23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Mér dettur í hug að það sé í samræmi við allar aðfarir við ákvörðun fiskverðs og tilburði hæstv. ríkisstj. til að ná saman heillegri efnahagsstefnu núna frá áramótum, að niðurstaðan er sú í þessu frv. að leggja sérstakan skatt á herta þorskhausa. En ég skal nú ekki fara lengra út í þá sálma og tek undir það sem hér kom fram hjá hv. 9. landsk. þm. í sambandi við þetta mál út af fyrir sig.

En það, sem kom mér til að taka til máls núna við þessa umr., voru ummæli hæstv. ráðh. Hann viðurkenndi að gengið þyrfti að vera 4 – 5% lægra til þess að aðalútflutningsgrein okkar bæri sig. Ég endurtek: til þess að aðalútflutningsgreinin og sú langþýðingarmesta bæri sig. Og hæstv. ráðh. varpaði hér fram þeirri spurningu, hvort það eina, sem þm. hefðu til málanna að leggja væri að viðurkenna rétta gengisskráningu, að viðurkenna að aðatútflutningsgrein okkar þyrfti að fá uppi borinn kostnað við að afla gjaldeyrisins.

Ég vil segja hæstv. ráðh. að það er auðvitað algjörlega útilokað að hugsa sér að fara þá leið sem ríkisstj. er að gæla við að gera. Það gerir náttúrlega enginn maður, sem ekki vill láta kenna sig við hertan þorskhaus, að festa gengi krónunnar í 40 — 50% verðbólgu og segja: þetta er allt í himnalagi. — Ef verðbólga er eins og í okkar viðskiptalöndum, þá getum við haldið gengi stöðugu og þá þurfum við ekkert að deila um gengisskráningu.

Ég vil vekja athygli hæstv. ráðh. á því — ef hann og einhverjir aðrir í ríkisstj., sem ég tel að séu þrátt fyrir allt það skyni bornir, vilja hlusta á hvað þetta þýðir — að þetta verður til þess, að ekki aðeins þarf að yfirdraga svo og svo mikið til að halda aðalútflutningsgrein okkar fljótandi bara núna nokkra mánuði. Og það fé kemur, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki annars staðar frá en frá okkur sjálfum á einn eða annan hátt. En þetta þýðir líka að nú verða stórfelldir erfiðleikar fyrir aðrar atvinnugreinar. Við skulum segja að við getum borgað þessari atvinnugrein hallann, aðatútflutningsgrein okkar hallann af þessari röngu stefnu, vegna þessarar röngu stefnu. En hvernig ætla menn að fara að bæta öðrum atvinnugreinum þetta?

Um áramótin var fellt niður aðlögunargjald af innfluttum iðnaðarvörum. Og nú kemur fram hjá hæstv. ráðh. að hann telur að gengið sé skráð 4 – 5% of hátt, þ.e. gjaldeyririnn, sem erlendir aðilar nota til að flytja hingað inn vörur, er á útsölu miðað við innlent kostnaðarverðlag fyrir þá sem eru að keppa við þá. Allir, sem framleiða iðnaðarvörur erlendis og flytja þær inn til Íslands, fá að flytja vörur inn fyrir 4.5 – 5% lægra innflutningsverð en þeir ættu í raun og veru að búa við. Þetta er atriði sem menn gleyma oft á tíðum, að þegar verið er að fjalla um gengisskráningu er ekki bara verið að tala um afkomu skreiðarframleiðenda eða frystingar eða söltunar. Það er verið að tala um almennt hagstjórnartæki, — tæki sem hefur gífurleg áhrif á alla aðra atvinnustarfsemi í landinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvað verður það að mati hans og rn. mikil upphæð sem þarf að borga með frystingunni þennan tíma? Og hvernig hugsar hæstv. ríkisstj. sér að afla fjár til að greiða þetta? Við skulum segja að fiskverð hækki ekki. Hæstv. ráðh. gat þess, að þetta hefði verið gert 1975 og 1977. Ég skal ekki draga fjöður yfir það. Það er ráðstöfun sem því miður varð að grípa til á þeim tíma. En þá vorum við svo heppnir að fiskverð hækkaði og ríkissjóður þurfti aldrei að hlaupa undir bagga. Hvað skeður núna ef svo verður sem okkur er sagt í opinberum skýrslum, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir hækkun á frystum afurðum á erlendum mörkuðum, þó við vonum að það gerist? Hvernig verður þá þeirra peninga aflað, sem dregnir eru yfir í Verðjöfnunarsjóðnum og hvað er þarna um að ræða miklar upphæðir, t.d. fram til 1. maí?