23.02.1981
Neðri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (2648)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það er alveg ótrúlegt hvað hv. þm., sem hér talaði síðast, spannar vítt svið. Hann getur ekki rætt hér um frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga öðruvísi en hann ættfæri einhvern tiltekinn mann í ákveðnum landshluta og tilgreini jafnvel til hvaða stjórnmálaflokks hans ætt hneigist. Og jafnframt fylgir atvikalýsing úr lífi þess ágæta formanns verkalýðsfélags norður á Raufarhöfn. Ég verð að segja að ég hef í langa tíð verið nokkuð undrandi oft og tíðum á hv. þm. og skal ekki vera að útskýra hér af hverju, enda held ég að það sé alger óþarfi gagnvart þeim sem á hlýddu.

Frv., sem hér er til umr., gengur sérstaklega í eina átt: að tryggja erlendu verkafólki betri rétt og koma á betri upplýsingaskyldu viðkomandi íslenskra atvinnurekenda, svo að það eigi aðgang að útdrætti um helstu samningsákvæði. Frv. miðar að því að tryggja þessu verkafólki ákveðin grunnréttindi sem við sjálfir vildum njóta ef Íslendingar væru ráðnir til einhvers ákveðins tíma erlendis. Við þekkjum öll þessi mál. Þetta vinnuafl starfar sér í lagi í fiskiðnaði. Hjá mörgum fyrirtækjum eru málefni þessa fólks í ákaflega góðu lagi og það er staðið fullkomlega við allar skuldbindingar gagnvart því. Aftur á móti, eins og vill verða, þá er þetta misjafnt. Og í sumum tilfellum er þetta allsendis ófullnægjandi og full ástæða til að tryggja þessu fólki ákveðinn rétt.

En í víðáttu sinni er hv. þm. allt í einu kominn inn á starfsmenn sendiráða og manni skilst helst að þetta sé spurningin um starfsmenn í rússneska sendiráðinu eða ameríska sendiráðinu og hvað þeir séu margir. Skyldi nú vera t.d. að þessi ákvæði í niðurlagi 2. tölul. 3. gr. eigi við sendiráðsmenn: „Í ráðningarsamningi sé einnig tilgreint hvernig háttað sé fæði og húsnæði.“ Dettur hv. þm. í hug að með þessu frv. sé verið að leggja þá skyldu á herðar t.d. norska sendiráðinu eða því ameríska, að það gefi starfsmönnum sínum nákvæmar upplýsingar um fæði og húsnæði? Hvers konar bull er þetta eiginlega? Geta menn ekki hreinlega tekið efnislega afstöðu til máls sem fjallar um ákveðna réttindaaukningu handa erlendu verkafólki og um ákveðna upplýsingaskyldu íslenskra atvinnurekenda svo að það njóti mannsæmandi réttinda? Þetta kemur ættfræði eða erlendum sendiráðum ekkert við. Þetta kemur við verkafólki, erlendu verkafólki sem sækir um vinnu á Íslandi og fær í sumum tilfellum rangar upplýsingar, öðrum tilfellum réttar. Það er verið að tryggja það með þessum lögum, að við stöndum að þessu eins og sómi okkar býður.

Það þýðir auðvitað ekkert að biðjast undan því að þurfa að hlusta á einhverja gagnmerka ræðu þessa hv. þm. hér að nýju. En ég held að það sé full þörf á að hann lesi frv. og átti sig á því, að það fjallar hvorki um ættfræði né erlend sendiráð.