19.02.1981
Sameinað þing: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

Umræður utan dagskrár

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir ítarleg svör við tilmælum mínum og ég treysti því, að hæstv, ríkisstj. fylgi þessu máli eftir. Það er alveg rétt, sem áhersla hefur verið lögð hér á, að það þarf aðgerðir strax í þessu máli fyrir allan þann mikla fjölda fólks sem er ráðþrota gagnvart þessu gífurlega tjóni. Það treystir á vissar aðgerðir nú þegar.

Ég vil taka undir þær tillögur, sem samþ. voru á ríkisstjórnarfundi í morgun, og fagna þeim. Þær stefna allar í rétta átt, því að auðvitað eigum við að miða þær aðgerðir, sem þetta mikla tjón hefur vakið upp, við að tryggja að ef slíkar náttúruhamfarir koma fyrir aftur verði menn ekki eins berskjaldaðir fyrir tjóni og raun varð nú.

Ég geri ráð fyrir að sveitarfélögin bregðist vel við að safna upplýsingum. Það verður fundur í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga á morgun sem mun sérstaklega taka þetta mál til meðferðar. Ég geri ráð fyrir að það verði mjög hert á því, að samstarf sveitarfélaganna við ríkisstj. um alla upplýsingaöflun í sambandi við þetta gífurlega tjón verði hraðað eftir föngum.

En aðalatriðið er, að við alþm. hljótum að vera samstiga í þessu máli og stuðla að því með ríkisstj., að þær ráðstafanir verði gerðar sem bæði koma að gagni, miðað við ástandið nú, og tryggja framtíðina í þessum málum. Það er aðalatriðið.