19.02.1981
Sameinað þing: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að hv. 1. þm. Vesturl. hefur hafið utan dagskrár umræður um óveðrið sem skall yfir á mánudagskvöld og aðfaranótt s.l. þriðjudags. Ég þarf ekki hér að fara að lýsa neinu um það, hvað þá skeði. Hv. 1. þm. Vesturl. gerði það ítarlega og okkur er öllum kunnugt um þau mál.

Þó er rétt að leggja sérstaka áherslu á það, að svo mikill skaði sem var hér næst okkur, í höfuðborginni og næstu byggðarlögum, þá var skaðinn ekki minni víðs vegar úti um landið. Þetta vill stundum gleymast. M.a. var það heldur óheppilegt hvernig haldið var á þessum málum óveðursnóttina því að útvarpinu var haldið opnu einungis meðan óveðrið var að ganga yfir Reykjavík og nágrenni, en látið svo sem ekki þyrfti að hafa möguleika á að koma skilaboðum til almennings í landinu, meðan óveðrið var að ganga yfir annars staðar, og útvarpinu þess vegna lokað.

Það verður ekki ofmælt um hve mikið tjón hefur orðið. En viðfangsefnið núna er að bregðast rétt við. Og við eigum allir að vera sammála um að til þess að gert verði það sem nauðsynlegt er þarf fjármagn. Auðvitað þarf að gá að ýmsu öðru. Hæstv. félmrh. hefur hér gert okkur grein fyrir því, hvað ríkisstj., að hans tillögu, eftir því sem hann upplýsti, hygðist gera varðandi þessi mál. Það voru nokkur atriði, sem þar komu fram, sem ekkert er nema gott um að segja. Ég lýsi ánægju minni yfir því, að ríkisstj. skuli hafa tekið þetta mál fyrir, enda hlaut svo að verða. Hvaða ríkisstj. sem hefði setið að völdum hefði gert slíkt.

Hæstv. ráðh. talaði um að þeir teldu að það þyrfti að fara fram könnun á því tjóni sem orðið hefur. Auðvitað er rétt að það þarf að ske. Það er náttúrlega undirstaðan undir því, hvert framhaldið verður. Hæstv. ráðh. sagði að ríkisstj. gerði ráð fyrir að undirbúa breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Hann gat þess enn fremur, að ætlunin væri að endurskoða lög um Bjargráðasjóð og sérstaklega athuga um skiptingu verkefna milli þessara stofnana. Að lokum kom það fram í máli hæstv. ráðh., að ríkisstj. hefði í huga eða vildi taka til athugunar hvað þyrfti að gera við afgreiðslu frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1981 til þess að afla fjármagns til að bæta þeim tjón sem urðu fyrir því í þessu ofviðri.

Hæstv. ráðh. flutti hér allfróðlegan pistil um ástand Viðlagatryggingar Íslands og Bjargráðasjóð. Hann gat þess, að mál þessara stofnana væru í undirbúningi og hann hefði skipað sérstaka nefnd til að vinna að því máli á síðasta ári. Það var að skilja á hæstv. ráðh., að það færi líka fram heildarendurskoðun hjá vátryggingarfélögum í landinu, og fleira taldi hann til. Um þetta er ekkert nema gott að segja. En einmitt þetta, að svo mikið þarf að aðhafast í þessum efnum, má ekki verða til þess að það seinki beinum aðgerðum til að koma til aðstoðar því fólki sem varð fyrir tjóni af ofviðrinu í byrjun vikunnar. Ég held að þessi tryggingamál séu almennt þess eðlis, að við þurfum vel að vanda allan undirbúning að framtíðarskipan þeirra mála. Og með því að það þarf að gera tel ég að það megi ekki bíða eftir að því verki sé lokið að grípa til beinna aðgerða vegna ofviðrisins sem nú skall yfir.

Með tilliti til þessa hef ég ásamt fimm öðrum sjálfstæðismönnum í Ed. lagt fram brtt. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1981 á þskj. 442. Þessi till. er á þá leið, að fjmrh. verði heimilað fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1981 að fjárhæð allt að 30 millj. kr. eða 3 milljörðum gkr. og veita Bjargráðasjóði það fjármagn til ráðstöfunar samkv. 8. gr. laga nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð.

Hvers vegna er þessi till. fram komin um að efla Bjargráðasjóð, en ekki t.d. Viðlagatryggingu Íslands? Það er vegna þess, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh., að samkv. lögum er Viðlagatryggingu ekki heimilt að bæta það tjón sem varð í ofviðrinu í vikunni, en samkv. lögum er Bjargráðasjóði það heimilt. Bjargráðasjóður hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að gera neitt í þessu efni. Því er farin sú leið með þessum tillöguflutningi, að það verði veitt sérstakt fjármagn til Bjargráðasjóðs í þessu skyni.

Auðvitað verður að liggja fyrir hvað þetta tjón er mikið og það liggur ekki fyrir enn þá. Þess vegna er upphæð sú, sem sett er í tillögu okkar um eflingu Bjargráðasjóðs, 30 millj. kr., áætlunartala. En það hlýtur að vera hægt að halda svo á málum að það liggi ljóst fyrir hvað tjónið er mikið, þegar þessi till. verður afgreidd og frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1981. Þá kann að vera að þessi tala þurfi að koma til endurskoðunar.

Ég vil enn fremur vekja á því athygli, að samkv. þessari tillögugerð er ekki tekið svo til orða að ríkissjóður skuli endurlána Bjargráðasjóði það fjármagn sem hér er um að ræða. Það er af ásettu ráði ekki orðað svo vegna þess að það gæti verið lagt til þannig, að Bjargráðasjóður yrði að ráðstafa þessu fé með lánskjörum sem ekki samrýmdust venju við þá aðstoð sem Bjargráðasjóður hefur veitt, þ.e. lán með lágum vöxtum eða bein óafturkræf framlög. En með þessu móti á að vera séð fyrir því, að hægt sé að ganga núna til verks og koma við aðstoð á næstunni við það fólk sem hefur orðið fyrir tjóni í ofviðrinu. En á meðan getum við athugað gaumgæfilega öll þau mál og allar þær hliðar sem hæstv. félmrh. dró hér upp af ástandi mála almennt varðandi Viðlagatryggingu, Bjargráðasjóð og vátryggingamál í landinu.

Herra forseti. Mér þótti rétt að vekja hér í Sþ. athygli á þessu máli og þessari till., sem ég hér hef greint frá, en hún er að sjálfsögðu borin fram í Ed. þar sem frv. um lánsfjárlög fyrir árið 1981 er til umr.