23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mig langar til að biðja hv. 9. landsk. þm., út af því sem hann sagði áðan, að upplýsa dálítið nánar hvernig hann vildi tryggja stöðu frystingarinnar. Hv. þm. sagðist telja að gengið væri rangt skráð. Miða ætti við þær greinar sem lakar stóðu, frystingu og söltun. Nú má reyndar segja að gengið sé miðað við söltunina nokkurn veginn. Ef átt hefði að miða gengið við frystinguna hefði orðið að fella það um svona u.þ.b. 4.5 – 5%. Ég vil gjarnan spyrja hvort það sé till. hv. þm., að gengið hefði verið fellt um 4.5 – 5% til viðbótar. Það er náttúrlega ákaflega mikilvægt innlegg í málið.

Út af orðum hv. 2. þm. Reykn. get ég út af fyrir sig tekið undir það með honum, að gæðin eru áreiðanlega númer eitt. Ég tel hins vegar að með þeirri breytingu, sem gerð er, sé því ekki stefnt í hættu. Ég tel að 10% munur á kassafiski sé ekki það lítill munur, að þessu sé stefnt í hættu. Og ég vek athygli á því, sem því miður hefur í vaxandi mæli átt sér stað, að skreiðarframleiðendur hafa beinlínis yfirboðið fisk úr öðrum og þriðja gæðaflokki af því að skreiðin hefur gefið mikið af sér. Ég tel því að það hafi ekki verið óeðlileg viðleitni seljenda og kaupenda, sem komu sér saman um þetta og gerðu mér grein fyrir því á sínum tíma, að sporna gegn slíku með nokkurri verðlagsbreytingu. Ég get upplýst að menn veltu mikið vöngum yfir því, hve langt væri óhætt að ganga í þessu sambandi.

Breytingin eða tilfærslan í útflutningsgjaldi verkar í raun og veru alveg á sama máta, og það er hún sem er hér til umræðu, nema að því leyti að hún stuðlar ekki eins og verðbreyting að því að menn komi frekar með lélegri fisk til lands. Hún verkar gegn því að menn yfirbjóði lélega fiskinn til að setja hann í skreið, þar sem hagnaður er þá orðinn minni. Það er af þeirri ástæðu að ég tel eðlilegt, eins og nú er ástatt á mörkuðunum, að fara þá leið. Það má kannske deila um það, hvort það átti að fara meira þá leið og þá minna hina leiðina, að breyta verðhlutfalli á milli gæðaflokka. Það er atriði sem vel hefði mátt ræða.

Hv. þm. ræddi nokkuð um það, að tekinn væri upp fyrri ósiður að yfirdraga hjá Verðjöfnunarsjóði. Þetta hefur oft verið gert. Þetta var gert op samþykkt nákvæmlega á sama máta 1975 og 1977. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með honum, að það er æskilegt að losna við slíkt. Hins vegar hefur það nú gerst með frystinguna, að nánast engin hækkun hefur orðið á frystum afurðum í eitt og hálft ár, sem ég hygg að telja verði heldur óeðlilegt miðað við aðrar hækkanir sem orðið hafa á dollaramörkuðum. Spurningin er þá hvort eigi til að halda þeirri reglu að Verðjöfnunarsjóður yfirdragi ekki — fremur að fella gengið að fullu, eins og nauðsynlegt er til að mæta þörfum frystingarinnar. Er það eina leiðin sem hv. þm. vilja samþykkja til að mæta þörfum frystingarinnar? Bara fella gengið?

Jú, vitanlega má segja að önnur leið sé að samþykkja miklu lægra fiskverð. Ég var þeirrar skoðunar og er, að rétt hafi verið að leita samstöðu nú með sjómönnum og með seljendum, bæði með tilliti til afkomu útgerðarinnar, sem kom í ljós að var langtum, langtum lakari en áður hafði verið talið eftir þá útreikninga sem Þjóðhagsstofnun setti fram 12. jan., tvöfalt lakari, og tekna sjómanna. Tel ég að miklu minni fiskverðshækkun hafi verið nánast. útilokuð vegna afkomu útgerðarinnar.

Ég vil einnig leyfa mér að halda því fram, að eins og fiskverðsákvörðun hefur þróast síðustu árin sé ekki óeðlilegt að sjómenn leiti þar hækkunar á sínum tekjum nokkuð til jafns við það sem hefur orðið í landi. Það er staðreynd, að sjómenn munu ekki fá neina umtalsverða hækkun á sínum tekjum í gegnum aflaaukningu á þessu ári, ekki er hægt að gera ráð fyrir því a.m.k. Einnig blandast inn í þetta þeir samningar sem sjómenn og útgerðarmenn eiga nú í.

Margir hafa fordæmt það, að launamál sjómanna hafa dregist inn í fiskverðsákvörðun. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel reyndar að með þeirri staðreynd, að löggjafinn hefur ætlað sjómönnum þar sæti, sé til þess ætlast að afkoma sjómanna sé skoðuð á sama stað að einhverju leyti. Og með þeirri breytingu, sem gerð var 1964, þegar bætt var inn þeim litlu orðum „meðal annars“ — þar segir að taka skuli meðal annars tillit til markaðsverðs og framleiðslukostnaðar“ — sé slíkt gefið til kynna. Ég vek athygli á því, að í fjölmörgum tilfellum undanfarin ár hefur fiskverðsákvörðun tekið mjög mið af þessu og oft orðið nákvæmlega sú sama sem hún hafði þá þegar orðið hjá landmönnum. Það eru mörg dæmi til þess svo að ég tel að sú fiskverðsákvörðun, sem nú varð, hafi verið skynsamleg og ég fagna henni. Það tók langan tíma að ná henni, það er alveg rétt, málið var mjög viðkvæmt. Ég tel að rétt hafi verið að rasa ekki um ráð fram.

En sem sagt, með tilliti til ástandsins alls er forvitnilegt að heyra, ekki síst frá hv. 9. landsk. þm., hvernig hann vildi tryggja afkomu frystingarinnar.