23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (2629)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Í umr. fyrir helgi gagnrýndi ég mjög þau vinnubrögð að taka lánsfjáráætlun hér til umfjöllunar áður en ýmis þau töluleg gögn, sem lánsfjáráætlun þurfa að fylgja, lægju fyrir og áður en lánsfjáráætlun lægi fyrir í heild. Ég krafðist þess þá, að umr. yrði ekki haldið áfram fyrr en frekari upplýsingar bærust.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, að það eru fráleit vinnubrögð að taka lánsfjárlög til meðferðar áður en lánsfjáráætlun liggur fyrir. Nú hefur ráðh. hins vegar ráðist í að tína saman ýmis gögn til að varpa frekara ljósi á lánsfjárlögin eins og þau liggja fyrir, gögn sem væntanlega verða hluti af lánsfjáráætlun ef hún sér einhvern tíma dagsins ljós, sem verður að ætla samkv. þeim upplýsingum sem ráðh. gaf hér fyrir helgina. Alla vega hafa þessi gögn orðið til þess að varpa ljósi á málið.

Það verður þó að segjast eins og er, að enn skortir mikið á að eðlilegar upplýsingar liggi fyrir, og lánsfjáráætlun liggur alls ekki fyrir. Það skortir upplýsingar um þjóðhagsáætlun og það skortir upplýsingar um peningamál. Um það höfum við engin gögn fengið. En aðrir þættir eru tölulega séð allvel upplýstir, að því er mér virðist af skjótri yfirsýn yfir þau gögn sem ráðh. hefur lagt fram. Ég verð þó að segja það, að mér bárust ekki þessi gögn fyrr en eftir að fundur hófst hér og þess vegna hefur mér ekki gefist tóm til að gaumgæfa þau eða skoða að neinu ráði. Af þeim orsökum er mér líka erfitt um vik að setja fram málefnalega gagnrýni, málefnalega umsögn um þau lánsfjárlög og þau gögn sem hér hafa verið lögð fram. En þar sem mótmæli mín frá því fyrir helgi hafa borið þann árangur, að þessi gögn hafa borist, þá mun ég ekki halda því til streitu að umr. verði enn frestað, heldur get fallist á að málinu verði nú vísað til nefndar, þó að ég ítreki enn að vinnubrögðin í heild eru síst af öllu til fyrirmyndar og alls ekki til eftirbreytni og ættu alls ekki að vera með þessum hætti. En viðleitni ráðh. mun ég virða með því að fallast á, að málið gangi nú til nefndar, og tel að eins og mál hafa þróast muni málefnaleg umfjöllun um þetta verða með eðlilegri hætti eftir að nefndin hefur haft málið til umfjöllunar. Ég mun því taka málið fyrir efnislega þegar nefndin hefur um það fjallað.