23.02.1981
Neðri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

201. mál, sérhannað húsnæði aldraðra og öryrkja

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég er fyllilega sammála því frv. sem hér er á dagskrá og snýr að einum af þýðingarmestu þáttunum í þjónustu fyrir aldraða, þ.e. húsnæðis- og vistunarþættinum, þó vissulega sé fyllilega tímabært og nauðsynlegt að taka myndarlega á öllum þáttum vandans.

Ástandið í þessum efnum er þjóðfélaginu og okkur köllum til skammar. Talið er að 300–400 sjúk gamalmenni séu í heimahúsum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, en það er ástandið af ýmsum ástæðum verst. Svo til allt þetta fólk þarf á vistun í einu eða öðru formi að halda. Hluti vandans stafar af skipulagsleysi og því öryggisleysi sem gamla fólkið á við að búa í þessum efnum. Þegar fólk eldist og sér fram á nauðsyn vistunar á dvalarheimili fyrr eða síðar reynir það sem fyrst að tryggja sér pláss. Og vegna þess hve erfitt er að komast inn og biðlistinn langur er tekið fyrsta tækifæri sem býðst, jafnvel þótt fólk gæti og vildi vera einhver ár til viðbótar heima hjá sér. Ef það steppir tækifærinu hefur það enga tryggingu fyrir plássi þegar það þarf nauðsynlega á að halda.

Á dvalarheimilunum er því talsvert af fólki sem gæti og vildi vera lengur heima hjá sér, ef það hefði vissu um pláss þegar það þarf nauðsynlega á að halda. Á meðan verður að neita um pláss fjölda manns sem bráðnauðsynlega þarf á plássi að halda.

Það, sem stefna ber að, er:

Í fyrsta lagi að gamla fólkið geti verið eins lengi heima hjá sér og það vill og treystir sér til. Í því skyni verður að stórauka heimilisaðstoð og heimahjúkrun, fyrst og fremst vegna gamla fólksins sjálfs, en þar við bætist, eins og hv. 1. flm. frv. benti á, að það er langódýrasta lausnin fyrir ríkissjóð svo langt sem hún nær.

Í öðru lagi þarf að fjölga mjög sérsmíðuðum íbúðum fyrir aldraða þar sem boðið er upp á aukna heimilisaðstoð og heimahjúkrun, allt eftir því hverju fólk þarf á að halda og óskar eftir. Helst þurfa þær íbúðir að vera í tengslum við þjónustu dvalar- og/eða hjúkrunarheimila.

Í þriðja lagi þarf að vera til nægilegt rými á dvalarheimilum aldraðra þegar fólk treystir sér ekki eða vill ekki búa lengur í eigin húsnæði þótt víðtæk heimilisaðstoð og heimahjúkrun sé í boði.

Í fjórða lagi þarf að vera til nægilegt rými á hjúkrunarheimilum eða hjúkrunardeildum dvalarheimila þegar gamla fólkið er orðið svo lasburða að það þarf á mikilli hjúkrun að halda.

Í fimmta lagi þarf svo að vera nægilegt pláss á sjúkrahúsum þegar þess gerist þörf og þá helst á sérstökum öldrunardeildum þar sem séð er fyrir sérþörfum þessa fólks.

Á öllum stigum verður gamla fólkið að hafa aðgang að læknum með sérþekkingu á vandamálum aldraðra, t.d. á göngudeildum sem sérhæfa sig í öldrunarsjúkdómum. Aðalatriðið er að það þarf að vera til nægilegt rými til að fólk fái þá þjónustu sem það þarf á að halda hverju sinni, og það þarf að geta sjálft haft um það verulegt valfrelsi.

Ef gamalt fólk, sem hefur verið lasburða og þurft á vistun að halda, hressist á það að geta, ef það vill, farið heim til sín aftur í öruggri vissu þess, að það fái vistun við sitt hæfi hvenær sem á þarf að halda. Ef þannig væri um hnútana búið mundi það vistunarrými, sem nú er fyrir hendi, nýtast miklum mun betur en nú gerist. Það breytir þó engan veginn þeirri staðreynd, að mjög myndarlegt átak þarf að gera í byggingu sérsmíðaðra íbúða fyrir gamla fólkið. Það út af fyrir sig mun rýma meira húsnæði en byggja þarf í þessu skyni, — húsnæði sem gæti þá nýst yngra fólki.

Sömuleiðis þarf mjög myndarlegt átak í byggingu dvalarheimila og hjúkrunarheimila. Það ásamt byggingu sérsmíðaðra íbúða er reyndar forsenda þess, að þeim hreyfanleika og því valfrelsi, sem ég gat um, verði komið á. Auðvitað kosta þessar framkvæmdir mikla peninga, en á móti mætti draga nokkuð úr byggingarframkvæmdum á vegum sjúkrahúsa, sem í dag eru hálffull af öldruðu fólki, en margt af því á fremur heima á hjúkrunarheimilum eða hjúkrunardeildum dvalarheimila aldraðra. Sjúkrahúsin, sem eru dýr í byggingu, en langtum dýrari þó í rekstri, mundu nýtast mun betur en nú gerist og jafnframt yrði unnt að leysa á tiltölulega ódýran hátt mörg aðkallandi vandamál sjúkrahúsanna, ef þau væru ekki hálffull af langlegusjúklingum sem margir hverjir eiga, eins og ég sagði áður, fremur heima á hjúkrunarheimilum eða sérstökum langlegudeildum.

Hv. 1, flm. frv. gerði í framsögu sinni samanburð á kostnaði við rekstur hinna ýmsu sjúkrastofnana og hjúkrunarheimila. Eins og gefur að skilja eru hjúkrunarheimili langtum ódýrari í rekstri en sjúkrahúsin og því sjálfsagt að byggja upp og nýta þjónustu hjúkrunarheimila þegar hún er fullnægjandi. Hafa verður þó allan vara á í slíkum samanburði. T.d. gerði hv. þm. Pétur Sigurðsson samanburð á kostnaði við hjúkrunardeildir dvalarheimila aldraðra og öldrunardeild Landspítalans við Hátún. Því er engan veginn hægt að jafna saman. Öldrunardeildin við Hátún er rekin sem sjúkrahús með allri þeirri þjónustu sem því fylgir. Þar er t.d. mjög mikil endurhæfing, m.a. í formi göngudeildarstarfsemi, en kostnaður af henni kemur fyrst og fremst fram í útreiknaðri hækkun daggjalda.

Hv. 1. flm. frv. minntist í sinni framsögu á nefnd sem ég skipaði í apríl 1979 til að semja frv. til l. um öldrunarþjónustu. Tilgangurinn var að samræma og auka stórlega alla félagslega og heilbrigðislega þjónustu við gamla fólkið, bæði í heimahúsum og á stofnunum. Nefndin vann mjög vel og af miklum áhuga. Vil ég nota tækifærið til að þakka hv. þm. Pétri Sigurðssyni fyrir ágætan þátt sinn í störfum nefndarinnar. Nefndin skilaði drögum að frv. til l. um þessi mál 1. febr. 1980. Strax og ég fékk drögin í hendur sendi ég þau til sérfræðilegrar skoðunar í heilbrmrn., ekki síst til að ganga úr skugga um að lögformlegum aðgerðum væri fylgt í hvívetna, að þau stönguðust ekki á við önnur lög o.s.frv. Þannig stóðu málin þegar ég lét af embætti heilbrmrh.

Ég hef verið að vonast eftir því, allt frá því að þing kom saman s.l. haust, að hæstv. núv. heilbr.- og trmrh. legði frv. sitt — eða annað sem gengi í sömu átt — fyrir hið háa Alþingi. Í umr. á Alþingi um þáltill. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri um félagslega þjónustu fyrir aldraða sagði hv. þm. Guðrún Helgadóttir 30. okt. s.l. að hæstv. heilbr.- og trmrh. mundi á allra næstu dögum leggja fram á þingi frv. til l. um öldrunarþjónustu. Þessir allra næstu dagar eru orðnir býsna margir, nokkuð á annað hundrað, og enn hefur ekkert bólað á frv.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði s.l. mánudag við umr. um það mál sem hér er á dagskrá að til stæði að flytja frv. til l. um heilbrigðis- og vistunarmál aldraðra. Nafnið skipti auðvitað ekki máli, heldur hitt, að eitthvað róttækt sé í málinu gert og það fljótt, og vonast ég til að hæstv. ráðh. fylgi þessu máli vel eftir.

Herra forseti. Við megum ekki gleyma því, að það fólk, sem nú er orðið gamalt, er sú kynslóð sem meira en nokkur önnur hefur byggt upp það þjóðfélag sem við nú búum í, sú kynslóð sem lyft hefur stærri og fleiri Grettistökum en nokkur önnur frá upphafi Íslandsbyggðar, og er sú kynstóð, sem nú er á besta aldri, þar ekki undanskilin.

Við megum ekki heldur gleyma því, að við, sem yngri erum höfum byggt okkar íbúðarhús og byggt upp verulegan hluta af atvinnurekstri okkar með lánsfé frá þessu sama fólki, — lánsfé sem við höfum ekki greitt til baka nema að litlu leyti. Enn er það svo, að innlánsfé í bönkum er að langmestu leyti komið frá fullorðnu og gömlu fólki. Það eru því fjöldamargar ástæður sem við höfum til að búa betur að öldruðu fólki en við gerum í dag. Stórátaks er vissulega þörf.

Það frv., sem hér er til umr., beinist að þýðingarmiklum hluta þess vanda sem gamla fólkið á við að stríða. Því styð ég það eindregið, en skora jafnframt á hæstv. heilbr.- og trmrh. að leggja strax fram frv. til l. sem miðar að lausn allra þátta vandans.