23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns vil ég staðfesta að það er rétt hjá honum, að hann ætlaði þeirri nefnd, sem hann skipaði, meira verkefni en olíugjaldið eitt. Hins vegar er það nú svo, að olíugjaldið tengist mjög hlutaskiptareglum, og ég held ég megi fullyrða að umr. í nefndinni hafa snúist fyrst og fremst um það, hvernig fram hjá olíugjaldinu verði komist eða það fléttað inn í hlutaskiptareglur. M.a. tengjast þær tillögur, sem fyrrv. formaður nefndarinnar og forstjóri Þjóðhagsstofnunar lagði fyrir um hlutaskiptareglur, því beint, hvernig olíugjaldinu verði breytt. Það er því mikilvægur þáttur í störfum nefndarinnar. Ég held að hv. þm. hljóti að viðurkenna að sú nefnd hefur fjallað mjög um olíugjaldið. M.a. á sameiginlegum fundi, sem ég átti með þessari nefnd, var fyrst og fremst um það rætt.

Hv. þm. sagði að ég hefði verið mótfallinn þeim frv. sem ég lagði fram. Þetta er náttúrlega ekkert annað en venjulegur útúrsnúningur. Ég hef alltaf sagt að ég vilji finna aðra leið, en ég vil ekki leggja til aðra leið á meðan ekki næst um hana samstaða við hagsmunaaðila. Ég tel ákaflega mikilvægt að samstaða náist um þetta. Því hef ég t.d. ekki talið fært að skipa nefnd pólitískra aðila til að gera tillögur um aðra leið. Meðan ekki næst samstaða um annað en olíugjaldið sé ég mér skylt að flytja slíkt frv. áfram, ekki síst á meðan það er liður í því samkomulagi sem gert er í Verðlagsráði sjávarútvegsins um fiskverð.

Ég tel að það væri skynsamlegra að greiða olíuna á annan hátt en með tilliti til aflaverðmætis. Þessu hef ég hvað eftir annað lýst, og það væri út af fyrir sig fróðlegt að vita hvort hv. þm. er mótfallinn því, að æskilegt væri að greiða hana á annan máta. Vitanlega er ljóst að t.d. þeir togarar, sem eiga langt að sækja og nota mikla olíu til þess, fara mjög illa út úr þessari aðferð og hún kemur ójafnt niður. Þetta er t.d. tiltölulega góð leið fyrir togara í mínu kjördæmi. Það breytir hins vegar ekki því, að ég tel að þessi leið sé eins og ég hef margsinnis sagt, ekki sú besta. Við förum hana af því að við höfum ekki náð samstöðu um aðra betri.

Út af því, sem hv. 9. landsk. þm. sagði, vil ég taka fram, að það er rangt hjá honum að ekki hafi verið unnið að því að leita að öðru. Unnið hefur verið allmikið að slíku, bæði í þeirri nefnd, sem ég ræddi um áðan, og einnig hef ég átt viðræður við hagsmunaaðila um aðrar leiðir, m.a. þá sem sjálfstæðismenn og reyndar fulltrúi Alþfl. í Nd. mæltu með: að greiða olíu af almannafé. Ég hef tekið það mál upp bæði í ríkisstj. og við hagsmunaaðila og það hefur verið rætt í Verðlagsráði og reyndar víðar. Um þá leið hefur ekki heldur náðst samstaða. Menn hafa lýst sínum efasemdum með hana. Það er því rangt að ekki hafi verið leitað að öðrum leiðum, en hitt er rétt, að ekki hefur tekist að ná samstöðu um aðrar leiðir.