hann gæti brugðið sér af bæ úr Ed., þar eð ég veit að hæstv. forsrh. hefur undirbúið svör við þessu (ÓRG: Það er annar þingmaður Alþfl. að ræða við hann í Ed.) Ég tek eftir því, hæstv. forseti, að hv. Ed.-þingmaður er farinn að skipta sér af umræðum hér. (Forseti: Við skulum gera örstutt hlé meðan kannað verður hverju fram vindur. Það er gert fimm mínútna fundarhlé. Fundi er frestað í fimm mínútur. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Í fréttum útvarpsins í gærkvöld var verið að skýra frá niðurstöðum af fréttayfirliti um afleiðingar óveðursins, sem dundi yfir Ísland, hvað varðar flesta staði landsins. En þá var jafnframt byrjað að skýra frá því, að fréttir væru þá fyrst að fara að berast frá ýmsum stöðum í Vestfjarðakjördæmi. Ástandið þar var með þeim hætti, að algjörlega sambandslaust hefur verið við — að vísu fámennan stað — Ketildall í meira en eina viku. Ekkert samband var fram á miðjan dag í gær allt frá Brú í Hrútafirði og norður um alla Strandasýslu og vissi enginn fyrr en um miðjan dag í gær hvað þar hefði gerst. Sama máli gegnir um Reykhólasveitina alla, um Barðastrandahrepp og fjölmörg önnur Byggðarlög á Vestfjörðum. Það var því fyrst í gærkvöld — á miðvikudagskvöldi — sem einhverjar fregnir fóru að berast af því fólki sem þessa staði byggir. Við vitum ekki enn hvernig óveðrið hefur teikið ýmsa íbúa Vestfjarða, sem ekkert samband hafa getað haft við umheiminn jafnvel í heila viku.

Ég vildi vekja athygli á því, herra forseti, að á þeim tímum nútímatækni þegar við fáum nokkurn veginn jafnsnemma hér uppi á Íslandi fréttir af náttúruhamförum sem verða úti í hinu stóra heimi, jarðskjálftum og eldgosum á Ítalíu og Grikklandi, líða svo margir dagar, jafnvel heilar vikur að við vitum ekkert um örlög fólks sem byggir okkar eigið land og þarf náttúruhamförum að mæta. Þessu vildi ég vekja athygli á, að enn þá vitum við ekkert um hvaða áhrif þetta mikla óveður kann að hafa haft á fjölmargt fólk í mínu kjördæmi. Þaðan hefur ekkert frést.

Í því tilefni vildi ég beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh. hvort hann sem yfirmaður Framkvæmdastofnunar ríkisins vildi ekki veita sinn atbeina til þess að hraðað verði gerð síðari þáttar svokallaðrar Vestfjarðaáætlunar, en fyrri þætti þeirrar áætlunar var lokið fyrir allmörgum árum, en engar framkvæmdir við þá áætlun hafa síðan verið. Ég vildi spyrja að því af þessu tilefni, hvort hæstv. forsrh. vildi ekki veita atbeina sinn til að hrinda af stað framkvæmd við þessa áætlanagerð að nýju svo að sú stórkostlega einangrun, sem ég er að vekja hér athygli á, verði rofin.

Í annan stað langar mig til að vekja athygli á því, að á sama tíma og þetta hefur gerst er fólk dögum saman og jafnvel upp í heila viku sambandslaust við umheiminn, enginn sími, ekkert útvarp, engar vegasamgöngur, engin hafnaraðstaða og engin leið hvort heldur að láta frá sér fara skilaboð, biðja um hjálp eða þiggja slíka hjálp. — Þá hefur verið hreint neyðarástand í raforkumálum á þessu sama landssvæði. Það er fyrst í dag sem frystihúsin og önnur stórvirk atvinnufyrirtæki hafa komist í gang, en rafmagn hefur verið skammtað alla þessa viku. Orkubú Vestfjarða býr nú við þær aðstæður, að það þarf að sæta afarkostum við kaup á raforku frá Rafmagnsveitum ríkisins, — slíkum afarkostum að það þarf nú að borga umfram það verð, sem aðrir njóta, um 2 millj. nýkr. á mánuði. Þetta samsvarar því, að fyrir hvern mánuð, sem Orkubúi Vestfjarða er gert að sæta þessum afarkostum, þyrfti að hækka gjaldskrá Orkubúsins á ársgrundvelli um 6.7%. Orkubúið hefur þurft að sæta þessum afarkostum í raforkukaupum og raforkuskorti síðan í desember. Ef Orkubúið ætti að mæta því með eðlilegum hætti væri rafmagn á Vestfjörðum nú 20% dýrara en það er annars staðar á landinu.

Forsendur fyrir því, að Orkubúið var stofnað, eru þrjár: Í fyrsta lagi, að fullnægt verði orkuþörf Vestfirðinga með innlendum orkugjöfum. Í öðru lagi, að Vestfirðingar búi við sambærilegt orkuverð og aðrir landsmenn. Og í þriðja lagi, að fyrirtækið hafi traustan rekstrargrundvöll. Þessum forsendum er alls ekki fullnægt nú, en þetta voru forsendur fyrir því, að sveitarfélögin gengu til stofnunar Orkubús Vestfjarða.

Málið hefur verið lagt fyrir hæstv. forsrh. og ríkisstj. hans og þess óskað, að ríkisvaldið veitti atbeina sinn til þess að koma í veg fyrir þann gífurlega orkuskort, sem hrjáir nú byggðir á Vestfjörðum, og koma í veg fyrir að aðbúnaður Vestfirðinga í orkumálum væri svo miklum mun verri en annarra landsmanna. Hæstv. ríkisstj. fjallar nú um það mál. Ég vildi óska eftir því við hæstv. forsrh., að hann segði nú frá því, hvaða niðurstöður væru væntanlegar í þessu máli og hvort hæstv. forsrh. vildi ekki einnig veita atbeina sinn til þess að á því fengist góð lausn.

Herra forseti. Ég þakka forseta og forsrh. fyrir að gefa mér tækifæri til að bera þessar fsp. fram. Til þess að tefja ekki meira tíma þingsins en nauðsyn krefur mun ég ekki taka aftur til máls í þessum umr., en þakka hæstv. forsrh. svör hans fyrir fram.