23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2471 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að vera margorður um þetta frv., en vegna fyrri ummæla hæstv. sjútvrh. höfðum við sjálfstæðismenn gert okkur vonir um að nú, eftir allan þann tíma sem liðinn er frá því að olíugjald var síðast ákveðið, yrðu komnar fram ákveðnar tillögur um breytingu á þessu gjaldi. Það hafa verið gefin nokkur fyrirheit um það, að að þessu yrði unnið, en því miður virðist ekki ætla að verða hér nein breyting á. Ég geri ekki ráð fyrir að við tefjum fyrir því, að þetta frv. geti gengið á eðlilegan hátt gegnum þingið. En mér finnst að allan þennan tíma, sem liðinn er, og allan þann tíma, sem tekið hefur að ákvarða fiskverð, hefði átt að gefast nokkurt ráðrúm til að vinna betur að þessu máli en sýnist hafa verið gert.